Framtíð Laxness tryggð

Frá undirritun samkomulagsins að Gljúfrasteini.
Frá undirritun samkomulagsins að Gljúfrasteini. mbl.is/Ómar

Erfingjar Halldórs Laxness undirrituðu í dag nýjan samning við Vöku-Helgafell um útgáfu verka Laxness á komandi árum. 23. apríl er fæðingardagur Halldórs Laxness og jafnframt ber sumardaginn fyrsta upp á daginn í ár. Svo vill til að vika bókarinnar er jafnframt haldin hátíðleg þessa viku ár hvert og þótti við hæfi að samningurinn skyldi staðfestur þennan dag að Gljúfrasteini.

Sjöstafakverið á 499 krónur

Til að fagna undirrituninni verður strax hafist handa við að gefa verk Laxness út að nýju. Í dag kemur síðasta smásagnasafn Halldórs, Sjöstafakverið, út í kilju. Í tilkynningu segir að bókin verði seld á 499 krónur, það sé mögulegt vegna sameiginlegs átaks rétthafa, útgefandans, prentsmiðjunnar Odda og bóksala sem allir slái ríflega af þóknun sinni.

Sjöstafakverið, sem kom fyrst út árið 1964, er heildstæðasta smásagnasafn skáldsins enda hugsað sem ein órofin heild. Þar er ein saga fyrir hvert æviskeið mannsins og því má lesa sögurnar saman sem þroskasögu. Í kverinu er meðal annars að finna eina frægustu sögu Halldórs, „Dúfnaveisluna“ auk sex annarra sem leiftra af alkunnum húmor hans.

Ókeypis hljóðbók á forlagid.is

Til 1. maí verður öllum landsmönnum jafnframt gert kleift að hala niður án endurgjalds lestri Halldórs á Atómstöðinni. Lesturinn var fyrst fluttur í Ríkisútvarpinu árið 1971 og er býsna tilþrifamikill þar sem skáldið bregður sér í gervi ólíkustu persóna. Atómstöðin var afar umdeild þegar hún kom fyrst út árið 1948 enda fjallaði hún um mikið hitamál í íslensku samfélagi – veru bandaríska varnarliðsins í Keflavík, eða „sölu landsins“. Þótt varnarliðið sé nú á bak og burt er „sala landsins“ og sjálfstæði þjóðarinnar enn deilumál í umræðum um stóriðju í eigu erlendra fyrirtækja, aðild að Evrópusambandinu og samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, svo eitthvað sé nefnt.

Hins vegar er Atómstöðin ekki síður ástarsaga tónlistarnemans Uglu og Búa og ádeila á vestrænt siðferði þar sem Organistinn dregur stórlega í efa hefðbundin kristileg og borgaraleg gildi. Þá má einnig geta þess að í Atómstöðinni kemur í fyrsta sinn fram hugtakið „atómskáld“ sem átti eftir að festast rækilega í sessi í tungumálinu.

Flóknu ferli lokið

Þegar JPV-útgáfa og útgáfuhluti Eddu sameinuðust árið 2007 undir heitinu Forlagið varð Vaka-Helgafell hluti af hinu sameinaða fyrirtæki. Samkeppniseftirlitið setti Forlaginu ýmis skilyrði fyrir sameiningunni og meðal þeirra var að lager og útgáfugögn verka Halldórs Laxness skyldu seld og að útgáfusamningur við erfingja nóbelsskáldsins yrði ekki endurnýjaður. Enginn útgefandi gerði tilboð í útgáfugögnin og síðasta sumar rann þágildandi útgáfusamningur út. Höfundarverk Halldórs Laxness var því án útgefanda og þeir titlar sem til voru á lager seldust smám saman upp.

Erfingjum Laxness þótti þetta ótækt og leitað var til Samkeppniseftirlitsins í von um lausn. Sátt hefur nú náðst milli erfingjanna, Forlagsins og samkeppnisyfirvalda um að Vaka-Helgafell fari áfram með útgáfuréttinn. Í tilkynningu segir að allir hlutaðeigandi fagni þessari niðurstöðu og hlakki til að geta staðið að metnaðarfullri og fjölbreyttri útgáfu á verkum Laxness á komandi árum svo nýjar kynslóðir geti kynnst tímalausum sögunum og einstakri skáldagáfunni sem færði Laxness æðsta heiður sem nokkrum íslenskum höfundi hefur hlotnast, sjálf Nóbelsverðlaunin.

Vefur Forlagsins

Halldór Laxness les heillaskeyti ða Gljúfrasteini árið 1955, skömmu eftir …
Halldór Laxness les heillaskeyti ða Gljúfrasteini árið 1955, skömmu eftir að hann veitti Nóbelsverðlaununum viðtöku. mbl.is/OKM
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler