Erfingjar Stieg Larssons orðnir auðugir

Stieg Larsson.
Stieg Larsson.

Faðir og bróðir sænska rithöfundarins Stieg Larssons erfðu höfundarrétt að bókum hans þegar Larsson lést árið 2004. Á norska viðskiptavefnum e24 er vitnað í Dagbladet sem segir, að feðgarnir hafi til þessa fengið  24 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 4,3 milljarða íslenskra króna.

Að auki nema tekjur af kvikmyndinni Konur sem hata karla, sem gerð var eftir fyrstu bók Larssons, jafnvirði um 9 milljarða íslenskra króna. Óvíst er hve stór hluti þeirra tekna rennur til erfingjanna.

Þegar Larsson lést hafði hann skrifað þrjár bækur en þær voru ekki komnar út. Bækurnar þrjár hafa síðan komið út víða um heim og samtals selst í um 16 milljónum eintaka. Búið er að gera kvikmyndir eftir öllum bókunum og verður sú næsta frumsýnd 18. september á Norðurlöndunum. 

Eva Gabrielson, sem bjó með Larsson í 32 ár, hefur ekki erft neitt eftir hann þar sem þau voru ekki gift og erfðaskrá lá ekki fyrir. Hún hefur átt í deilum við föður og bróður Larssons undanfarin misseri. 

Dagbladet hefur eftir Joakim Larsson, bróður rithöfundarins, að hann vonist til að samkomulag náist við Gabrielson bráðlega. Lögmaður hennar  segir hins vegar, að engin lausn sé í sjónmáli.

mbl.is

Bloggað um fréttina