Benni Hemm Hemm heldur tónleika

Benni Hemm Benn og Alasdair Roberts á æfingu.
Benni Hemm Benn og Alasdair Roberts á æfingu. Morgunblaðið/Ómar

Benni Hemm Hemm flytur tón- og textaverkið Ryk á Book í Íslensku óperunni í kvöld Á tónleikunum, sem eru liður í Listahátíð í Reykjavík, treður Benni upp með skoska tónlistarmanninum Alasdair Roberts og Blásarasveit Reykjavíkur. Hann segist vera að syngja um það sem hann geti eiginlega ekki talað um.

Flutti til Skotlands

Fyrir um ári fluttist Benedikt Hermann Hermannsson til Edinborgar í Skotlandi, fylgdi eftir eiginkonu sinni sem stundar þar nám í arkitektúr. Fyrir vikið lagði hann af hljómsveit sína hér heima um hríð, en hélt þó áfram að starfa sem Benni Hemm Hemm, fann sér nýja samstarfsmenn og samdi nýja tónlist.

Benni segir að í raun sé hann ekki að fást við svo ólíka hluti ytra og hann gerði hér heima; hann sé enn að spila og semja tónlist, en vitanlega töluverður munur á því að starfa að tónlist þar ytra. „Það er frábært að vera í músík hér heima, ótrúlega frábært, en að sama skapi aðeins of þægilegt," segi Benni og kímir. „Úti verð ég að vinna öðruvísi, get ekki hringt í tuttugu manns og kallað saman í tónleika sama kvöldið og lærði því að spilað einn og fór því að semja öðruvísi lög.“

Aladair Roberts kemur fram með Benna í verkinu, en hann segist Benni hafa séð á tónleikum fyrir einskæra tilviljun og hrifist af. „Hann er með svo sérstakan skoskan hreim og mig langaði að fá hann til að syngja með mér, svo fullkominn kandídat í það sem ég var búinn að semja og svo líka það að hann er æðislegur söngvari,“ segir Benni og bætir við að Blásarasveitin hafi aftur á móti verið með frá upphafi, ef svo má segja, því hann sá verkið fyrir sér í óráðsdraumi og þar var hún með. „Ég var fárveikur, í hitamóki, og sá þá fyrir mér hvernig tónlist ég vildi semja næst og hvernig hún ætti að hljóma. Þegar ég var kominn með mynd af henni áttaði ég mig á því að ég var orðinn algjörlega frískur,“ segir Benni og brosir að minningunni.

Óvenjulegt verk

Verkið Ryk á Book er um margt óvenjulegt í tónsmíðasögu Benna og þá ekki síst fyrir það að hann einsetti sér að gefa verkinu meiri tíma en hann var vanur að eyða í tónsmíðar, en líka að hvernig lögin mynda eina heild. „Mig langaði mikið til þess að gera eitthvað stórt verk og þetta er gríðarlega mikið af tónlist, efni í tvær eða þrjár Benna Hemm Hemm plötur. Þetta er líka meira textaverk en ég hef þorað að fara út í áður, bæði hvað það er mikið af orðum og svo líka það um hvað textarnir fjalla.

Það er ákveðin krafa í enskri textagerð að menn séu að syngja um eitthvað alvöru, að syngja játningalög og mér hefur alltaf þótt það frekar glötuð pæling. Mig langaði til að prófa að gera texta um eitthvað sem segja það sem ég myndi aldrei þora að segja við neinn og í því samhengi þá að það er sungið á ensku og skosku í einu og þá skilur áheyrandinn það ekki, það maskast út og þá skilur fólk vonandi ekki hvað ég er að segja. Ég syng um hluti sem ég óttast mjög mikið, sem ég hef mjög miklar áhyggjur af og það sem mig langar helst til að gera.“

Flott og klígjulegt í senn

Þegar söngvarar og listamenn syngja um hluti sem standa hjarta þeirra næst er það of kallað að þeir séu að „opna sig“ en að mati Benna er það oftar en ekki gert til þess að heilla áheyrandann, en ekki endilega til að tjá raunverulega tilfinningar. „Mér hefur alltaf þótt það ... “ segir Benni, hugsar sig um smá stund og heldur svo áfram: „ ... ógeðslegt að vera að syngja um fjölskylduvandamál og einkalíf. Auðvitað er það oft mjög fallegt, en ég kann ekki við þá kröfu í enskri textagerð að textarnir eigi að vera játningatextar, að fólk eigi sífellt að vera að syngja sannleikann um líf sitt,“ segir Benni, en vendir svo sínu kvæði í kross: „Mér finnst þetta þó oft mjög flott og þess vegna er ég að gera þetta, þó það sé líka klígjulegt,“ segir hann og kímir.

„Sumir eru snillingar í því að gera texta og ég á marga vini sem geta það. Svo eru aðrir sem ég þekki til sem syngja um líf sitt og eru að ljúga, segja frá lífsreynslu sem þeir hafa ekki upplifað. Mér finnst flest miklu meira spennandi en að tala um mig og hvað mér líði illa heima hjá mér eða vel og því fannst mér það pínu spennandi verkefni að velta því fyrir mér hvað ég myndi skrifa um ef ég setti mér það verkefni að gera persónulega texta og gekk mjög vel að finna umræðuefni sem ég get eiginlega ekki talað um.“

Í kvöld gefst áheyrendum færi á að heyra hvað það er sem Benni Hemm Hemm vill eiginlega ekki tala um, en getur þó sungið um þegar hann er búinn að flétta saman við það söng með skoskum hreim. Tónleikar hans í Óperunni hefjast kl. 20:00. Einnig verður hann með tónleika í Ketilhúsinu á Akureyri á laugardag kl. 15:00.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant