Að kæra sig um Ísland

Haraldur Þór Stefánsson sýnir svart-hvítar landslagsljósmyndir á neðri hæð Gerðarsafns …
Haraldur Þór Stefánsson sýnir svart-hvítar landslagsljósmyndir á neðri hæð Gerðarsafns í Kópavogi næsta mánuðinn. Kristinn Ingvarsson

Haraldur Þór Stefánsson sýnir svart-hvítar landslagsljósmyndir á neðri hæð Gerðarsafns í Kópavogi næsta mánuðinn. Enda þótt hann hafi verið með myndavélina hátt á lofti í hartnær þrjá áratugi er sýningin, sem Haraldur kallar „Kæra Ísland“, sú fyrsta sem hann heldur. 

Í meira en tvo áratugi hefur Haraldur Þór Stefánsson ferðast vítt og breitt um Ísland til að svala ástríðu sinni – ljósmyndun. Hann hefur aldrei framfleytt sér á myndavélinni en samt dugar hugtakið „áhugaljósmyndari“ skammt til að lýsa honum. Svo miklum tíma og kröftum hefur Haraldur varið til að ögra sér og efla gegnum tíðina.

„Allur minn frítími fer í ljósmyndun og hefur gert lengi,“ upplýsir hann. 

Sofið á bílpallinum

Spurður um eftirlætisstaði sína á Íslandi ranghvolfir Haraldur augunum. „Þeir eru svo margir. Jökulsárlónið, Mývatnssvæðið og Suðurlandið eins og það leggur sig, þangað fer ég líklega oftast. Svona til að nefna eitthvað.“

Spurður hvers vegna í ósköpunum hann hafi aldrei sýnt áður svarar Haraldur því til að það hafi aldrei verið sér kappsmál í sjálfu sér. „Ég hef heldur aldrei tranað mér fram, það er einfaldlega ekki í karakternum. Undanfarin ár hef ég verið að taka myndir meira á mínum eigin forsendum og það gerði útslagið þegar mér var boðið að halda þessa sýningu. Mér fannst ég hafa meira fram að færa en oft áður. Það er heldur ekki amalegt að halda sína fyrstu sýningu í svona fínu safni,“ segir hann brosandi.

Myndirnar á sýningunni, sem eru frá síðustu tíu árum eða svo, eru bæði teknar á filmu og einnig stafrænar myndavélar sem Haraldur hefur notað til jafns en þó hallast meira að stafrænni tækni undanfarin ár. „Gæðin eru þau sömu, bæði kostir og gallar í hvoru fyrir sig þó svo ákveðin nostalgía hafi verið að taka á filmu og fara síðan að framkalla og vinna myndirnar endanlega. Við horfum á breytta tíma og stafrænar myndavélar eru í stöðugri þróun og orðnar býsna góðar þó svo að í dag reyni meira á færni í myndvinnslu en áður. Það sem hefur gerst með þessari nýju tækni er að áhugi fólks á ljósmyndun hefur vaxið ótrúlega hratt og frábært að sjá hversu mikla sköpunargleði Íslendingar hafa. Það sem hefur reyndar setið eftir hér á Íslandi er skilningur myndkaupenda á gæðum því það er ekki nóg að hafa fangað gott augnablik því myndvinnslan, prentunin og almennur frágangur þarf að vera í takti svo úr verði frábær ljósmynd.“

Orka, gleði og sköpun

Haraldur, eða Halli eins og hann kallar sig, fékk snemma gríðarlega mikinn áhuga á ljósmyndun, bæði vegna tjáningarformsins sem og hrifningar af orku, gleði og sköpunarkrafti ljósmyndaranna sem voru aðal töffarar bæjarins á þeim tíma, eins og hann orðar það. „Ég fékk vinnu sem sendill á Morgunblaðinu fjórtán ára gamall og var svo lánsamur að kynnast Ragnari Axelssyni sem gerði það að verkum að ég heillaðist af ljósmynduninni. Raxi var einstaklega hjálplegur á alla vegu og kenndi mér undirstöðuatriðin sem ég bý enn að.“

Hann tók sína fyrstu ljósmynd á alvörumyndavél hinn 11. ágúst 1980 (safn Haraldar er vandlega skráð) og var myndefnið Gísli Ástþórsson og Ólafur K. Magnússon ljósmyndari sem stóðu glaðbeittir í Austurstræti. 

Sami staður – ólík upplifun

Í dag er Haraldur heillaður af landinu, veðrinu og því frábæra ljósi og birtu sem við Íslendingar búum að. „Þannig upplifum við landið með ólíkum hætti í hvert sinn sem gerir það einmitt svo fjölbreytilegt.

Kannski er það landinu að þakka að við eigum fleiri framúrskarandi ljósmyndara en nokkur önnur þjóð, líkt og með íslenska hestinn þar sem harðgert landið hefur mótað bæði menn og dýr.“

Framkvæmdastjóri Toyota

Haraldur hefur um langt árabil starfað við sölu bíla. Hann hóf að selja notaða bíla með framhaldsskólanámi og fyrir tuttugu árum réð hann sig til Toyota í Kópavogi. Þar gegnir hann nú starfi framkvæmdastjóra.

„Þetta tvennt fer afar vel saman,“ upplýsir hann. „Bisness á daginn og sköpun í frítímanum. Það gæti ekki verið betra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson