Berst Bieber eða bugast?

Ungstirnið Justin Bieber hefur svo sannarlega ekki átt sjö dagana sæla undanfarið. Allt byrjaði þetta með því að ljósmyndari sem var að elta hann lést er ekið var á hann. Í kjölfarið náðist mynd af Bieber að reykja meint marijúana og til að bæta gráu ofan á kolsvart slitu hann og kærastan til tveggja ára sambandi sínu.

Það sem á eftir kom var m.a. þetta: Bieber beraði bossann og setti mynd af uppátækinu á Twitter. Myndinni var eytt skömmu síðar. Svo var hann sakaður um að hafa skotið úr leikfangabyssu á öryggisvörð og áreitt konu á líkamsræktarstöð. Og að grípa í brjóst á aðdáanda.

Á meðan öllu þessu hefur staðið hefur mamma hans svo verið að kynna áróðursmynd gegn fóstureyðingum og sonurinn, 18 ára, hefur þurft að lýsa yfir skoðun sinni á því umdeilda málefni.

Kannski má þó upphafið rekja til frekar vandræðalegs augnabliks í haust. Á fyrstu tónleikum sínum á tónleikaferðalagi sem milljónir stúlkna (og mæður þeirra) höfðu beðið eftir með óþreyju, gubbaði hann á sviðinu. Bieber var hins vegar svo mikill unglingur þá (hann hefur síðan elst mjög hratt) að aðdáendur trúðu skýringum hans á Twitter: Aðeins of mikil mjólk fyrir tónleikana.

Bieber hefur nefnilega, líkt og aðrar ungstjörnur sem á undan hafa komið, haft afskaplega hreina og heilbrigða ímynd.  Hann er vissulega töffari sem hefur stjórnað fata- og hártísku drengja frá því að hann var 13 ára. Og hann drekkur mjólk. Ekki bjór.

Bieber er ekki lengur barn heldur ungur karlmaður. Á þeirri þroskabraut sem er þó líklega aðeins rétt að hefjast, hefur stórstjarnan ekki staðið ein. Enginn í heiminum á jafn marga vini. Á Twitter. Þeir eru yfir 30 milljónir. Og fer fjölgandi.

Vinahópurinn er hins vegar þannig gerður að hann lætur nú ekki allt yfir sig ganga sem frá goðinu kemur. Þegar hann var staðinn að meintum kannabisreykingum tóku aðdáendur hans sig saman (voru þó ginntir til þess) og skáru sig í handleggina í mótmælaskyni. Uppátækið vakti óhug margra. Þetta atvik sýndi þó þann gríðarlega samtakamátt sem Beliebers (heittrúaðir Bieber-aðdáendur) hafa.

Hann er ungur en hrikalega ríkur og valdamikill þar af leiðandi. Í fyrra sagði tímaritið Forbes hann þriðja valdamesta skemmtikraft heims en árið 2011 þénaði hann 55 milljónir dala, rúmlega 7 milljarða króna.

En er Bieber í hættu á að fara sömu leið og til dæmis Britney Spears og Lindsay Lohan? Eða nær hann að komast hjá svipuðum áföllum og þær stöllur og standa af sér illt umtal?

Dálkahöfundur Guardian, Charlie Brooker, segir að ævi Biebers geti aðeins þróast á tvo vegu:

 Það er árið 2021. Kona sem söng ákaft með tónlist hans er hún var 13 ára gömul er að lesa skilaboð frá kærastanum á símanum sínum. Allt í einu sprettur upp Twitter-færsla frá Justin Bieber þar sem hann skammast yfir því að þurfa að standa í biðröð eftir Hertz-bílaleigubíl. Hann hefur ekki gefið út tónlist lengi en annað slagið komið fram í upprifjunarþáttum í sjónvarpi, bitur út í fyrrverandi umboðsmenn sína. Aðdáandinn minnist ekki lengur gleðistundanna sem hún átti með Bieber á unglingsárunum. Með því að strjúka yfir skjá snjallsímans þurrkar hún Bieber út af Twitter - hún er ekki lengur fylgjandi hans.

Bieber fær svo skilaboð um að hann hafi misst einn fylgjanda. Hann á ekki lengur 30 milljón vini heldur aðeins 6 milljónir. Þeim hefur farið fækkandi allar götur síðan janúar 2013 er hann rasaði út. Á meðan Bieber bíður eftir bílaleigubílnum leitar hann þennan fyrrverandi fylgjanda uppi og skrifar að hann sé feginn að vera laus við hana og kallar hana tæfu. Hún kallar hann fífl á móti. Slúðursíður taka deilurnar upp í fréttum sínum og kalla þessa föllnu stjörnu Justin Bitra. Vegfarandi tekur svo myndskeið af illa hirtum og pirruðum Bieber í biðröðinni við Hertz og setur það á netið með fyrirsögninni: Justin Beygla. 

Hin leiðin sem Bieber gæti farið er þessi að mati dálkahöfundarins: Bieber tekur sig saman í andlitinu, býr sér til nýja ímynd í anda Justins Timberlake og eignast 70 milljónir aðdáanda á Twitter til viðbótar. Hann hannar einkennisbúninga og semur þjóðsöng fyrir þennan milljón manna her sinn. Smám saman tekur herinn svo völdin í þorpum og borgum heims. Hermennirnir ráðast á fólk með ofbeldi og kveikja í bifreiðum. Þetta endurtekur sig um alla heimsbyggðina. Þúsund ára eymd tekur við.

„Því miður, þetta eru einu tveir möguleikarnir sem blasa við Bieber,“ skrifar Brooker.

Aðrir eru auðvitað mun bjartsýnni og hafa trú á litla stráknum með brúnu augun sem getur með brosi nótt í sólbjartan dag breytt.

Nú er þess beðið með eftirvæntingu að þáttur Saturday Night Live sem helgaður verður Bieber verði frumsýndur 9. febrúar. Þar verður þessi kanadíski prins í aðalhlutverki og hefur sagst ætla að láta allt flakka. Allt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson