Stórtíðindi frá Cannes

Lóan í nýju myndinni.
Lóan í nýju myndinni. mbl.is

Hilmar Sigurðsson og fyrirtækið hans Gunhil, voru að landa hér í Cannes sölu í 28 löndum með alþjóðlega sölufyrirtækinu ARRI Worldsales á teiknimynd sem er ekki farin í tökur og mun ekki verða frumsýnd fyrr en árið 2015, ef allt gengur upp.

Hilmar var einn aðalmaðurinn á bakvið íslenska þrekvirkið Þór - Hetjur Valhallarsem var fyrsta íslenska teiknimyndin í fullri lengd og var seld út um allan heim. Sú mynd veitti mörgum íslenskum listamönnum tækifæri til að sýna að þeir standa öðrum alþjóðlegum listamönnum ekki að baki. Handritið var afbragðsvel skrifað, leikstjórn og teikningar voru langt umfram meðalmennskuna. Undirritaður hefur orðið þess heiðurs aðnjótandi að lesa handritið að nýju myndinni sem var verið að selja til 28 landa hér á Cannes og getur vitnað um afbragðshandverk.

Friðrik Erlingsson sem skrifaði bæði handritin er búinn að sanna sig sem afburðahandritshöfundur og er sómi að því að Ísland hafi náð að rækta slíkan höfund. Þegar litið er til þess hvað Hilmar Sigurðsson og Gunnar Karlsson teiknari gerðu með síðasta handrit Friðriks má búast við því að glæsileg íslensk teiknimynd í fullri lengd muni von bráðar koma í bíóhúsin íslensku.

Þegar ég hitti Hilmar hér úti í Cannes er hann sáttur með árangurinn. Aðspurður hver sé lykillinn að árangrinum segir hann að þeir séu margir. „Gunnar Karlsson er náttúrlega töframaðurinn í þessu,“ segir Hilmar. „Hann hannar útlitið og skapar karakterana í myndinni. Friðrik er meistari sögunnar og svo höfum við fengið Árna Ólaf Ásgeirsson til að leikstýra með Gunnari og þegar maður er með svona teymi að þá eru manni allir vegir færir. Handritið er frábær þroskasaga lítillar lóu, litla fuglsins sem við þekkjum svo vel á Íslandi. Við segjum söguna af litlum undirmálsfugli á Íslandi sem er að reyna sig í lífinu. Lóan er lítil og ekki efnileg í stóra bardaga við stærri fugla en það er hægt að bjarga sér ef maður lærir að vera lítill og lifa af.“ Það sem er svo fallegt í handritinu er að maður kynnist flestum fuglum Íslands og allir hafa þeir sína þroskasögu. Hver fugl, hver karakter sögunnar, er áhugaverður, allt frá versta klisjufugli til besta furðufugls. Sagan fer yfir þessa flóru fuglalífs en missir aldrei sjónar á lóunni litlu sem er aðalpersónan og þroskasaga hennar sem er saga okkar allra sem skiljum ekki þennan valdaheim í kringum okkur og erum bara undirmáls og verðum það alltaf. Lóan fær óvænta hjálp alls staðar að og óvæntar árásir einnig. Þetta er hættulegt líf og við höldum með lóunni sem ákveður að vera ekki vorboði heldur þrauka veturinn og vera hér í skítakuldanum allan ársins hring einsog við hin; ættum við Íslendingarnir ekki að hafa flogið héðan burt fyrir löngu?

Aðspurður hvað myndin muni kosta segir Hilmar að það verði ekki undir 1,3 milljörðum íslenskra króna. „Þetta verður á svipuðu róli og síðasta mynd. Þetta væri ekki hægt nema út af þátttöku annarra þjóða í verkefninu. Hún verður að hluta framleidd í Þýskalandi og að hluta heima á Íslandi. Það fer ekkert á flug nema maður komist í alþjóðlegt samstarf og sölur. Við höfum verið að vinna í verkefninu lengi en eftir að alþjóðlega samstarfið hófst þá fór þetta fyrst af stað fyrir alvöru. Eftir að við kynntum myndina á Cartoon Movies í mars er þetta farið að rúlla. Við munum vonandi ná að frumsýna árið 2015. Þetta var hálfgerður uppboðsmarkaður núna um helgina og löndin komu í hrönnum til að kaupa myndina. Rússland, Pólland, Belgía, Holland, S-Kórea, Kína og fleiri – þetta kom bara í „lange baner“. Það var gaman að vera þarna og sjá hana seljast svona snemma í framleiðsluferlinum.“

Aðspurður hvort hann hafi góða reynslu af samstarfi við Þjóðverjana segir hann að svo sé. „Þjóðverjarnir eru traustir, standa við sitt og eru eiginlega aldrei í einhverjum skrítnum dílum. Þegar maður er að eiga við menn í anglósaxneska heiminum þá er alltaf verið að reyna að skvísa einhverjum skrítnum atriðum inn í samningana, eitthvað sem ég hef aldrei upplifað með Þjóðverjunum. Það er rosalega gott að vinna með þeim.“

Aðspurður hvort þetta sé í fyrsta skiptið sem íslenski fuglinn lóan sé fluttur út, heldur hann að svo sé ekki. „Hún var grilluð á teini hérna áður fyrr. Og á hinn bóginn er hún alltaf að flytja út á hverju hausti þegar hún bara stingur okkur Íslendinga af. En hún kemur alltaf aftur heim til okkar,“ segir Hilmar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant