Teppaleggur jöklana með einstakri ull

Myndir teknar á Langjökli þar sem Sit on Iceland hlýjaði …
Myndir teknar á Langjökli þar sem Sit on Iceland hlýjaði mörgum botnum

Sigrún Lára Shanko hefur síðastliðin tuttugu ár unnið við textíllist. Hún býr til ullarteppi sem vakið hafa mikla athygli erlendis. Þau skarta meðal annars íslenskum jöklum og voru sýnd á sýningunni The Sleep Event sem haldin er í Lundúnum fyrir evrópsk lúxushótel. Í framhaldi var fjallað um teppin hjá RIBA, Royal Institute of British Architects, sem þykir gríðarmikill heiður.

Sigrún Lára komst að því þegar hún bjó í Bretlandi að ekki væri sjálfgefið að geta skroppið út í hannyrðabúð og keypt eins og nokkra ullarhnykla. „Ég var að sauma sessur í borðstofustóla og vantaði ull. Á þeim tíma voru hannyrðaverslanir ekki aðgengilegar, nema helst á Suður-Englandi,“ útskýrir Sigrún Lára sem sjálf bjó í norðurhluta landsins. „Þannig að ég þurfti að fara alla leið til London á hannyrðasýningu í Olympia til að fá ull,“ segir hún en það var einmitt á hannyrðasýningunni sem hún fékk innsýn í heim silkimálunar og litunar og þá varð ekki aftur snúið. Ullina fékk hún og meira til.

Að nema silkimálun

Silkimálun er kennd á fáum stöðum og ekki hér á landi og því sökkti Sigrún Lára sér í nám sem krefst sjálfsaga og skipulags. „Ég keypti bækur eftir góða listamenn í faginu, breska, þýska og bandaríska og lærði af þeim. Ég tók mér sjö ár í það,“ segir hún. Eftir að hún fluttist heim til Íslands árið 1996 var hún í fullu starfi en litaði silki á kvöldin. Hún var með vinnustofu á Skólavörðustígnum, Shanko Silki, til ársins 2009. „Eftir hrunið var þetta það fyrsta sem fólk hætti að kaupa: dýrindis silkislæður og teppi,“ segir Sigrún Lára sem hélt þó ótrauð áfram og opnaði vinnustofu annars staðar, fyrst að Álafossi, Korpúlfsstöðum og síðar í Gufunesi. Hún og vinkona hennar, Sigríður Ólafsdóttir, stofnuðu félag til að búa til gólfteppi og það hefur vakið mikla athygli, einkum og sér í lagi utan landsteinanna.

Opinberunin 2012

Hönnunarmars árið 2012 var tilvalinn vettvangur til að sýna hvað þær stöllur höfðu verið að bralla og þar sýndu þær fyrstu teppin.

Skömmu síðar birtist mynd af teppi eftir Sigrúnu Láru í tískutímaritinu Elle Interriör. „Þar notuðum við árnar á teppin og gerðum þær annað hvort eftir minni, landakortum, loftmyndum eða google map.“

Boltinn var farinn af stað og fór að rúlla fremur hratt. Ekki leið á löngu þar til virtur tískuvefur, Fashion Trend Forcasting & Analysis, valdi hönnun þeirra Sigrúnar Láru og Sigríðar eina af tíu bestu af þeim 500 hönnuðum sem fram komu á Hönnunarmars árið 2012.

„Eftir sýningu á teppunum í Helsinki varð sendiherra Íslendinga þar svo hrifinn af teppunum að hún vildi fá að hafa þau áfram því hún vildi setja upp sýningu heima hjá sér sem hún kallaði Dialogue sem er þá samtal finnskra og íslenskra hönnuða,“ segir Sigrún Lára.

Sæti uppi á Langjökli

Ævintýrið, sem ef til vill er bara rétt að byrja, hélt áfram og við tóku sýningar í öðrum löndum en sömuleiðis verkefni hér heima. „Sit on Iceland“ var eitt þeirra. „Við bjuggum til litlar sessur eða svona mini-gólfteppi. Það er hægt að sitja á þeim, standa á þeim, hafa þær uppi á vegg, úti í bíl, hengja þær á bakpokann og setjast á þær hvort sem er sumar eða vetur. Sessurnar voru svo prófaðar uppi á jökli og það var gott að sitja á þeim í snjónum,“ segir Sigrún Lára.

Hönnunarsýningin í Peking

Fyrir tilstilli íslenska sendiráðsins í Kína var fyrirtæki þeirra vinkvenna, Élivogar, valið sem fulltrúi Íslands á hönnunarsýningunni í Peking 2013. Skömmu áður hafði Sigríður þurft að hverfa til annarra starfa og því fór Sigrún Lára út ásamt eiginmanni sínum, fyrst til Lundúna og því næst til Peking.

Sigrún Lára hefur síðan þá sýnt undir eigin nafni, Shanko Rugs og farið út í eilítið öðruvísi hönnun. Þar nýtir hún bakgrunn sinn í silkimálun. „Ég fór að hugsa hvort ekki mætti nýta nálina, ullarnálina sem maður gerir teppin með, sem pensil með því að skipta um þræði í nálinni og reyna að fá skyggingu og smá þrívídd.“

Verkið er tímafrekt því fjórir til fimm þræðir eru í nálinni og stundum þarf aðeins að skipta einum þeirra út. Hún stendur uppi á stillans og þarf að klifra niður til þess að skipta um lit í nálinni svo ljóst er að þolinmæði er dyggð í þessari listsköpun.

Þessi misserin eru það íslensku jöklarnir sem eru teppalagðir eftir vatnslitaskissum Sigrúnar Láru á einstakri íslenskri ull. Eftir allar sýningarnar hefur eftirspurnin verið mikil. Svo mikil að Sigrún Lára gat ekki orðið við pöntun frá Kína því pöntunin var svo stór. Það má því með sanni segja að hún sé í útrás með jöklateppin sem vakið hafa mikla athygli ytra.

Sigrún Lára Shanko við sýningarbásinn á Sleep Event
Sigrún Lára Shanko við sýningarbásinn á Sleep Event
Teppið Stökk í tímaririnu Elle (blátt mynstur á gráum grunni) …
Teppið Stökk í tímaririnu Elle (blátt mynstur á gráum grunni) eftir Sigrúnu Láru Shanko.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler