„Við erum grandalaus“

Fjölskyldufaðirinn í Turist svíkur eiginkonu sína og börn þegar mest …
Fjölskyldufaðirinn í Turist svíkur eiginkonu sína og börn þegar mest á reynir og getur síðan ekki horfst í augu við gjörðir sínar.

„Ég er mjög upptekinn af því hvernig myndir hafa áhrif á hegðun okkar, því máttur myndanna er mun meiri en máttur hins ritaða orðs. Mér finnst við upp til hópa vera naíf eða grandalaus gagnvart því hvernig myndir breyta bæði hegðun okkar sem og sýn okkar á heiminn,“ segir sænski leikstjórinn Ruben Östlund þegar hann er inntur eftir því hverju hann hyggist beina sjónum sínum að á masterklassa eða meistaraspjalli á vegum RIFF í Norræna húsinu föstudaginn 26. september kl. 12. Östlund er sérstakur heiðursgestur RIFF í ár undir yfirskriftinni „Upprennandi meistari“.

„Margir halda að fréttir eða heimildarmyndir hafi önnur áhrif en t.d. leiknar kvikmyndir eða auglýsingar. Ég er ósammála því vegna þess að maðurinn sem tegund hermir eftir því sem fyrir augað ber,“ segir Östlund og rifjar sem dæmi upp þau áhrif sem kvikmyndir Quentins Tarantinos hafa haft á meðhöndlun skotvopna. „Tarantino lætur byssumenn sína snúa byssunni til hliðar svo hún liggi flöt. Skotglaðir glæpamenn hér í Svíþjóð fóru að leika þetta eftir með þeim afleiðingum að skotbardagar urðu mun blóðugri, því það er mun erfiðara að hitta skotmarkið þegar byssunni er snúið svona.“

Þar sem þú skapar sjálfur myndir liggur beint við að spyrja hvort þú finnir þá til ábyrgðar?

„Höfuðmarkmið mitt þegar kemur að kvikmyndasköpun felst í því að reyna að leiðrétta einhverja almenna ranghugmynd manneskjunnar um lífið og samfélagið. Þannig beindi ég sjónum að hugmyndum samfélagsins um litarhaft fólks í Play meðan hlutverk kynjanna eru til skoðunar í Turist. Ég er mér mjög meðvitaður um þá ábyrgð sem felst í því að búa til myndir og vil því gjarnan ræða myndir mínar við áhorfendur,“ segir Östlund og tekur fram að hann geri á móti miklar kröfur til áhorfenda. „Ég vil að áhorfendum líði eins og þeir liggi á gægjum,“ segir Östlund, en kvikmyndataka hans ýtir undir þessa tilfinningu þar sem kvikmyndastíllinn einkennist af naumhyggju, löngum tökum og fáum klippingum.

Hvernig velurðu viðfangsefni þín?

„Hugmyndin að Play kviknaði út frá fréttaflutningi af þjófagengjum í Gautaborg þar sem ég bý. Þessi saga tekur á mörgum erfiðum viðfangsefnum, s.s. hvernig stéttaskipting og hörundslitur setur fólki skorður. Hugmyndin að Turist kviknaði út frá athugun minni á því hverjir lifa af í sjóslysum. Allt frá Titanic 1912 til Estonia 1994 má sjá að það eru ungir karlmenn sem lifa af meðan dánartíðnin er hæst í hópi kvenna og barna. Samfélagið ætlast til þess að karlmaðurinn verndi fjölskyldu sína, en tölfræðin segir okkur að karlmenn eru líklegri til að hugsa um eigið skinn og bjarga sér í hættulegum aðstæðum. Ég varð mjög upptekinn af þeim hlutverkum sem okkur er ætlað að leika þegar kemur að kjarnafjölskyldunni. Væntingar og kröfur samfélagsins til þess hvernig karlmenn og konur eiga að vera setja kynjunum hins vegar alltof þröngar skorður þegar kemur að raunveruleikanum og hefta tjáningu okkar,“ segir Östlund og bendir á að karlmaðurinn sem hetja og konan sem kynferðislegt viðfang séu þekktustu birtingarmyndir kynjanna í kvikmyndum.

Fátækir eru bara breyskir

Þú ert þekktur fyrir sérstakan tökustíl þar sem þú notast við langar tökur, lætur myndavélinu mikið vera kyrra og klippir lítið. Þessi stíll er ekki eins áberandi í nýjustu mynd þinni. Hvað veldur? Kallaði viðfangsefnið á aðra nálgun?

„Já, tvímælalaust. Í fyrri myndum mínum hef ég notast mikið við víð skot til að fanga samspilið milli persóna myndanna. Sem dæmi voru allar átta aðalpersónur Play í nær öllum skotum myndarinnar. Myndin byggðist upp á 48 senum sem hver um sig var að meðaltali um fjórar mínútur að lengd,“ segir Östlund og bætir við: „Eiginkonan í Turist getur vitrænt skilið hvers vegna eiginmaður hennar flúði af hólmi, en tilfinningalega hefur hann svikið fjölskyldu sína á versta hátt. Stór hluti framvindunnar gerist þannig innra með persónunum og til að fanga tilfinningarnar varð ég að komast nær persónunum með myndavélina og þar með varð erfiðara að ná öllum andlitum í einu skoti og þá neyddist ég til að nýta klippitæknina. Mig langaði einnig til að skapa meiri dýnamík í þessari mynd og til þess þurfti ég að nota klippingar.“

Þú hófst kvikmyndaferil þinn með gerð skíðamyndbanda áður en leiðin lá í kvikmyndaskólann í Gautaborg. Hvernig hefur sá bakgrunnur þinn haft áhrif á þig sem listamann þegar kemur að leiknum kvikmyndum?

„Ég hef aldrei haft neinn sérstakan áhuga á kvikmyndalistinni sem slíkri. Ég fór að fanga hluti á filmu vegna ástríðu minnar fyrir skíðaíþróttinni. Ég hafði mun meiri áhuga á því sem var fyrir framan kvikmyndatökuvélina en kvikmyndalistinni og -sögunni. Þegar ég byrjaði í kvikmyndaskólanum þurfti ég að finna annað viðfangsefni sem ég gæti beint myndavélinni að. Það sem heillar mig helst við kvikmyndir eru þau öflugu áhrif sem þær geta haft á fólk. Mér sýnist að þeir sem bera of mikla virðingu fyrir kvikmyndinni sem listformi geti lent í ákveðnum ógöngum og því hefur það veitt mér umtalsvert frelsi að velta þessum hlutum ekki of mikið fyrir mér,“ segir Östlund og tekur fram að reynslan úr skíðamyndunum hafi kennt sér að leggja þurfi mikla vinnu í upptökurnar sjálfar og því taki hann yfirleitt upp í 60 daga í stað 30 eins og venjan sé.

Ertu farinn að leggja drög að næstu mynd?

„Já. Vinnuheiti hennar er The Spuare og ég geri mér vonir um að geta frumsýnt hana árið 2017,“ segir Östlund og tekur fram að hann muni í myndinni m.a. beina sjónum sérstaklega að betlurum. „Oft á tíðum er fjallað um fátækt í kvikmyndum með tilfinningasemina að leiðarljósi. Í mínum huga eru fátækir bara mannlegir og breyskir. Sumum mun kannski blöskra sú nálgunarleið mín. Það kemur allt í ljós.“

Östlund situr fyrir svörum

Ruben Östlund verður viðstaddur sýningar á þremur kvikmyndum sínum í Bíó Paradís og situr síðan fyrir svörum áhorfenda. Myndirnar sem um ræðir eru De ofrivilliga (Ósjálfrátt, 2008), sem sýnd er 26. september kl. 17.30, en í henni skoðar Östlund samspil einstaklingsins við hópinn sem hann tilheyrir.

Turist (Túristi, 2014), sem sýnd er 27. september kl. 15.30, fékk dómnefndarverðlaun á kvikmyndahatíðinni í Cannes sl. vor. Myndin fjallar um fjölskyldu í skíðaferðalagi. Þegar stórt en hættulítið snjóflóð fellur tekur fjölskyldufaðirinn til fótanna í stað þess að vernda fjölskyldu sína.

Í Play (Leikur, 2011), sem sýnd er 27. september kl. 19.30, tekur Östlund fyrir raunverulega atburði í Gautaborg þar sem hópur þeldökkra táningsdrengja rændi hvíta jafnaldra sína á götum úti. Myndin, sem kveikti miklar og heitar umræður um kynþáttafordóma og staðalmyndir, hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2012.

Ruben Östlund.
Ruben Östlund.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant