Flókin persóna og full af þversögnum

Mike Leigh
Mike Leigh

Enski kvikmyndaleikstjórinn Mike Leigh er heiðursgestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar, RIFF, í ár og verður heiðraður 1. október á Bessastöðum af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrir æviframlag sitt til kvikmyndalistar.

Leigh er vel að slíkum heiðri kominn, margverðlaunaður leikstjóri sem hóf feril sinn í leikhúsi og sjónvarpi og náði athygli heimsins með kvikmyndinni Naked árið 1993 sem var tilnefnd til Gullpálmans, aðalverðlauna kvikmyndahátíðarinnar í Cannes. Pálmann hlaut hann þremur árum síðar fyrir Secrets and Liesog af öðrum eftirminnilegum kvikmyndum þessa frábæra leikstjóra má nefna Veru Drake (2004) sem hlaut aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum, Gullljónið og Happy-Go-Lucky (2008) sem hlaut mikið lof gagnrýnenda.

Nýjasta kvikmyndin hans, Mr. Turner, hefur verið ausin lofi af gagnrýnendum og verður sýnd á RIFF sem hefst í dag, auk þriggja annarra: Life is Sweet, Topsy Turvy og Naked. Mr. Turner fjallar um enska listmálarann J.M.W. Turner (1775-1851) sem Timothy Spall leikur með glæsibrag og hlaut fyrir verðlaun í Cannes sem besti aðalleikari.

Leigh er þekktur af þeirri aðferð að byggja handrit sín á ákveðinni grunnhugmynd sem hann þróar áfram á spunaæfingum með leikurum og mótar þannig persónurnar og handritið með þeim. Útkoman verður einkar trúverðugar persónur og feiknagóð frammistaða leikara.

Áhugaverð persóna

„Kallaðu mig Mike,“ segir Leigh hinn alþýðlegasti þegar blaðamaður ávarpar hann „hr. Leigh“. Greinilegt að þar fer maður lítt gefinn fyrir formlegheit. Og svarið við fyrstu spurningu, hvers vegna hann hafi ákveðið að gera kvikmynd um hinn mikla listmálara J.M.W. Turner, liggur e.t.v. í augum uppi: „Í fyrsta lagi af því hann er stórkostlegur listmálari. Það hafði reyndar ekki verið gerð kvikmynd um hann áður, sem er stórmerkilegt. Málverk hans eru eins og sniðin fyrir breiðtjaldið, stór í sniðum og myndefnið stórbrotið og dramatískt. Önnur ástæða er sú að þegar ég fór að kynna mér Turner, þennan flókna persónuleika með öllum sínum þversögnum og sérvisku, og bera saman við þau guðdómlegu og stórbrotnu verk sem hann málaði fannst mér það afar áhugaverður útgangspunktur fyrir kvikmynd.“

– Mér skilst að 15 ár séu liðin frá því þú fékkst þá hugmynd að gera kvikmynd um Turner?

„Jú, það eru vissulega 15 ár frá því ég fór að reyna að fjármagna hana, tala um hana og viða að mér heimildum um Turner.“

– Þetta hlýtur að hafa verið kostnaðarsöm kvikmynd að framleiða þar sem hún gerist á 19. öld með tilheyrandi sviðsmyndum, búningum o.fl.?

„Hún er aðeins kostnaðarsamari en hinar myndirnar sem ég hef gert en þó varla svo dýr í framleiðslu því við gerðum hana fyrir miklu lægri upphæð en þurfti til upphaflega. Við vorum afar uppfinningasöm og nýtin við gerð hennar. Okkur langaði mikið að taka upp í Feneyjum því þangað fór Turner og sá hluti ævi hans er afar mikilvægur. Við höfðum einfaldlega ekki efni á því, því miður. Ég vona að myndin sé í lagi, þrátt fyrir það,“ segir Leigh og blaðamaður fullvissar hann um að svo sé.

Á að vera fyndin

– Þú hlýtur að hafa stundað miklar rannsóknir áður en þú byrjaðir að skrifa handritið?

„Ójá, það er hægt að kynna sér Turner endalaust. Hann málaði líka svo gríðarlega mörg verk, um 30 þúsund að talið er. Í Tate-listasafninu í Lundúnum einu saman eru 20 þúsund verk,“ segir Leigh.

Turner var æði skrautlegur persónuleiki, ef marka má kvikmynd Leighs. Einrænn, sérvitur og tilfinningalega bældur maður með náðargáfu þegar kom að myndlist. Blaðamaður ber þessa mannlýsingu undir Leigh. „Já, hann var það en eins og sjá má af túlkun Timothys Spalls var hann líka bæði eigingjarn og örlátur, einrænn en gat verið mjög félagslyndur, karlremba að mörgu leyti en á sama tíma rómantískur og ástúðlegur. Hann var margslunginn persónuleiki og við reynum að koma því til skila.“

– Þetta hlýtur að vera algert draumahlutverk fyrir leikara?

„Ég hugsa það og mér finnst Tim Spall takast vel á við þá áskorun,“ segir Leigh. Enginn annar en Spall hafi komið til greina í hlutverkið en þeir Leigh hafa starfað saman í fjölda kvikmynda.

– Spall stendur sig frábærlega og er býsna hlægilegur, rymur mikið og er vandræðalegur. Ég vona að ég sé ekki að móðga þig en mér fannst myndin oft á tíðum mjög fyndin.

„Þú ert alls ekki að móðga mig, ekki vitundarögn, það er mitt hlutverk að fá þig til að hlæja og gráta. Ég hefði orðið móðgaður ef þú hefðir sagt að myndin væri ekkert fyndin. Það sem þér finnst fyndið finnst mér fyndið,“ segir Leigh, léttur í bragði.

– Spall lærði listmálun í tvö ár áður en tökur hófust, að þinni beiðni. Hjálpaði það nám honum mikið þegar kom að tökum?

„Auðvitað. Ef hann hefði ekki gert það hefðu atriðin þar sem hann er að mála virkað ótrúverðug og orðið vandræðaleg,“ svarar Leigh.

– Og þú þurftir þ.a.l. ekki að klippa atriðin og sýna höndina á einhverjum öðrum að mála?

„Til þess var nú leikurinn einmitt gerður, ég myndi aldrei gera það. Það væri algjörlega óviðunandi og ekki minn stíll í kvikmyndagerð.“

Hefðu þurft lítinn, feitan strák líkan Spall

Mr. Turner hefst á öðrum fjórðungi 19. aldar þegar Turner var á hátindi ferils síns, orðinn mikilsvirtur og auðugur listmálari og einn áhrifamesti meðlimur Konunglegu listakademíunnar í Lundúnum. Hvers vegna skyldi Leigh hafa kosið að fjalla um það tiltekna tímabil?

„Tja, þessi lokakafli ævi hans virðist vera sá áhugaverðasti og allt sem ég vildi segja um hann gat rúmast innan þessara 26 ára. Þar skiptir mestu máli samband hans við föður sinn, andlát föður hans, samband hans við frú Booth sem rak gistiheimili við sjávarsíðuna og á þessum árum varð hann róttækari í listsköpun sinni og almenningur fór að sýna honum mikla vanvirðingu og drottningin líka. Ýmsir aðrir viðburðir komu líka við sögu á þessu tímabili. Ef við hefðum ákveðið að gera allri ævi hans skil hefðum við þurft að finna lítinn, feitan strák sem lítur út eins og Tim Spall og beita ýmsum klunnalegum brögðum sem ég hef ekki áhuga á og flækjast fyrir frásögninni,“ svarar Leigh.

– Undir lok myndar afþakkar Turner rausnarlegt boð kaupsýslumanns sem vill kaupa öll verkin hans og segist heldur vilja gefa þjóðinni verkin þannig að hún fái að njóta þeirra um ókomna tíð. Gerðist þetta í raun og veru?

„Algjörlega, það kom til hans maður og bauð honum 100.000 pund, sem var himinhá upphæð á þessum tíma, á fimmta áratug 19. aldar. Turner átti sér þann draum að verkin hans yrðu varðveitt á einum stað og sýnd almenningi ókeypis og sú varð raunin. Ef þú ferð í Tate Britain-safnið í Lundúnum eða National Gallery þá eru verkin hans þar, verk sem hann gaf þjóðinni. Á þessum tíma voru nær engin listaverk aðgengileg almenningi, þau voru öll í einkaeigu þannig að þetta var mjög mikilvæg og róttæk framtíðarsýn hjá Turner,“ segir Leigh. Turner hafi verið frumkvöðull.

Allir holdvotir

– Í myndinni lætur Turner binda sig við mastur skips í vonskuveðri úti á sjó. Gerðist það í raun og veru?

„Því er haldið fram og hann hélt því sjálfur fram. Fræðimenn samtímans telja þetta hins vegar ekki hafa gerst en mér er alveg sama um það. Þetta er þekkt saga af Turner og ef maður er að gera kvikmynd um hann er algjört lágmark að hafa hana með,“ svarar Leigh. Spall hafi verið bundinn við mastur í upptökuveri, gervisnjó blásið af krafti á hann og vatn látið dynja á honum. „Við urðum reyndar öll holdvot,“ segir Leigh sposkur.

– Það hlýtur að hafa verið skemmtilegur tökudagur?

„Já, svona lagað er skemmtilegt, það sem Orson Welles líkti við að leika sér með lestarsett þegar kom að kvikmyndagerð.“

Að lokum er Leigh spurður hvort hann njóti þess að sækja kvikmyndahátíðir, þiggja verðlaun og svara spurningum áhorfenda í sal, eins og hann mun gera á RIFF.

„Að þiggja verðlaun skiptir mig ekki svo miklu máli, þótt það sé gott út af fyrir sig. En að ræða við fólk um myndirnar mínar og þá sérstaklega áhorfendur er alltaf örvandi. Maður áttar sig betur á því sem maður er að gera, sér verkin í öðru ljósi, og það er lærdómsríkt. Að ferðast um heiminn og sækja hátíðir, svara spurningum gesta o.s.frv. er töluvert auðveldara en að búa til kvikmynd.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant