Borðuðu ógeðslegan hákarl

Hljómsveitin Flaming Lips
Hljómsveitin Flaming Lips

„Við erum mjög heppnir að vera boðið aftur til Íslands,“ segir Wayne Coyne, forsprakki bandarísku rokksveitarinnar The Flaming Lips sem kemur til með að spila á Iceland Airwaves-hátíðinni sem stendur dagana 5. til 9. nóvember næstkomandi.

„Um tíma leit jafnvel út fyrir að við myndum aldrei koma aftur til Íslands. Við höfðum mjög gaman af því þegar við spiluðum á Iceland Airwaves árið 2000 og ferðin er mjög eftirminnileg. Þá spiluðum við meðal annars með Suede og Thievery Corporation, borðuðum rotinn hákarl sem var ógeðslegur, kíktum á eldfjöllin og Bláa lónið. Það var töfrum líkast. Það var á þeim tíma er ákveðin dulúð umlukti enn Reykjavík. Það var mjög gaman að upplifa borgina þannig,“ segir Coyne en hann kveður Reykjavík hafa breyst talsvert út á við á þeim fjórtán árum sem liðin eru frá því sveitin steig síðast á svið á íslenskri grundu.

Spila helstu slagarana

Coyne segir að tónleikarnir í nóvember verði að öllum líkindum nokkuð frábrugðnir þeim sem sveitin stóð fyrir um aldamótin en ákveðnir þættir séu þó alltaf með svipuðu sniði.

„Við munum eflaust spila vinsælustu lögin af Yoshimi Battles the Pink Robots og The Soft Bulletin. Þar eru lög sem við spilum nær öll kvöld,“ segir hann en á þeim plötum má meðal annars finna lög á borð við „Do You Realize??“, „Race for the Prize“ og „Waitin' for a Superman“.

„Það eru samt engir tvennir tónleikar nákvæmlega eins. Við reynum þó alltaf að vera eins háværir og kraftmiklir og við getum auk þess sem við reynum okkar besta til að tengjast hverjum viðburði tilfinningalegum böndum. Okkur þykir einnig mikilvægt að vinna með áheyrendum og mynda tengsl við þá. Við brúkum auk þess nær alltaf konfettí og hendum fullt af drasli út um allt,“ segir söngvarinn kíminn en sveitin er þekkt fyrir ansi skrautlega sviðsframkomu.

„Ég veit ekki hvort tónleikar okkar þykja svo tilraunakenndir í dag. Í kringum aldamótin vorum við ef til vill framúrstefnulegir og frumlegir en í dag eru mjög mörg bönd með svipaða sviðsframkomu og við,“ segir hann en kveðst þó mjög sáttur við að hljómsveitir líti til þeirra þegar kemur að því að halda uppi stemningu á tónleikum.

Furðulega tengdir Bítlunum

Áætlað er að fjórtánda breiðskífa The Flaming Lips, With a Little Help from My Fwends, komi út 28. október, aðeins nokkrum dögum áður en sveitin stígur á svið í Vodafonehöllinni, sunnudaginn 9. nóvember. Á plötunni má finna þrettán lög sem öll eru unnin í samstarfi við annað tónlistarfólk, þar á meðal Moby og Miley Cyrus, en um er að ræða einskonar endurgerð plötunnar Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band með Bítlunum sem kom út árið 1967.

„Við höfum verið að spila „Lucy in the Sky with Diamonds“ á tónleikum að undanförnu. Við útfærum lagið á hægari og þyngri máta en það er vanalega og það kemur mjög vel út í bland við mikla ljósadýrð,“ segir Coyne en lagið vann sveitin einmitt með Moby og Miley Cyrus. Spurður út í það hví sveitin hafi lagst í að endurgera Bítlaplötu segir hann það hafa ráðist af nokkurri tilviljun.

„Við erum furðulega tengdir Bítlunum. Fyrir tveimur vikum komum við til að mynda fram á tónleikum til heiðurs George Harrison ásamt syni hans. Við þekkjum einnig vel til Seans Lennons auk þess sem við höfum unnið með Yoko Ono. Við erum í raun ekki að gera þetta meðvitað, við fylgjum bara eigin löngunum og það endar alltaf á því að við gerum tíu hluti á ári sem tengjast Bítlunum á einn eða annan hátt. With a Little Help from My Fwends varð í raun til fyrir slysni. Planið var aldrei að gera alla þessa plötu. Það var ekki fyrr en tveimur vikum eftir að við tókum upp lögin „Lucy in the Sky with Diamonds“ og „A Day in the Life“ með Miley Cyrus að við ákváðum að slá til. Fólk ætlaði ekki að trúa því að við værum að vinna með söngkonunni en lögin hafa slegið í gegn hjá mörgum,“ segir Coyne.

Miley Cyrus og Moby

Eins og næsta plata The Flaming Lips gefur til kynna er samvinna mjög stór þáttur í sköpun sveitarinnar.

„Mér hefur alltaf þótt spennandi að vinna með öðrum tónlistarmönnum. Það kemur ferskur blær með nýju fólki og maður lærir alltaf eitthvað nýtt þegar maður vinnur með skapandi listamönnum. Ég elska að vera í kringum fólk eins og Miley Cyrus, hún er bara svo skemmtileg og hvetjandi. Hún veitir manni mikinn innblástur. Það er ekki hægt að vera í kringum fólk eins og hana án þess að vilja skapa. Við getum líka tekið Damien Hirst sem dæmi, það er ekki hægt að vera í kringum hann án þess að vilja skapa eitthvað. Að sjálfsögðu lendir maður stundum á fólki sem dregur úr manni sköpunarkraftinn en í flestum tilvikum er þetta jákvæð reynsla. Það er líka bara gaman að kynnast nýju fólki. Ég veit til dæmis ekki hvort ég hefði fengið að vinna með Miley Cyrus ef ég hefði ekki kynnst Keshu á sínum tíma,“ segir Coyne. Hann fer einnig fögrum orðum um vin sinn Moby sem ljær sveitinni krafta sína á væntanlegri plötu.

„Ég hef þekkt Moby í þónokkurn tíma, ég kannaðist meira að segja við hann á hans villtustu árum á tíunda áratugnum. Það hefði verið mjög erfitt að vinna með honum þá þar sem hann var með puttana í öllu og alltaf með milljón verkefni í gangi. Þessa dagana er hann heldur rólegri. Ég söng inn á plötuna hans sem kom út í byrjun árs og nú launar hann mér greiðann. Ég kann mjög vel við hann. Hann er bæði fyndinn og sjarmerandi. Hann er auk þess alls ekki þessi lúði sem hann lítur út fyrir að vera,“ segir söngvarinn.

Lítur á sveitina sem fjölskyldu

The Flaming Lips hefur verið starfandi frá árinu 1983 og eflaust enginn hægðarleikur að halda sveitinni saman í svo langan tíma. Coyne þakkar langlífið einstakri heppni auk lundarfars hljómsveitarmeðlima.

„Sjálfur er ég úr mjög stórri fjölskyldu og ég lít á hljómsveitina slíkum augum. Að viðhalda sveitinni er því nokkurn veginn sambærilegt því að halda fjölskyldu saman. Ég lít á hljómsveitarmeðlimi, og fólkið sem starfar í kringum okkur, sem bræður mína og systur. Þetta snýst líka að einhverju leyti um heppni. Við höfum sem betur fer aldrei verið í svo slæmri stöðu að ekki sé hægt að ráða fram úr ágreiningsmálum, sem eru óhjákvæmileg þegar þú hefur starfað með sama fólkinu svona lengi. Ég held að fátt geti komið í veg fyrir að við höldum áfram að spila og semja, – það væri helst ef einhver dæi eða eitthvað slíkt,“ segir hann.

„Við erum líka þannig að ef okkur finnst við þurfa að fara í ákveðna átt með sköpun okkar, þá höfum við alltaf slegið til og gert það. Það að leiðast held ég að drepi einna helst niður sköpunarkraftinn. Það er líka mikilvægt að vera trúr sjálfum sér. Ég hef verið í kringum mörg bönd sem hafa verið varkár og reynt að fylgja straumnum. Það virkar ekki. Manni verður að vera sama um skoðanir annarra og gera sitt eigið efni. Sú löngun að tjá sig á sinn eigin máta, að skapa sitt eigið hljóð og þar fram eftir götunum er það sem drífur mann áfram. Listamaður reynir að finna allar leiðir til að tjá sig á þennan máta. Ef hann getur það ekki í hljómsveitinni sem hann er í þá stundina, þá finnur hann sér nýja sveit. Það er það sem þessi sköpunarþrá gerir. Það er sem betur fer engin löngun sem ég bý yfir sem The Flaming Lips getur ekki uppfyllt. Langanir mínar og hinna í sveitinni eru þær sömu. Við stefnum allir að því sama,“ segir Coyne.

Slógu heimsmet Jay-Z

Plötur The Flaming Lips hafa í gegnum tíðina þótt nokkuð jákvæðar og glaðlegar en síðasta platan, The Terror, hljómaði heldur þyngri en margar þeirra.

„Ég held að við séum haldin þeirri ranghugmynd að ástin sé það sem gerir lífið þess virði að lifa því og að án ástar sé lífið einskis virði. Ég held að The Terror kljáist við þá pælingu og haldi því fram að til sé annar og mikilvægari tilgangur. Hann felst meðal annars í því að taka lífinu með æðruleysi og viðurkenna vanmátt sinn gegn ýmsu hræðilegu sem lífið hefur upp á að bjóða. Ef maður gerir það ekki getur maður aldrei fundið hamingjuna,“ segir hann. Platan sú kom út í fyrra en árið áður sló sveitin heimsmet Jay-Z með því að spila á átta tónleikum á einum og sama sólarhringnum. Coyne kveður það þó ekki hafa verið fyrirfram ákveðið.

„Það að spila svona snemma á morgnana, eins og raunin var með síðustu tónleikana í þessari törn, er ekki beint okkar tebolli. Við munum eflaust ekki gera það aftur nema við neyðumst til þess. Það var þó ekkert planið að vera með þetta heimsmet á herðunum. Þetta var bara eitthvað sem okkur bauðst og okkur fannst hugmyndin fyndin og skemmtileg. Við skemmtum okkur konunglega og erum mjög fegnir að hafa tekið þátt í þessu,“ segir hann.

Coyne segist að lokum búast sterklega við því að plastkúlan fræga, sem hann notar gjarnan til að komast leiðar sinnar ofan á sveittum tónleikagestum, verði með í för þegar haldið verður hingað til lands í nóvember og kveðst hann hlakka mikið til að kynnast landi og þjóð á nýjan leik.

Flaming Lips
Flaming Lips
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant