„Eins og atriði í Goodfellas“

Jim Breuer
Jim Breuer Ljósmynd/ Greg Pallante

Bandaríski grínistinn Jim Breuer er einn þeirra sem kitla munu hláturtaugar gesta á alþjóðlegu grínhátíðinni Reykjavík Comedy Festival sem haldin verður í Hörpu um helgina. Hátíðin hefst í kvöld kl. 20 með uppistandi breska grínhópsins Best of Fest og Sögu Garðarsdóttur en þekktustu grínistar hátíðarinnar, þ.e.a.s. utan landsteinanna, eru án efa Breuer og Stephen Merchant, samstarfsmaður Ricky Gervais til margra ára og einn af höfundum gamanþáttanna The Office.

Breuer er frægur grínisti í heimalandi sínu og sló í gegn í gamanþáttunum Saturday Night Live sem hann samdi gamanefni fyrir og lék í á árunum 1995-8. Grínsjónvarpsstöðin Comedy Central telur Breuer einn af 100 bestu uppistöndurum allra tíma og er það býsna gott í ljósi harðrar samkeppni í þeirri grein í Bandaríkjunum.

Dæmi úr uppistandi Jim Breuer:

Fagrar konur og frábært fólk

Breuer hóf fyrir viku uppistandsferð um Evrópu og sló blaðamaður á þráðinn til hans í fyrradag, þegar grínistinn var staddur í Kaupmannahöfn. Að sjálfsögðu var hann fyrst spurður að því hvað hann vissi um Ísland og kom svarið ekki á óvart: „Eftirfarandi er allt sem mér hefur verið sagt um landið: Ákveðinn hluti þess lítur út eins og tunglið, konurnar eru þær fegurstu í heimi og landsmenn allir eru stórkostlegir.“ Blaðamaður bendir á að þetta séu eintómar klisjur og Breuer segist hafa heyrt það líka. Hann hafi verið kvæntur í 20 ár og græði því ekkert á því að landið sé fullt af fögrum konum. Hann geti hins vegar notið fegurðarinnar sem áhorfandi, eins og gestur á listasafni.

– Ég er ekki viss um að Íslendingar kannist við þig, þó að þú sért frægur í heimalandinu...

„Líklega ekki, ekki frekar en Evrópubúar almennt. Góðu fréttirnar eru þær að ég hef lokið öllum sýningum með dynjandi lófataki og fagnaðarlátum gesta þannig að ég er nokkuð viss um að eftir tvær eða þrjár ferðir munu Íslendingar og allir aðrir sem ég hef látið finna fyrir því vita hver Jim Breuer er,“ svarar Breuer sposkur. Fleiri grínferðir séu fyrirhugaðar þar sem hann sé að safna efni í sjónvarpsþætti sem sýndir verða á sjónvarpsveitunni Netflix.

Steve Martin kveikti áhugann

Breuer segir áhuga sinn fyrir uppistandi hafa kviknað þegar hann var tíu ára og bróðir hans lék fyrir hann hljómplötu með gamanmálum leikarans Steve Martin. „Ég hafði aldrei áður heyrt fólk hlæja á plötu og ég varð yfir mig hrifinn. Ég fór svo að hlusta á fleiri grínplötur og fylgjast með uppistandi. Ég hef alltaf verið áhugasamur um grín og fjölskylda mín er mjög fyndin sem og allir vinir mínir,“ segir Breuer.

Breuer segir árin í Saturday Night Live hafa verið lærdómsrík en erfið. Blaðamaður spyr hvort ekki megi líkja því við herþjálfun (e. boot camp) fyrir grínista að vinna við þættina. „Nákvæmlega, þú lýsir því hárrétt. Þetta er herþjálfun og það er ekkert rökrétt við það sem gerist þar. Þú veist kannski að þú ert með besta gríninnslagið en þeir sem ráða gefa því ekki pláss í þættinum. Það er mikið um stjórnmál í þáttunum, þetta er erfiðisvinna og mikill spuni með tilheyrandi áhættu. Þú stritar frá mánudegi til laugardags linnulaust,“ segir Breuer og endurtekur orðið „linnulaust“ þrisvar sinnum. – Og hugmyndum þínum eða bröndurum er væntanlega slátrað hvað eftir annað?

„Linnulaust!“ segir Breuer, enn og aftur. „Það er svo sem allt í lagi að hugmyndir manns hljóti ekki brautargengi en það er erfiðara þegar þú veist að þær eru langbestar. Í því liggur pirringurinn.“

„Ertu Ítali?“

– Þú hlýtur að hafa leikið með fjölda þekktra leikara í þáttunum?

„Já, drottinn minn dýri og þeir bestu voru Tom Hanks, Kevin Spacey, Jack Nicholson, Robert De Niro, Joe Pesci...fyrsti sjónvarpsþátturinn í beinni sem De Niro lék í á ferli sínum var þátturinn sem ég lék í með honum. „Stóri“ þátturinn var þátturinn þegar Pesci og De Niro birtust óvænt,“ segir Breuer.

– Þú gerðir einmitt mikið grín að Pesci, lékst hann í innslögum sem nefndust The Joe Pesci Show þar sem hann var spjallþáttastjórnandi.

„Ég hermdi bara eftir honum og það féll honum illa í geð í fyrstu. Hann vildi hitta mig áður en hann kom með De Niro og lét mig fá það óþvegið. Þetta var eins og atriði í Goodfellas og þá er ég ekki að grínast,“ segir Breuer og á þar við kvikmyndina Goodfellas eftir Martin Scorsese þar sem De Niro og Pesci leika kaldrifjaða mafíósa. Og nú bregður Breuer sér í hlutverk Pesci og engu líkara en Pesci sjálfur sé í símanum. „Hann sagði: „Ertu Ítali?“ og ég svaraði: „Nei en ég ólst upp með Ítölum“. Þá segir hann: „Ég spurði þig ekki með hverjum þú hefðir alist upp heldur hvort þú værir Ítali.“ Ég sagðist ekki vera Ítali og þá segir hann: „Hvar fékkstu þá leyfi til að nota orð eins og „ginny“ og „wop“ í gríninnslögunum þínum og láta mig segja þau? Truflar það þig ekkert? Það fer í taugarnar á mér.“ Ég trúði því varla að þetta væri að gerast,“ segir Breuer („ginny“ og „wop“ eru niðrandi slanguryrði yfir ítalskættaða Bandaríkjamenn).

– Þú endaðir þó ekki dauður í skottinu á Cadillac...

„Nei, guði sé lof! Ég hugleiddi það hvort ég ætti að gefa honum á hann og flýja land,“ segir Breuer og hlær. Pesci hafi skotið honum skelk í bringu.

Enginn dónaskapur

– Hvernig verður sýningin þín á Íslandi? Ferðu eftir handriti eða leikurðu meira af fingrum fram?

„Ég byrja hana yfirleitt á spuna til að meta andrúmsloftið í salnum og svo flyt ég hefðbundna dagskrá sem ég hef notað á uppistandsferðum mínum. Hún er þó ekki niðurnegld, ég er með ákveðna fasta liði sem ég vinn út frá, sé hvað virkar og hvað ekki. Það sem ég hef verið að gera að undaförnu hefur virkað mjög vel á áhorfendur,“ segir Breuer og líkir uppistandi sínu við Bill Cosby klæddan í Metallica-jakka. Hann segi margar sögur og þá m.a. af fjölskyldu sinni. Uppistandið muni því ekki að fara fyrir brjóstið á neinum. „Fólk á að geta tengt við allt sem ég fjalla um,“ segir Breuer.

Fyrir sex árum fór Breuer í uppistandsferð um Bandaríkin, Breuniversity Tour og var hún fest á filmu. Faðir hans var með í för, 85 ára að aldri og var ferðin gefin út á mynddiski, The Jim Breuer Road Journals. Tilgangurinn var að sýna hvernig það væri fyrir grínista að fara í uppistandsferð með föður sínum. Heimildarmynd var einnig gerð úr efninu, More Than Me, sem sýnd var á kvikmyndahátíðinni í Montreal árið 2009.

Blaðamaður spyr hvers vegna faðir Breuers hafi farið með honum. Breuer segir föður sinn iðulega hafa farið með honum í uppistandsferðir. „Við skemmtum okkur vel í þessum ferðum og hann var stjarnan í þeim,“ segir hann. Fólk hafi auk þess fengið aðra mynd af honum sem grínista, komið að máli við hann og deilt því með honum hversu fallegt því þætti samband þeirra feðga. Breuer segist hafa ákveðið að taka ferðina upp til að sýna fólki fram á að það væri í fínu lagi að verja meiri tíma með foreldrum sínum, njóta lífsins með þeim og óttast ekki dauðann. Hann hafi grunað að faðir hans ætti ekki mörg ár eftir og þeir hafi verið afar nánir. „Hann dó í fanginu á mér 25. ágúst síðastliðinn,“ segir Breuer.

Uppistand Breuer á Reykjavík Comedy Festival fer fram í Silfurbergi annað kvöld kl. 22.30 og verður jafnframt það síðasta í grínferð hans um Evrópu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson