„Ég laðast ekki að börnum“

Skjáskot af YouTube

„Ég er mannlegur og hef galla,“ sagði leikarinn Stephen Collins í viðtali við Katie Couric á föstudag. Gallarnir sem Collins vísaði til eru meðal annars barnagirnd en nýverið komst fréttastofa TMZ yfir upptöku þar sem Collins játaði að hafa brotið gegn þremur barnungum stúlkum. Málið hefur vakið mikla athygli og reiði í Bandaríkjunum, ekki síst vegna tengsla Collins við kristilega þáttagerð. Collins játaði brot sín í ýtarlegu sjónvarpsviðtali sem finna má neðst í fréttinni.

Collins, sem er 67 ára, hefur leikið í fjölmörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum í gegnum tíðina. Hann er hinsvegar eflaust best þekktur fyrir að leika prestinn Eric Camden í kristilegu fjölskylduþáttunum 7th Heaven. Þættirnir snerust um Camden, konu hans og börn þeirra sjö en í hverjum þætti kom upp siðferðislegt vandamál sem persónurnar þurftu að glíma við. Var því hver þáttur einskonar kristileg dæmisaga og náði þátturinn margsinnis á lista The Parents Television Council yfir bestu fjölskylduþættina. Collins vann mikið með barnungum leikurum, bæði í 7th Heaven sem og í öðrum verkefnum.

Viðurkenndi brotin í hjónabandsráðgjöf

Upptakan með játningu Collins var birt á heimasíðu TMZ í október síðastliðnum. Þar kemur fram að Faye Grant, eiginkona Collins, hafi tekið játninguna upp án hans vitundar í tíma í hjónabandsráðgjöf. Hjónin hafa átt í skilnaðardeilum lengi og mun lögfræðingur Grant hafa ráðlagt henni að taka upp játningu Collins.

Það fórnarlamb sem helst er rætt á upptökunni er skylt fyrstu eiginkonu Collins, Marjorie Weinman. Collins viðurkennir að hafa misnotað stúlkuna í New York, þegar hún var 11 ára gömul.

„Það var eitt augnablik af snertingu þar sem höndin hennar, ég setti höndina á typpið á mér,“ segir Collins á upptökunni. Grant spyr hvort hann hafi verið með holdris og Collins svarar „Nei, ég meina, nei. Að hluta til, kannski, held ég.“

Collins viðurkennir síðan að hafa berað sig fyrir henni aftur þegar hún var 12 og 13 ára. Hann minnist á tvær aðrar ungar stúlkur, þar á meðal stúlku sem var nágranni hjónanna í Los Angeles.

Grant neitaði í yfirlýsingu til sjónvarpsstöðvarinnar E! Að hafa lekið upptökunni. „Þegar ég vaknaði í dag komst ég að því að afar persónuleg upptaka, sem ég lét í hendur yfirvalda árið 2012 að þeirra beiðni í tengslum við lögreglurannsókn, var lekið til fjölmiðla. Ég átti engan þátt í útgáfu upptökunnar til fjölmiðla yfirhöfuð,“ sagði Grant.

Játaði í People

17. desember birti tímaritið People játningu Collins. Þar heldur hann því fram að fórnarlömbin hans hafi verið þrjú og að misnotkunin hafi átt sér stað milli áranna 1973 og 1994. Segist hann ekki hafa fundið þörf til að brjóta gegn börnum síðastliðin 20 ár.

„Fyrir fjörutíu árum gerði ég hræðilegan hlut sem ég sé mikið eftir. Ég hef unnið að því að bæta fyrir hann æ síðan,“ segir Collins. „Á upptökunni lýsi ég atburðum sem áttu sér stað fyrir 20, 32 og 40 árum síðan. Útgáfa upptökunnar hefur leitt til ályktana og aðdróttana um það sem ég gerði sem ganga mun lengra en það sem gerðist í raun. Eins erfitt og það er, vil ég að fólk viti sannleikann,“ skrifar Collins.

Hann segist hafa beðið eina konuna afsökunar 15 árum eftir að brotið átti sér stað og að hún hafi tekið því vel. Hann segist ekki hafa reynt að ræða við hinar tvær konurnar sem eru nú á sextugs- og fertugsaldri. Það sé vegna þess að við meðferð hafi honum verið gert ljóst að slíkt gæti gert illt verra og opnað gömul sár hjá konunum.

Varð sjálfur fyrir áreitni

Í kjölfar játningarinnar tók Katie Couric viðtal við Collins sem birtist fyrst á Yahoo en var svo sýnt í sjónvarpsþættinum 20/20 á ABC-sjónvarpsstöðinni á föstudag. Þar sagði Collins frá því hvernig hann beraði sig í tvígang fyrir 10 ára stúlku, þá 25 ára gamall, og hvernig hann færði hönd hennar á getnaðarlim sinn þar sem þau sátu og horfðu á sjónvarpið.

„Ég vissi að eitthvað ósegjanlega rangt hafði átt sér stað, sem ég gat ekki tekið aftur, og ég held að við höfum bæði bara setið þarna og ekki hreyft okkur. Eftir u.þ.b. 45 sekúndur tók ég höndina og færði hana aftur.“

Collins segir enga líkamlega snertingu hafa átt sér stað milli hans og hinna fórnarlambanna en að hann hafi berað sig fyrir þeim. Hann segir það hafa verið ljóst af viðbrögðum annarrar stúlkunnar að hún var ringluð og hrædd. Þá staðhæfir hann að hann hafi ekki hlotið kynferðislega nautn af þessum samskiptum við stúlkurnar. Hann neitar alfarið að laðast að stúlkum undir lögaldri og segist alls ekki vera barnaníðingur. Sömuleiðis staðhæfir hann að hann hafi einungis brotið af sér þrisvar. „Ég laðast alls ekki, líkamlega eða kynferðislega, að börnum.“

Sagði Collins einnig frá því að hann var sjálfur áreittur kynferðislega af eldri konu sem táningur.

Collins segir að konan hafi berað sig fyrir honum nokkuð oft þegar hann var á aldrinum 10 til 15 ára. „Ég held að það hafi afskræmt viðmót mitt á þennan hátt,“ sagði hann. „Þetta var mjög ofsafengin reynsla, en ég held að einhversstaðar í heilanum á mér hafi ég fengið það út að þetta væri ekki svo hræðilegt.“ Leikarinn segist þó ekki kenna konunni um hegðun sína.

„Hann fékk sáðlát“

Collins hefur þegar misst mörg hlutverk vegna málsins, og þar með tekjur, auk mannorðs síns. Hann brast í grát og baðst afsökunar í viðtalinu við Couric en mörgum þykir eftirsjá hans óraunveruleg.  

Kona sem segist vera umrætt 10 ára fórnarlamb Collins seg­ist ekki ætla að fyr­ir­gefa honum  í bráð. Henni finnst játn­ing hans gera lítið úr mál­inu.

„Hann ger­ir lítið úr of­beld­inu. Þetta var eng­in ósjálfráð snert­ing, hún var svo áköf að hann fékk sáðlát,“ sagði kon­an sem var tíu ára göm­ul þegar Coll­ins mis­notaði hana.

Kon­an segist viss um að fórna­lömb­in séu fleiri. „Af hverju læt­ur hann ekki meiri­hluta launa sinna renna til góðgerðarmála sem styðja við bakið á börn­um sem hafa orðið fyr­ir kyn­ferðisof­beldi? Hann ætti svo kannski að biðja fórna­lömb sín af­sök­un­ar,“ sagði kon­an í viðtali við TMZ.

Konan hefur kært Collins en líklegt er að málið teljist fyrnt og að Collins sleppi við refsingu.

Viðtalið við Collins má sjá hér að neðan.

11 þáttaraðir voru gerðar af 7th Heaven.
11 þáttaraðir voru gerðar af 7th Heaven.
Stephen Collins er þekktastur fyrir hlutverk sitt í 7th Heaven.
Stephen Collins er þekktastur fyrir hlutverk sitt í 7th Heaven. mbl.is/AFP
Í viðtalinu dró Katie Couric í efa þá staðhæfingu Collins …
Í viðtalinu dró Katie Couric í efa þá staðhæfingu Collins að hann væri ekki barnaníðingur.
Collins lék prest í 7th Heaven.
Collins lék prest í 7th Heaven.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant