Sandra Kim kveikti neistann

Erna Hrönn Ólafsdóttir
Erna Hrönn Ólafsdóttir mbl.is

„Lagið er í rauninni svolítið sorgleg ástarsaga. Lagið fjallar um konu og það kemur maður inn í líf hennar eitt sumarið, allt gerist mjög fljótt og svo er hann bara farinn. Eftir sitja hjartasárin,“ segir Erna Hrönn Ólafsdóttir en hún flytur lag Arnars Ástráðssonar, Myrkrið hljótt í Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardaginn, en Erna Hrönn samdi textann. 

Erna Hrönn er enginn byrjandi í Söngvakeppninni en hún hefur sungið bakraddir í rúmlega fimmtíu lögum og fjórum sinnum sem aðalsöngkona. Er þetta jafnframt í annað skiptið sem Erna Hrönn syngur lag eftir Arnar, en árið 2011 flutti hún lagið Ástin mín eina. Þar að auki hefur hún tvisvar farið út í Eurovision sem bakrödd, fyrst með Jóhönnu Guðrúnu árið 2009 og ári síðar með Heru Björk. 

„Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Eurovision. Ég man til dæmis vel eftir því þegar að Sandra Kim vann keppnina. Það kannski svona kveikti neistann til þess að komast alla leið. Mér fannst það alltaf samt svo óraunhæft þegar ég var yngri í sveitinni minni. En það er alltaf svo gaman að vera með hérna heima,“ segir Erna Hrönn aðspurð hvort að Eurovision hafi verið æskudraumur hennar.

„Það er alltaf draumurinn að fara alla leið og taka þátt fyrir Íslands hönd, en þar sem það er svo gaman að taka þátt í Söngvakeppninni þá yrði það bara bónus.“

Arnar og Erna Hrönn kynntust þegar hún söng lag hans í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2011. Hún segir að samstarf þeirra gangi vel. 

„Fyrir nokkrum árum síðan sendi hann mér þetta lag og bað mig um að gera texta við það í einum hvelli. Hann ætlaði að senda það inn í Söngvakeppnina og var fresturinn að renna út. Ég bara henti í texta og hann hefur staðið síðan,“ segir Erna Hrönn. Það lag komst ekki inn í keppnina það árið og vissi Erna Hrönn ekki að Arnar hefði sent það aftur inn í ár. Kom það því skemmtilega á óvart þegar að lagið var valið til þess að taka þátt í ár. 

Erna Hrönn segir að undirbúningur fyrir keppnina á laugardaginn gangi vel. „Núna þar sem ég er textahöfundur og hluti af höfundarteyminu er aðeins meira að gera núna en oft áður,“ segir hún. „Arnar býr erlendis en kemur heim í dag. Ég hef verið að sjá um þetta frá a til ö sem er búið að vera skemmtilegt.“

Segir hún að fyrsta mál á dagskrá hefði verið að taka lagið upp aftur. Tók Erna Hrönn virkan þátt í upptökuferlinu og framleiðslu lagsins ásamt upptökustjóranum Davíð Birgissyni. 

„Síðan tók við í hverju ég ætlaði að vera, hver myndi mála mig, hver í bakröddum og svona. En þetta er allt að smella saman,“ segir Erna Hrönn. „Ég er alveg gríðarlega spennt fyrir laugardeginum og hlakka bara til.“

Aðspurð hvort að hún sé byrjuð að leiða hugann alla leið til Austurríkis segir Erna Hrönn að hún hafi aðeins velt möguleikanum fyrir sér. „Maður leyfir sér kannski ekki alveg að hugsa svo langt en auðvitað veltir maður því fyrir sér. Ég er aðeins farin að huga að því að semja enskan texta til að hafa í bakhöndinni. Það er líka bara gaman að eiga lagið á ensku. Það eru ansi margir erlendir Eurovision aðdáendur búnir að hafa samband undanfarið.“

Þegar Erna Hrönn er beðin um að lýsa þeirri tilfinningu sem hún upplifði 2009 og 2010 uppi á sviðinu í Eurovision segir hún hana ólýsanlega. „Ég fæ gæsahúð við það eitt að hugsa um að vera á sviðinu. Maður er pínulítill þarna á sviðinu og það hríslast um mann fáránlega góð tilfinning. Ég mæli með þessu fyrir alla,“ segir Erna Hrönn að lokum og hlær. 

Myrkrið hljótt verður fyrst í röðinni á laugardaginn. Lagið má heyra hér að neðan.

Um­fjöll­un um Söngv­akeppni Sjón­varps­ins og kepp­end­ur í henni held­ur áfram næstu daga á mbl.is.

Arnar Ástráðsson semur lagið.
Arnar Ástráðsson semur lagið. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler