„Allt í einu kominn í þetta „Eurovision-land““

Björn og félagar.
Björn og félagar.

„Textinn er áminning um að allir séu jafnir og að óæskileg flokkun eftir kyni eða öðru verði til í huga fólks en sé ekki lögmál. Í honum er líka hvatning um að dæma ekki aðra enda erum við öll úr sama efni og syngjum öll í sama kór.“ Þetta segir tónlistarmaðurinn Björn Jörundur Friðbjörnsson, aðspurður um inntak textans í laginu Piltur og stúlka, sem hann mun flytja ásamt hljómsveitinni Björn og félagar í Söngvakeppni Sjónvarpsins annað kvöld. 

Bandið samanstendur af þeim Birni  Jörundi, Unni Birnu Bassadóttur, Hafrúnu Kolbeinsdóttur og Pétri Erni Guðmundssyni. Höfundar lagsins og textans ásamt Birni Jörundi eru þeir Björn Þór Sigbjörnsson og Tómas Hermannsson. Björn Þór starfar sem blaðamaður en Tómas sem bókaútgefandi. 

Björn Jörundur segir að lagið hafi orðið til á einum laugardagseftirmiðdegi.

„Ég, Björn Þór og Tómas sátum aðgerðalitlir eitt laugardagssíðdegi í byrjun október og spurðum eins og krakkarnir: Hvað eigum við að gera? Einhver sagði að við gætum samið lag fyrir Söngvakeppnina og hann var hreinlega tekinn á orðinu. Ég settist við píanóið og Tommi tók upp gítarinn og áður en við vissum vorum við komnir með grunn að lagi og texta.“ 

Aðspurður hvort þeir þrír hafi áður unnið saman að lagasmíð svarar Björn Jörundur því neitandi. 

„Ég hef samið mín lög einn eða með félögum mínum í Nýdönsk þannig að þetta var ný reynsla fyrir mig. Við höfum hins vegar brallað ýmislegt saman og gerðum til dæmis nokkrar sjónvarpsauglýsingar fyrir Sögur, bókaforlagið hans Tomma, fyrir jólin.“

Björn Jörundur segir að undirbúningur fyrir keppnina hafi gengið mjög vel. 

„Það fylgir þessu mikið stúss og að mörgu að hyggja. Þegar okkur var tilkynnt að við hefðum komist áfram tók við vinna í hljóðveri við að færa lagið í þann búning sem það er í og þegar það var búið vissum við ekki almennilega hvað tæki við. Við vitum það hins vegar núna og höfum haft einstaklega gaman af að velja búninga á okkur flytjendurna, gera myndband og pæla í sviðsframkomunni og slíku. Nú er bara að vona að allir verði heilir heilsu á laugardagskvöldið, svo maður tali eins og handboltaþjálfari,“ segir Björn Jörundur.

Hann viðurkennir að hópurinn á bak við lagið sé ekki farinn að pæla mikið í möguleikanum á því að fara alla leið til Austurríkis til að taka þátt í Eurovision.

„Það hefur verið um nóg annað að hugsa og við tekið einn dag í einu. En auðvitað erum við klár í þann slag ef þannig fer og munum ekki bregðast trausti þjóðarinnar,“ segir Björn Jörundur.

Þrátt fyrir að hafa verið starfandi tónlistarmaður í nærri því þrjátíu ár segist hann aldrei hafa átt sér þann draum að taka þátt í Eurovision. „Það sést best á því að ég hef aldrei áður tekið þátt í Söngvakeppninni. En nú er ég allt í einu kominn í þetta „Eurovision-land“ og hef gert þátttökuna að sérstökum lífsstíl,“ segir Björn Jörundur og bætir við að gleði og skemmtun einkenni keppnina.

„Við einsettum okkur í upphafi að hafa gaman af þessu. Það hefur staðist, við höfum skemmt okkur mjög vel og hlegið mjög mikið um leið og við höfum vandað okkur í hvívetna við að gera lagið og atriðið sem best úr garði,“ segir Björn Jörundur að lokum. 

Lagið Piltur og stúlka er sjötta og jafnframt síðasta lagið sem verður flutt í keppninni annað kvöld. Hlusta má á lagið hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson