Leikhús sem gengur út frá sannleikanum

Krzyszof Warlikowski.
Krzyszof Warlikowski.

Alþjóðlegi leiklistardagurinn er haldinn hátíðlegur í dag, en hann hefur verið haldinn hátíðlegur síðan 1961 fyrir tilstuðlan Alþjóða leiklistarstofnunarinnar (ITI). Alþjóðlega ávarpið í ár samdi pólski leikstjórinn Krzysztof Warlikowski.

Krzyszof  Warlikowski er fæddur í Stettin í Póllandi árið 1962. Hann er einn þekktasti leikstjóri Evrópu og hefur skapað einstaka leiklist ásamt samstarfskonu sinni, leikmyndahöfundinum Malgorzata Szczesniak. Þeim hefur tekist að leysa úr læðingi dýpsta sköpunarkraft leikara sinna. Hann hefur sviðsett verk Shakespeares með afgerandi sjálfstæðum og nýjum aðferðum og túlkað gríska harmleiki með byltingarkenndum hætti.

Að venju fékk Leiklistarsamband Íslands íslenskan sviðslistamann til að semja íslenskt ávarp dagsins og í ár er höfundur þess Halldóra Geirharðsdóttir leikkona og leikstjóri. Í fyrsta sinn í ár hefur Norðurevrópska áhugaleikhússambandsins (NEATA) falið sviðslistamanni úr sínum röðum að semja ávarp og er höfundur þess Þorgeir Tryggvason leikskáld og formaður Bandalags íslenskra leikfélaga.

Ávarp Krzysztof Warlikowski er hér að neðan:

„Sanna leikhússnillinga er helst að finna víðs fjarri leiksviðinu. Vanalega hafa þeir ekki áhuga á að brúka leikhúsið sem eins konar maskínu til að endurtaka hefðbundnar aðferðir og klisjur. Þeir leita uppi ferskar uppsprettur, lifandi strauma sem hafa tilhneigingu til að sneiða hjá leiksviðum og öllu því fólki sem leggur sig fram um að stæla veruleikann. Við líkjum eftir, endurgerum í stað þess að skapa eigin heim, í stað þess að íhuga, reiða okkur á hugmyndir og áreiti sem spretta úr samtali við áhorfendur, - í stað þess að rannsaka dulinn áhrifamátt sem leynist undir yfirborðinu. Einmitt leikhúsið kann best að afhjúpa leyndar tilfinningar.

Ég sný mér oftast að skáldssögum í leit að leiðsögn, skáldskap sem alltaf fylgir mér. Það eru skáld sem lýstu, fyrir næstum hundrað árum, - spámannlega en einnig af hógværð, hnignun evrópskra guða, hnignun sem varpaði menningu okkar í myrkur sem ekkert hefur enn í dag getað lýst upp. Ég nefni Franz Kafka, Thomas Mann og Marcel Proust. Í dag myndi ég einnig setja John Maxwell Coetzee í þennan flokk.

Þeim er sameiginleg tilfinning óumflýjanlegs heimsendis, ekki plánetu okkar, jarðarinnar, heldur endaloka forms mannlegra samskipta, hefðbundins regluverks og gildismats, efasemda um árangur uppreisna. Þetta er tilfinning sem leggst æ þyngra á okkur nú á tímum. Okkur, sem eigum þennan heimsendi að baki.

Við erum vanmáttug, hjálparvana og skelfingu lostin andspænis morðum og átökum sem blossa upp æ víðar og æ hraðar og svo ótt og títt að fjölmiðlar sem alltaf eru alls staðar nálægir ná ekki að fjalla um þau.  Og tæpast er búið að minnast á þessi bál þegar þau verða langdregin og hverfa sporlaust úr fréttum dagsins.

Engin vernd er lengur í víggirðingum, hvorki turnum né múrum sem við höfum verið svo þrautseig og eljusöm að reisa. Þvert á móti. Það erum við sem verndum múrana og viðhöldum þeim af fremsta megni og kostar mestan hluta lífsorku okkar, þannig að okkur skortir þrek til að skynja lífið innan varnarmúra okkar. Og einmitt það er hlutverk leikhússins, þar liggur styrkur þess, að skoða það sem er bannað að rannsaka. Að gægjast inn þar sem bannað er að horfa.

„Goðsögurnar reyna að útskýra hið óútskýranlega. Vegna þess að þær byggja á sannleikanum er þeim nauðsynlegt að verða óútskýranlegar aftur,“ segir Kafka um umskipti goðsögunnar um Prómóþeif. Það er mín fasta fullvissa að þannig ætti lýsingin á leikhúsi að hljóma. Nákvæmlega þannig leikhúss, sem gengur út frá sannleikanum og verður óútskýranlegt, óska ég af dýpstu hjartarótum öllum þeim sem skapa það, - hvort sem þeir eru á leiksviði eða í áhorfendasal.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson