RIFF 2015: Frá drónum til draugs

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst 24. september nk. og hafa skipuleggjendur hennar nú kynnt til sögunnar 40 myndir af þeim sem verða á dagskrá hátíðarinnar. Eru það heimildarmyndir og myndir í keppnisflokkunum Open Seas og A Different Tomorrow. Í Open Seas eru valdar kvikmyndir sem vakið hafa athygli á kvikmyndahátíðum undanfarin misseri og A Different Tomorrow myndir sem talið er að geti bætt heiminn, að því er segir í tilkynningu frá RIFF.

Að vanda eru umfjöllunarefni myndanna afar fjölbreytt, allt frá heimildarmyndum um látna Hollywood-stjörnu til stjórnarskrárbreytinga í Simbabve.

Gengjastríð og kynferðisafbrotamenn í hjólhýsagarði

Af fjölmörgum forvitnilegum myndum vekur RIFF sérstaka athygli á eftirfarandi.

Í heimildarmyndinni Cartel Land eftir Bandaríkjamanninn Matthew Heineman er rakin saga tveggja sjálfskipaðra löggæslumanna sem hafa ákveðið að leggja allt í sölurnar til að kveða niður vargöldina sem geisað hefur í Mexíkó vegna átaka glæpagengja. Cartel Land var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni og hlaut þar verðlaun fyrir bestu leikstjórn og kvikmyndatöku.

Í Ingrid Bergman in her own Words, eftir Svíann Stig Björkman, má sjá áður óbirt dagbókarbrot leikkonunnar Ingrid Bergman, bréf og myndefni sem varpa nýju ljósi á heillandi sögu venjulegrar sænskrar stúlku sem á stuttum tíma varð stærsta stjarnan í Hollywood. Myndin hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes á þessu ári.

Í Pervert Park, eftir hjónin Fridu og Lasse Barkfors, er ljósi varpað á hjólhýsagarðinn Florida Justice Transition. Þar hafa safnast saman dæmdir kynferðisbrotamenn sem reyna að aðlagast aftur samfélaginu. Myndin segir sögu þeirra á hreinskilinn og umbúðalausan hátt, að því er segir í tilkynningu RIFF.

Drone eftir Terje Hissen Schei er í flokkinum A Different Tomorrow og fjallar um notkun bandarísku leyniþjónustunnar og Bandaríkjahers á drónum í hernaði. Myndin segir bæði sögu íbúa í Pakistan sem búa við sífellda ógn vopnanna og þá innri baráttu þeirra sem stýra tólunum. Schei hefur unnið til fjölda friðar- og mannúðarverðlauna á kvikmyndahátíðum víða heim.

Heimildarmyndin Democrats eftir hina dönsku Camilla Nielsson er ekki síður merkileg. Nielsson fékk að fylgjast með viðræðum tveggja stjórnmálamanna úr andstæðum fylkingum sem unnu að því að semja nýja stjórnarskrá fyrir Simbabve. „Annað hvort markar hún upphafið að endalokum spilltrar harðstjórnar Roberts Mugabe og innleiðingu lýðræðis - eða hún tryggir áframhaldandi kúgun og einræði,“ segir um myndina í tilkynningu. Democrats hefur m.a. hlotið verðlaun á heimildarmyndahátíðinni CPH:DOX í Kaupmannahöfn á árinu.

Trans-vændiskona og ljúfsár drauga-ástarsaga

Tangerine eftir Sean Baker er í flokkinum Open Seas og fjallar um Sin-Dee, trans-vændiskonu í Los Angeles sem leitar dólgsins Chesters um alla borg. Sá hélt framhjá henni á meðan hún afplánaði mánaðarlangan fangelsisdóm. Myndin var tekin upp á þrjá iPhone 5-snjallsíma og hlaut verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary í Tékklandi á þessu ári.

Journey to the Shore eftir Japanann Kiyoshi Kurosawa er sýnd í Open Seas. Hún segir af Yusuke nokkrum, sem snýr aftur heim til ekkju sinnar þremur árum eftir að hann drukknaði undan norðurströnd Japans, eins og því er lýst í tilkynningu, og býður henni í ferðalag að ströndinni þar sem hann kvaddi heiminn. Myndin mun vera ljúfsár drauga-ástarsaga sem sýnir að náin tengsl geta náð út fyrir dauðann. Hún hlaut leikstjórnarverðlaun í Un Certain Regard-flokknum á Cannes í vor.

Eru þá aðeins fáeinar myndir upp taldar og má finna frekari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar og miðasölu á heimasíðu hennar, riff.is.

Eisenstein, Jesús og kölski

Margar forvitnilegar kvikmyndir eru í flokkinum Open Seas, eða Fyrir opnu hafi, og þá m.a. Eisenstein in Guanajato og Last Days in the Desert. Sú fyrrnefnda er eftir breska leikstjórann Peter Greenaway og fjallar um einn mesta meistara kvikmyndasögunnar, Sergei Eisenstein. Eftir frumsýningu meistaraverks hans, Beitiskipsins Pótemkín, var Eisenstein dáður um heim allan. „Bandaríkjamenn tóku honum þó dauflega og árið 1931 ferðaðist hann til Mexíkó til að undirbúa næstu kvikmynd sína. Munúðarfull reynsla hans þar virðist hafa haft mikil áhrif á líf hans og feril,“ segir um myndina í tilkynningu RIFF. Myndin var tilnefnd til Gullbjörnsins, aðalverðlauna kvikmyndahátíðarinnar í Berlín á þessu ári.

Last Days in the Desert eftir kólumbíska leikstjórann Rodrigo García er með skoska leikaranum Ewan McGregor í aðalhlutverki, eða -hlutverkum, því hann leikur bæði Jesús Krist og djöfulinn sjálfan, „í ímyndaðri viðbót við fjörutíu daga og fjörutíu nátta föstu Krists í eyðimörkinni þar sem Satan freistaði hans“, eins og segir í tilkynningu. „Á heimleið úr útlegðinni glímir Jesús aftur við djöfulinn um örlög fjölskyldu á vonarvöl og býr sig undir mikla þrekraun. Gríðarlegt sjónarspil sem situr í manni,“ segir enn fremur um myndina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson