Kötlur syngja um draumaprins

Kötlur leggja mikið upp úr fallegri sjónrænni framkomu og þær …
Kötlur leggja mikið upp úr fallegri sjónrænni framkomu og þær hanna sviðsetninguna fyrir hverja tónleika.

Kvennakórinn Katla frumsýndi á tónleikum sínum í kvöld myndband við mikinn fögnuð, þar sem þær syngja eigin útsetningu á Draumaprinsinum, lagi Magnúsar Eiríkssonar úr kvikmyndinni Okkar á milli.

„Það er svo mikil orka í þessum hópi, þessar kröftugu konur sáu sjálfar um alla framleiðsluþætti myndbandsins Mamma einnar smurði þrjúhundruð samlokur fyrir tökudaginn mikla, en þetta var tuttugu tíma vinnutörn. Það er bara vaðið í verkið án þess að gera eitthvert mál úr því, og það er svo gott,“ segja þær kórstýrur Katlanna, Hildigunnur Einarsdóttir og Lilja Dögg Gunnarsdóttir, en eftirfarandi viðtal við þær birtist í Morgunblaðinu um liðna helgi:

Kvennakórinn Katla samanstendur af 60 stelpum sem hittast vikulega og syngja saman. Með söng sínum segjast þær fá fólk til að gráta, hlæja, klappa og sannfærast um að lífið sé gott. Þannig lýsa þær sér, Kötlurnar lífsglöðu, en kórstýrurnar Hildigunnur og Lilja Dögg segjast hafa lært mikið af því að vinna með þeim. „Kvennakórinn Katla er veldi,“ fullyrða þær og bæta við að byltingin sé rétt að byrja.

Þetta er nútímalegur kór að því leyti að hann var stofnaður á Facebook. Tvær skólasystur mínar úr MH höfðu samband við mig árið 2012 og spurðu hvort ég væri til í að stjórna kvennakór, því þær væru sjúkar í að syngja með vinkonum sínum og gera eitthvað skemmtilegt, svona rétt eins og strákarnir hittast í fótbolta,“ segir Hildigunnur Einarsdóttir sem sagði já. Síðan var búinn til hópur á Facebook og í hann var boðið söngglöðum vinkonum. Og úr varð kór.

„Ég fékk Lilju Dögg Gunnarsdóttur til liðs við mig af því ég vildi aðra sýn en einvörðungu mína í þessu starfi og við tvær höfum stjórnað Kötlunum saman síðan.“

Kórstýrurnar Hildigunnur og Lija Dögg lögðu af stað með hreint …
Kórstýrurnar Hildigunnur og Lija Dögg lögðu af stað með hreint hjarta.

Viljum ekki vera í einu boxi

Lilja segir nokkuð sérstakt að Kötlukórinn hafi verið algerlega ómótaður í byrjun, bæði í sýn og stefnu.

„Við lögðum bara af stað með hreint hjarta og gerðum allskonar. Við kórstýrurnar höfum þroskast mikið með þessum konum, þær hafa leyft okkur að prófa hvaðeina sem okkur dettur í hug, þær treystu okkur algerlega. Þetta er svo flott samtal, við útsetjum oft beint í eyrun á þeim með engum nótum, þær þurfa að hlusta og læra á staðnum. Við vinnum stundum útsetningar á lögum sem eru ekkert endilega tengdar röddum, heldur leyfum við þeim að fljóta á milli.

Við stingum upp á lagi og spyrjum hvort þeim finnist við geta betrumbætt útgáfuna. Og svo prófum við okkur áfram og það liggur við að þær geti útsett sjálfar, þær hafa sjóast svo mikið, og við líka.

Við erum í raun að mússísera með þeim. Og það er ótrúlega gaman!“ segja þær Hildigunnur og Lilja og bæta við að þær hafi ákveðið strax í byrjun að fagna því að vera í þessum kvennahópi þar sem allt er svolítið kaótískt.

„Við höfum lært á þessum tíma að elska óreiðuna og sköpunina sem henni fylgir,“ segja þær og bæta við að þrátt fyrir að kórinn syngi stundum popplög þá haldi þær líka fast í kórhefðir.

„Við reynum að vera með feminíska slagsíðu í lagavali, við syngjum til dæmis Björk og Emilíönu Torríní. En við getum ekki og viljum ekki setja okkur í eitt box, okkur finnst svo fallegt að við erum að gera allskonar.“

Á síðustu vortónleikum var vandað til verka eins og ævinlega
Á síðustu vortónleikum var vandað til verka eins og ævinlega Birkir Brynjarsson

Þerapía að vera í kórnum

Flestar konurnar í kórnum eru á aldrinum 20 til 40 ára og snemma spurðist út hversu skemmtilegt er að vera í kórnum.

„Gríðarleg ásókn varð í að komast í kórinn og í haust mættu fimmtíu konur í inntökupróf. Það er erfitt að þurfa að segja nei við svona margar konur,“ segja þær og hlæja.

„Að vera saman og syngja í þessum kór er ákveðin þerapía. Sumir fara í jóga eða í ræktina til að ná fram slökun, en við syngjum. Ein sem hætti í kórnum um tíma, hún kom aftur í haust og sagðist aldrei aftur ætla að hætta, því það hefði veitt henni svo mikla gleði og styrk að vera í kórnum. Önnur sagðist aldrei fara af æfingum öðruvísi en núllstillt og í betra ástandi en hún kom.“

Djúpar raddir kvenna

Kötlurnar syngja allt án undirleiks og þær nota líkamana mikið, klappa, stappa og hrópa.

„Við leggjum mikið upp úr fallegri sjónrænni framkomu og við hönnum sviðsetninguna fyrir hverja tónleika. Við erum með listrænar pælingar með uppstillingar í hverju lagi fyrir sig, enda eru konurnar ekki alltaf í sömu röddunum, við vinnum þvert á. Við erum að læra hvernig þetta hljóðfæri, röddin, virkar. Í kvennkór er laglínan stundum í milliröddunum og við erum með konur í Kötlunum sem syngja mjög djúpt, niður í D. Við erum að leita að fleiri slíkum röddum.“

Smurði 300 samlokur

Þær eru afar ánægðar með hversu kórstarfið hefur víkkað út, þær eru farnar að skemmta og gera allskonar aðra hluti en halda vor- og hausttónleika.

„Við höfum verið með atriði á Listahátíð, tekið þátt í flugvélagjörningi, sungið á árshátíðum, í brúðkaupum, afmælum og á opnunarhátíðum. Við erum veldi og það er bylting að fara af stað í óhefðbundnum leiðum hjá kórum, þetta er það sem koma skal. Við sjáum allskonar kóra spretta fram, vinahópar taka sig saman og syngja saman, Karlakórinn Esja, Hljómfélagið, Hinsegin kórinn, Hrynjandi og Bartónar, en með þeim strákum höldum við tónleika á hverju ári.“

Kötlurnar voru með tónleika í kvöld, en þar frumsýndu þær tónlistarmyndband með Kötlunum að syngja Draumaprinsinn, lag Magnúsar Eiríkssonar úr kvikmyndinni Okkar á milli.

„Það er svo mikil orka í þessum hópi, þessar kröftugu konur sáu sjálfar um alla framleiðsluþætti. Mamma einnar smurði þrjúhundruð samlokur fyrir tökudaginn mikla, en þetta var tuttugu tíma vinnutörn. Það er bara vaðið í verkið án þess að gera eitthvert mál úr því, og það er svo gott.“

Kötlurnar munu koma fram „off venue“ á Airwaves laugardaginn 7. nóv. kl. 17 í bílastæðahúsinu við gamla Stjörnubíó við Laugaveg. Ókeypis og öllum opið.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant