Óskiljanlega lagið sem allir elska

Smáskífan sem verður fertug á morgun.
Smáskífan sem verður fertug á morgun. Af Wikipedia

Hvorki meira né minna en fjörtíu ár eru á morgun síðan hið ódauðlega lag bresku sveitarinnar Queen, Bohemian Rhapsody,kom út í Bretlandi. Flestir kannast við lagið og eflaust eru margir sem kunna það utan að enda er lagið eitt af þekktustu lögum poppsögunnar. Lagið var á plötu hljómsveitarinnar Night at the Opera.

Þótti ekki henta fyrir útvarp

Bohemian Rhapsody er miklu meira en rokklag. Það er sex mínútna rokk-ópera, án viðlags en með inngangi og útgangi og ótrúlegum milliköflum. 2.44 milljón eintök af laginu hafa selst í Bretlandi síðan það kom út 31. október 1975. Sem er ekki slæmt í ljósi þess að útgefendur Queen litu svo á að lagið myndi aldrei vera spilað í útvarpi vegna lengdar sinnar. Þegar lagið kom út, fyrir 40 árum síðan, var upptaka þess dýrarsta upptaka á einu lagi í sögu Bretlands. Lagið var tekið upp í sex mismunandi upptökuverum og þurfti að æfa lagið í þrjár vikur áður en upptökur gátu hafist.

Lagið er samið af Freddie Mercury sjálfum og var upptaka þess tæknilegt afrek fyrir áttunda áratuginn. Félagar Mercury í Queen misstu aldrei trúna á laginu. „Við vissum allir að þetta var eitthvað yndislegt og að við ættum að gefa hjarta okkar og sál í það,“ segir Brian May, gítarleikari Queen í samtali við BBC í tilefni af afmælinu.

Eins og fyrr segir samdi Mercury lagið og að sögn May var það skrifað á marga litla pappírsmiða og á símaskrá en einnig í höfði söngvarans. Mercury var kominn með rammann af laginu og fékk félaga sína til þess að hjálpa sér með restina. „Hann vissi nákvæmlega hvað hann var að gera. Við hjálpuðum honum bara að koma því til lífsins,“ var haft eftir May 2002.

Þrjár vikur að æfa, þrjár vikur að taka upp

Upptaka á laginu hófst í Rockfield upptökuverinu nálægt Monmouth í Wales 24. ágúst 1975, eftir strangar æfingar. Við upptökuna voru fimm önnur upptökuver notuð enda var lagið mjög flókið og margþætt. Upptökuferlið var þriggja vikna langt.

Meðlimir Queen höfðu verið varaðir við því að það yrði erfitt að koma laginu í almenna spilun í útvarpi. Það varð þó auðvelt eftir að breski útvarpsmaðurinn komst yfir upptöku af laginu stuttu eftir útgáfu Night At The Opera og spilaði það miskunnarlaust í þætti sínum á stöðinni Capital Radio. Fljótlega fóru aðrar útvarpsstöðvar að gera það sama og lagið breiddist út.

En hvað þýðir þetta alltsaman?

Textinn við Bohemian Rhapsody er langt frá því að vera hefðbundinn og er hann eitt af því skemmtilega við lagið. Mercury útskýrði aldrei merkingu lagsins fyrir utan það að það væri um sambönd. Aðrir meðlimir Queen hafa lítið sem ekkert sagt um merkinguna en May hefur gefið í skyn að það fjalli um persónuleg áföll í lífi söngvarans. „Freddie var mjög flókin persóna, léttur í lund og fyndinn á yfirborðinu en hann faldi óöryggi sitt og vandamál sem tengdust æsku hans. Hann útskýrði aldrei textana en ég held að hann hafi sett sig allan í þetta lag.“

Í heimildarmynd BBC um lagið sagði Roger Taylor, trommari Queen, að „lagið útskýrði sig sjálft, fyrir utan smá bull í miðjunni.“

Fólk hefur þó velt sér upp úr mögulegri merkingu lagsins lengi. Sumir telja að textinn lýsi morðingja í sjálfsmorðshugleiðingum á meðan aðrir líta bara á textann sem merkingalaust bull.

Tónlistarfræðingurinn Sheila Whiteley komst að þeirri niðurstöðu í bók sinni Queering the Popular Pitch að Mercury hafi verið á krossgötum í lífi sínu í kringum þann tíma sem lagið var samið en þá var hann nýbyrjaður í sínu fyrsta ástarsambandi með karlmanni. Hún stakk upp á því að lagið gæfi innsýn í andlegt ástand Mercury á þeim tíma þar sem hann syngur til Maríu meyjar (Mama, just killed a man) og þörf hans til þess að slíta sig frá henni. (Mamma Mia let me go).

Framhaldslíf í Wayne's World

Sama hvað textinn þýðir  þá sló lagið í gegn. Lagið var á toppnum í Bretlandi í níu vikur og varð einnig vinsælt í Bandaríkjunum þegar það kom þar út 1976. Þá náði það hæst í níunda sæti Billboard en þegar lagið var notaði í kvikmyndinni Wayne's World árið 1992 náði það upp í annað sæti.

Í samtali við BBC sagði May að hann hafi ekki þekkt Mike Myers, aðalhandritshöfund og aðalleikara myndarinnar. „En hann hringdi í mig allt í einu og sagði „Við erum búin að gera magnað atriði í nýju myndinni okkar. Fáum við þitt samþykki? Og geturðu fengið Freddie til að hlusta?“,“ lýsti May fyrir blaðamanni. „Þannig hann sendi mér kassettu og ég fór með hana til Freddie sem var þá ekki í góðu ásigkomulagi. Hann var að miklu leyti fastur í rúminu, en hlustaði á kassettuna og elskaði þetta.“ Á þeim tíma var Mercury orðinn mjög veikur af alnæmi. 

Að sögn May fékk Bohemian Rhapsody hálfgert framhaldslíf í Bandaríkjunum eftir útgáfu Waynes World.

Fjölmargir hafa flutt og gefið út ábreiður af Bohemian Rhapsody. Sú áhrifamesta var líklega þegar að Elton John og Axl Rose tóku lagið á minningartónleikum um Mercury árið 1992. Voru þeir haldnir til styrktar baráttunni gegn alnæmi sem dró söngvarann til dauða árið áður. Eftirlifandi meðlimir Queen spiluðu með.

Hljómsveitin The Flaming Lips hefur einnig gefið út ábreiðu á laginu og söngkonan Pink. Bohemian Rhapsody var einnig flutt í bandaríska sjónvarpsþættinum Glee árið 2011 og var það þá söngvarinn Jonathan Groff sem söng. Ekki hafa allar ábreiðurnar þó slegið í gegn og þótti það nokkuð umdeilt þegar rapparinn Kanye West flutti ábreiðu sína af laginu á Glastonbury hátíðinni fyrr á þessu ári en hann gleymdi m.a. textanum á tímabili.

Mest spilaðasta ábreiðan af laginu á Youtube er hinsvegar útgáfa Prúðuleikarana frá árinu 2009.

„Ég er ekki kominn með ógeð á því. Þú getur ekki kvartað yfir því að fólk vilji tala um lagið eftir öll þessi ár,“ sagði May í samtali við BBC fyrr í vikunni. „Mér finnst ennþá gaman að heyra það. Ef það kemur í útvarpinu hækka ég og hlusta. En engan „luftgítar“. Ég er orðinn of gamall fyrir það.“

Freddie Mercury.
Freddie Mercury. AFP
Queen flytja Bohemian Rhapsody á tónleikum.
Queen flytja Bohemian Rhapsody á tónleikum. Skjáskot af Youtube
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant