Mikill happafengur

Thom Yorke, söngvari og gítarleikari Radiohead.
Thom Yorke, söngvari og gítarleikari Radiohead. AFP

Skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice, sem fram fer í Laugardal 17.-19. júní nk., tilkynntu í gær að breska rokksveitin Radiohead yrði aðalatriði hátíðarinnar í ár. Tveimur dögum fyrr boðuðu skipuleggjendur að von væri á tilkynningu sem yrði allsvakaleg og sú magnaðasta sem gefin hefði verið út í sögu tónlistarhátíða hér á landi, hvorki meira né minna. Og vissulega verður Radiohead meðal allra merkustu hljómsveita sem leikið hafa hér á landi, það er óumdeilanlegt.

Radiohead hefur selt yfir 30 milljónir platna á heimsvísu og skipa hljómsveitina Thom Yorke, Ed O'Brien, bræðurnir Jonny og Colin Greenwood og Phil Selway. Radiohead var stofnuð árið 1985 og hefur gefið út átta hljóðversskífur sem teljast margar hverjar til bestu platna rokksögunnar. Fyrsta smáskífan, „Creep“, kom út árið 1992 og sló í gegn á heimsvísu eftir að lagið kom út á fyrstu breiðskífu sveitarinnar, Pablo Honey, árið 1993. Vinsældir Radiohead uxu til muna með annarri breiðskífu sveitarinnar, The Bends, sem kom út árið 1995 og með þriðju skífunni, hinni mögnuðu OK Computer frá árinu 1997, náði hljómsveitin alþjóðlegri hylli og heimsfrægð. Sú plata er talin með þeim allra merkilegustu sem gefnar voru út á tíunda áratugnum og einnig ein besta plata allra tíma.

Annað meistaraverk, Kid A, kom út árið 2000 og ári síðar Amnesiac. Kvað við nýjan tón á þeim þar sem tónlist sveitarinnar fór í nýjar áttir, tilraunakennd raftónlist orðin fyrirferðarmikil og áhrifa gætti frá súrkálsrokki og djassi. Árið 2003 kom Hail to the Thief út og var hún sú síðasta af plötum Radiohead sem útgáfufyrirtækið EMI gaf út. Sjöundu plötuna, In Rainbows, gaf hljómsveitin út sjálf árið 2007 og var hún m.a. merkileg fyrir þær sakir að vera eingöngu aðgengileg á netinu og auk þess ókeypis til niðurhals. Hljómsveitin leyfði fólki að ráða hvort það borgaði fyrir plötuna eða ekki og einnig upphæðinni. Áttundu plötuna, The King of Limbs, gaf hljómsveitin svo út árið 2011 og lagðist skömmu síðar í dvala. Nú er hún risin upp að nýju, hefur tónleikahald í sumar og herma fregnir að níunda platan sé væntanleg.

Þó Radiohead hafi ekki leikið áður á Íslandi tengist hún landinu að því leyti að forsprakki hennar, Yorke, hefur tvisvar unnið með Björk okkar Guðmundsdóttur. Fyrst var það árið 2000 þegar hann söng í lagi hennar „I've Seen It All“ sem hljómaði í kvikmyndinni Dancer in the Dark og seinna árið 2008 þegar hann tók þátt í gerð lagsins „Náttúra“ sem Björk samdi í tengslum við nátturverndartónleikana sem hún hélt með hljómsveitinni Sigur Rós.

Áhugasamir um Ísland

Leon Hill, markaðsstjóri Secret Solstice, segir það vissulega hvalreka fyrir skipuleggjendur hátíðarinnar að fá þessa merku hljómsveit til að leika á henni. Spurður að því hvort hvort erfitt hafi verið að sannfæra hljómsveitina um að koma hingað, segir hann það ekki hafa verið eins erfitt og hefði mátt búast við, í ljósi þess hversu virt og eftirsótt hljómsveitin er. Mikil vinna liggi þó alltaf að baki komu slíkra hljómsveita. 

Vinsælustu hljómsveitum heims fylgir alla jafna mikill búnaður og mannskapur og er Radiohead þar engin undantekning. „Eitt af því sem Radiohead gerir afskaplega vel er að halda tónleika. Tónleikar hljómsveitarinnar eru stórkostlegir,“ segir Hill. Að því er hann best viti fylgi um 40 starfsmenn hljómsveitinni sem sé býsna vænn hópur.

Ekki liggur enn fyrir hvaða dag Radiohead mun troða upp í Laugardalnum en það mun skýrast er nær dregur tónleikum, að sögn Hill. Hvað miðasölu varðar er einungis hægt að kaupa passa á alla hátíðina, ekki staka tónleika eða daga og hefur verð á hátíðarpössum farið stighækkandi frá því forsala hófst, úr 11.900 krónum í 24.900 krónur. Hill segir passana hafa selst mjög hratt og á von á því að fljótlega verði þeir uppseldir, á að giska eftir eina eða tvær vikur. Fræðast má um miðasölu og dagskrá hátíðarinnar á vef hennar, secretsolstice.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler