„Skotheldur“ töfradrykkur?

Heitasta æðið vestanhafs er kaffi-kúr sem ku valda bæði þyngdartapi og greindaraukningu, hvorki meira né minna. Að sögn Dave Asprey, stofnanda og framkvæmdastjóra Bulletproof Diet, gerir kúrinn neytendur að betri manneskjum en læknar eru skeptískir.

„Þú verður betri starfsmaður, betra foreldri, betri vinur, betri manneskja,“ segir Asprey, sem var eitt sinn meðal íbúa Sílíkondals en býr nú í Kanada. „Orkan mín breytist, heilinn minn breytist. Ég held betur athygli, ég hef orku til að ganga í málin,“ segir hann.

Hornsteinn kúrsins sem Asprey lofar er drykkur sem kallast Bulletproof Coffee, breytt útgáfa af hefðbundnu kaffi, sem í eru notaðar baunir sem hafa verið hreinsaðar af mycotoxin; myglu sem myndast á bauninni.

Kaffið inniheldur einnig smjör sem unnið er úr mjólk kúa sem fá aðeins gras að éta og olíu sem inniheldur miðlungslangar þríglýseríð-keðjur. Innihaldsefnunum er blandað saman þannig að úr verður rjómakenndur, náttúrulega sætur drykkur í líkingu við sjeik og kemur hann í staðinn fyrir morgunverð.

„Þú drekkur tvo svona og allt í einu hugsar þú ekki um mat í lengri tíma,“ segir Asprey. „Heilinn þinn er knúinn orku sem kemur ekki úr sykri, þú vildir ekki sykur í kaffið og þú missir löngunina og öðlast eiginlega frelsi.“

Asprey vó eitt sinn um 135 kg og hefur varið stórum hluta ævinnar í baráttu við aukakílóin. Hann fékk hugmyndina að kaffidrykknum þegar hann ferðaðist til Tíbet árið 2004 en hann þjáðist af hæðaveiki þar til hann drakk te með jakuxasmjöri.

Eftir áralangar tilraunir til að endurskapa uppskriftina heima afhjúpaði hann loks afraksturinn árið 2009 og sagði að kaffidrykkurinn og meðfylgjandi líkamsræktaráætlun hefðu gert honum kleift að öðlast nýjan líkama.

 

„Skotheld“ eða „kryptonite“?

Um þessar mundir er kúr Asprey einn sá vinsælasti í Bandaríkjunum en talið er að þriðjungur 320 milljóna íbúa landsins þjáist af offitu. Bókin The Bulletproof Diet komst á metsölulista New York Times, en kúrinn virðist bæði höfða til þeirra sem vilja missa nokkur kíló og þeirra sem hafa áhuga á því hvernig nota má líffræði og matvælatækni til að auka líkamlega og andlega getu.

Kúrinn sem fylgir morgunkaffidrykknum kveður á um glúten- og sykurlaust líferni og mataræði þar sem helmingurinn af hitaeiningunum er sóttur í heilsusamlega fitu, fimmtungur í prótein og restin í lífrænt grænmeti og ávexti.

Önnur fæða er flokkuð sem „skotheld“, „grunsamleg“ eða „kryptonite“.

Ungur íþróttamaður sem kallar sig Ray sagði í samtali við AFP að dagleg neysla kaffidrykkjarins yki tímælalaust orku. „Þú finnur ekki lengur til syfju, þú hrynur ekki niður eftir 20 mínútur,“ segir hann og bætir við að áhrifin vari lengur en áhrif annarra vara sem hann hefur prófað.

Asprey hvetur einnig til þess að fólk stundi áreynslumiklar æfingar í stuttum lotum.

 

Hvar eru næringarefnin?

Leikkonan Shailene Woodley og grínistinn Jimmy Fallon eru meðal þeirra sem hafa mært kaffidrykkinn. Sérfræðingar hafa hins vegar varað við næringarinnihaldi drykkjarins.

Bulletproof var á topp tíu lista British Dietetic Association yfir þá kúra fræga fólksins sem fólk ætti helst að forðast árið 2016, ásamt grænkálskúrnum og tyggjókúrnum. „Un-bull-ieveable“ var niðurstaða samtakanna.

Amy Schnabel hjá UCLA Medical Center sagði í samtali við AFP að kúrinn gæti virkað til skemmri tíma. „Í fyrstu þá skila allir kúrar sem byggjast á því að draga úr neyslu stórra fæðuflokka þyngdartapi,“ segir hún.

Þá segir hún skiljanlegt að kúrinn njóti vinsælda, ekki síst vegna þess að um er að ræða kaffidrykk. Hún segir að til lengri tíma eigi fylgjendur hins vegar á hættu að upplifa skort á ákveðnum næringarefnum.

Sérfræðingar segja einnig að staðhæfingar Asprey um hin svokölluðu sveppaeiturefni, þ.e. mycotoxins séu villandi, þar sem margir kaffiframleiðendur skoli baunirnar og fjarlægi þar með efnin.

Asprey segir hins vegar að ávinningurinn af kúrnum sé ótvíræður og margir virðast á sama máli, ef marka má velgengni hans. Fjárfestar lögðu nýlega 9 milljónir dala í reksturinn til að fjölga verslunum, en sú fyrsta var opnuð í Santa Monica í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant