Hrafn flýgur sóló með Seica

Hrafn Bogdan Seica Haraldsson
Hrafn Bogdan Seica Haraldsson mbl.is/Golli

Hann var í strætó rétt eftir hádegi á fimmtudaginn á leið frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og vestur í bæ. Skömmu síðar var hann mættur til vinnu í Vesturbæjarlauginni. Um kaffileytið gaf hann sér tíma í stutt spjall. Dagarnir hjá Hrafni Bogdan Seica Haraldssyni eru þéttskipaðir. Kvöldin líka, því þá getur hann loks snúið sér að hugðarefni sínu, tónlistinni. Á nítján ára afmælisdegi sínum, 2. febrúar, gaf hann út glænýtt sólólag, Enigmatic, á Youtube og ætlar ekki að láta þar staðar numið, þau verða fleiri segir hann.

Hrafn Bogdan Seica Haraldsson
Hrafn Bogdan Seica Haraldsson



Seica, eins og hann kallar sig á Youtube, Facebook og Soundcloud, samdi, útsetti og syngur lagið. Nafnið gefur tóninn; Enigmatic eða dularfullur/torræður. „Dramatískt, en um leið kraftmikið með góðum trommuslætti og „Bond-fílingi“,“ eins og hann lýsir því. Og hefur nokkuð til síns máls. Sjálfur er Seica vitaskuld í aðalhlutverki í myndbandinu og sýnir tilþrif sem minna svolítið á njósnara hennar hátignar númer 007. Hann er líka flottur í tauinu eins og Bond; uppáklæddur í drifhvítri skyrtu með þverslaufu og í svörtum jakkafötum. Heima hjá sér og í skólanum er Seica bara kallaður Hrafn og gengur alla jafna ekki í jakkafötum. Hann ekur heldur ekki um á BMW, lætur strætó duga.

Norrington: Sigurður Sævar Magnúsarson, Bjarni Daníel Þorvaldsson og Hrafn Bogdan …
Norrington: Sigurður Sævar Magnúsarson, Bjarni Daníel Þorvaldsson og Hrafn Bogdan Seica Haraldsson

Mikilvægi Youtube

„Frá því Enigmatic fór í loftið hefur áhorfið aukist jafnt og þétt, enda er Youtube mikilvægur vettvangur fyrir ungt tónlistarfólk til að koma sér á framfæri og fá sem mesta dreifingu,“ segir Hrafn og er ánægður með góðar viðtökur lagsins og jákvæðar umsagnir þeirra sem hlýtt hafa.

Myndbandið er tekið upp í Hafnarfjarðarhrauni og annars staðar í nágrenni Reykjavíkur. „Ég fékk vin minn og frænda, Árna Beintein Árnason, leikstjóra og leikara, til að skjóta myndbandið eftir að hafa lýst fyrir honum í stórum dráttum hvernig ég hefði séð það fyrir mér. Hann hefur tekið upp mörg tónlistarmyndbönd og kom með ýmsa góða punkta og hugmyndir. Þegar upp var staðið vorum við báðir mjög ánægðir.“

Hrafn var ekki hár í loftinu þegar hann byrjaði að syngja og spila á píanóið heima hjá sér. Hann var í tíu ár í píanónámi í tónlistarskóla, frá sex til sextán ára, og söng á sama tíma með Drengjakór Reykjavíkur. Ásamt þremur strákum í kórnum stofnaði hann Norrington-sönghópinn rétt áður en þeir hættu í kórnum. „Við komum meðal annars fram á jólatónleikum Garðars Cortes og hituðum einhverju sinni upp fyrir tenórana þrjá. Ég var í söngnámi hjá Diddú í Söngskóla Sigurðar Demetz á þessum tíma en hætti í vor til að geta einbeitt mér að minni eigin tónlist,“ segir Hrafn.

Stýrði Karlakór Reykjavíkur

Af sömu ástæðu hætti hann nýverið að syngja með Karlakór Reykjavíkur, en segir þó aldrei að vita nema hann hefji aftur upp raust sína með sínum gömlu kórfélögum. Áður en hann kvaddi þá félaga vann hann sér til frægðar að stýra kórnum á tónleikum við flutning á lagi sem hann samdi sjálfur þegar hann var aðeins 15 ára. Ekki aðeins var hann yngsti kórfélaginn heldur langyngsti stjórnandinn í næstum 90 ára sögu kórsins.

„Lagið heitir Ísland, Ísland og vinur minn Jökull Sindri Gunnarsson samdi textann. Upphaflega samdi ég lagið fyrir Norrington, en svo fannst mér „fílingurinn“ í því vera meira fyrir karlakórinn.“

Hrafn hefur samið fjölda laga frá því hann var unglingur. „Annaðhvort sest ég við píanóið og byrja að spila eitthvað af fingrum fram eða ég fer að syngja þegar ég er einn að keyra og allt í einu er komið lag. Oft er ég líka búinn að hugsa hvers konar lag ég ætla að semja þegar ég sest við píanóið, til dæmis hvort það eigi að snúast um eitthvað persónulegt eða vera uppspuni ef svo má segja. Ég á orðið slatta af alls konar lögum sem ég hef ekkert gert með fyrr en núna að ég er að vinna í að koma þeim á framfæri. Annars hef ég undanfarið aðallega samið sólólög fyrir sjálfan mig.“

Þótt stemningin í Enigmatic, því fyrsta úr smiðju Seica sem farið hefur í loftið, sé undir áhrifum frá fyrrnefndum James Bond er lagið gjörólíkt öðrum Bond-lögum í áranna rás, til að mynda því nýjasta, Writing's On The Wall, titillagi Spectre.

„Ég varð strax mjög spenntur þegar ég frétti að Sam Smith ætti að semja og syngja þetta útvalda lag, enda er hann með æðislega rödd. Síðan byrjaði ég að glamra eitthvað á píanóið rétt eins og mér hefði sjálfum verið falið það hlutverk að semja og syngja lagið fyrir myndina,“ segir Hrafn og brosir.

Þótt hann sé þegar farinn að undirbúa sólóferil sinn sem lagasmiður, textahöfundur og söngvari hefur hann áður í mörg horn að líta. Fyrst þarf hann að ljúka námi í FB, en hann er á íþróttabraut og útskrifast að ári ef allt gengur eftir. Eins og svo margt sem hann hefur gefið upp á bátinn í þágu tónlistarinnar hætti hann að keppa með sunddeild KR. Hann æfir þó enn með deildinni, enda ekki verra að tónlistarmenn séu vel á sig komnir líkamlega.

Sungið í fjölskylduboðum

Spurður hvort tónlistin sé kannski í genunum kveðst hann einfaldlega ekki hafa hugmynd. „Ég veit ekkert um kynforeldra mína, því ég fæddist í Rúmeníu þar sem ég ólst upp á munaðarleysingjaheimili til tveggja ára aldurs þegar foreldrar mínir, Sólveig Einarsdóttir og Haraldur Hrafnsson, tóku mig að sér. Pabbi var trommari í hljómsveit á sínum yngri árum og mamma var og er mikið í kórum og þannig tónlist. Í föðurættinni er margt tónlistarfólk, til dæmis treður Bræðrabandið, sem skipað er pabba og bræðrum hans, stundum upp í jólaboðum, stórafmælum og öðrum fjölskylduviðburðum og spilar eitthvað skemmtilegt.“

Þá er komin skýring á því óvenjulega nafni Seica. Listamannsnafnið er ekki úr lausu lofti gripið heldur rúmenskt ættarnafn Hrafns. Fyrir Seica er Hrafn búinn að semja og útsetja allmörg lög sem öll eru í popp- og dægurlagastíl. Hann á líka fjölda alls konar laga, þar á meðal klassísk og djass, sem hann á eftir að vinna betur í – þegar tími gefst til.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson