Svartir límonaði-galdrar

Beyoncé særir fram anda forfeðra sinna í Lemonade.
Beyoncé særir fram anda forfeðra sinna í Lemonade. Skjáskot úr Lemonade

Kaþarsis. Það er Lemonade. Hreinsandi flóð tilfinninga, táknmynda og tónlistar.

Rödd Beyoncé er kunnugleg, náin okkur, rödd konu sem hefur nánast frá upphafi staðið fyrir styrk. Hún var „survivor“ og „Sjálfstæð kona“ með Destiny‘s Child. Hún sópaði saman „einhleypu dömunum“ sem sólólistamaður og sagði þeim „hver stjórnar heiminum (stelpur)“.

Svo þegar þessi sterka rödd brotnar, brotnar yfir því að geta ekki verið eins sterk og hún vildi, er erfitt að brotna ekki örlítið með.

„What is it about you that I can‘t erase, baby? / When every promise don‘t work out that way“

Fyrir plötuna og tónlistarkvikmyndina Lemonade sem út kom síðustu helgi safnaði Beyoncé Knowles að sér miklum fjölda ólíkra listamanna. Hún tók stökkið langt út fyrir þann R&B/popp ramma sem henni er jafnan settur, með rokki, kántrí og kalypsó tónlist, til þess að segja sögu. Sagan hefur verið sögð svo oft að hún er orðin að klisju en í meðförum Beyoncé og félaga verður hún ný. Lemonade, platan og kvikmyndin, er eftir allt ekki aðeins hennar, heldur næstum allra svartra kvenna í Bandaríkjunum. 

Já, það er mikilvægt að leggja áherslu á í upphafi að þó svo að Lemonade sé á margan hátt meistaraverk nær það ekki markmiði sínu að öllu leiti. Asleigh Shackelford hjá Wear Your Voice segist þannig hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar hún horfði á The Visual Album og uppgötvaði að konur eins og hún væru ekki meðal hráefnanna í límonaði drottningarinnar. Það voru engar feitar svartar konur í myndinni nema þar sem vísað var í fátækt með stillum frá New Orleans.

Þegar spurningin „Hver myndi halda framhjá Beyoncé“ er allsráðandi á veraldarvefnum er auðvelt að lesa það úr að það sé ásættanlegra að koma illa fram við konur sem ekki eru passa inn í hefðbundna fegurðarstaðla.

„Svartleiki + fita neitar okkur um nálægð við fegurð í útleggingu hvítleikans á máta sem Beyoncé og gestir hennar á Lemonade myndu aldrei fá skít fyrir,“ skrifar Shackelford. „Það er nauðsynlegt að bera kennsl á að kvöl svartra kvenna og stúlkna á rætur í stjórnun gagnvart stórum líkömum. Okkur er neitað, jafnvel um hugsunina um sjálfbæra og heilbrigða ást.“ 

Sömuleiðis er grunnt á markaðshyggjunni, þar sem áfengistegundir í eigu Jay eru auglýstar í textum Lemonade, hefðinni samkvæmt og eins og tíundað var þegar „Formation“ kom út gerir platan mikið út á peninga sem vald og notar þannig „verkfæri húsbóndans“. 

Reyndar verður seint sagt um Beyoncé að hún kunni ekki að fara með verkfærin en dæmi um það mátti sjá á fyrstu tónleikum hennar eftir útkomu plötunnar, þar sem hægt var að kaupa „Boycott Beyoncé“ boli, með beinni vísun í andstöðuna gegn svörtum skilaboðum Formation.

Afhverju hismið?

Beyoncé og Jay Z eru aðalpersónur Lemonade sem fjallar um framhjáhald. Að því sögðu er er platan listaverk og þó svo að persónur hennar fyrirfinnist í raunveruleikanum er ekkert hægt að fullyrða um hversu mikið af henni byggir á staðreyndum. Margir hafa raunar viljað skilja plötuna alfarið frá slúðrinu og persónulegum tengingum Beyoncé en með slíkum lestri er aðeins verið að skoða eina hlið plötunnar í stað heildarinnar, kjarnann en ekki hismið.

Beyoncé notar slúðrið með skipulögðum hætti til að byggja upp söguþráð, notar sitt persónulega líf til að ná til hlustandans. Kannski er það markaðsbrella, kannski er það skáldskapartæki og kannski er það afhjúpun innra lífs listamannsins. Líklegast er það örlítið af þessu öllu saman því ekki allt á plötunni er fullkomlega sannleikanum samkvæmt en eins er víða að vinna sterkar vísanir í raunveruleikann.

Þannig verður slúðrið hluti verksins. Það er ekki fínt eða hámenningarlegt en það hefur sinn tilgang sem engin ástæða er til að líta framhjá.

Til einföldunnar og vegna óljósra tengsla raunveruleikans og listarinnar mun nafn Beyoncé notað yfir ljóðmælandann í þessari grein og nafn Jay Z um hinn svikula eiginmann eftir því sem við á. 

Að bera harm sinn í hljóði

Beyoncé býr til sína eigin útgáfu af fimm stigum sorgarinnar, 11 stig ferlis sem nær frá fyrsta grun um framhjáhald alla leið til sátta. Stigin: innsæi, afneitun, reiði, deyfð, tómleiki, ábyrgð, umbót, fyrirgefning, upprisa, von og endurlausn, eru titlar ljóða, samin af sómalsk-breska ljóðskáldinu Warsan Shire. Beyoncé flytur ljóð hennar inn á milli laga sinna og þau skapa ramma og leiðarvísi sem er verkinu mikilvægur.

Ljóðin eru ekki öll samin sérstaklega fyrir Lemonade en þau voru aðlöguð af Shire sjálfri fyrir verkið. Stór hluti þess kyngimagnaða blæs sem verkið hefur yfir sér er fenginn úr ljóðunum sem eru hrá og kraftmikil.

„(...) I bathed in bleach, and plugged my menses with pages from the holy book but still inside me, coiled deep, was the need to know... Are you cheating on me?“

Með ljóðinu sem ber yfirskriftina Denial og brotið hér að ofan er fengið úr kemur Shire inn á þema sem er allt of kunnuglegt fyrir konur um allan heim en hefur haldist sem sérstakur undirtónn í heimi svartra kvenna mun lengur en í heimi hvítra kvenna. Það er ekki langt síðan konur voru eign eiginmanna sinna og bar skylda til að bera harm sinn í hljóði hvað varðaði ótrygglyndi eiginmanna sinna, það kom þeim einfaldlega ekki við. Svipað viðhorf er enn í dag greipt inn í menningu svartra Bandaríkjamanna eins og Ijeoma Oluo útskýrir svo vel í grein fyrir Guardian. 

„Svört kona sem sýnir reiði sína vekur fljótt fyrirlitningu. „Svartir menn þurfa að kljást við svo margt fyrir,“ segir fólk, „það er skylda þín að styðja hann og hjálpa honum að verða betri maður“. Undirgefnin sem ætlast er til af okkur er kaldhæðin mótsögn við þann styrk sem þarf til að finna sér leið um þennan heim sem svört kona. (...) Þessar væntingar til þess að svarta konan beri harm sinn í hljóði erfast frá kynslóð til kynslóðar,“ skrifar Oluo og vitnar í fyrsta ljóð Shire:

„You remind me of my father - a magician, able to exist in two places at once / In the tradition of men in my blood you come home at 3am and lie to me.”

Mathew Knowles ásamt Beyoncé.
Mathew Knowles ásamt Beyoncé. mbl

Þessi tiltekna lína er persónuleg fyrir Beyoncé. Faðir hennar, Mathew Knowles og móðir hennar, Tina Knowles, skildu eftir 31 árs hjónaband 2009 eftir að upp komst að hann hefði eignast barn með annarri konu. Mathew var umboðsmaður Beyoncé allt frá því hún var barn og fram til 2011 þegar hún stofnaði sitt eigið fyrirtæki. Bæði hún og aðrir meðlimir Destiny‘s Child hafa lýst því sem svo að hann hafi haldið uppi heraga sem mörgum myndi þykja óviðeigandi fyrir svo ungt fólk, eða yfirhöfuð.

„Did he bend your reflection? 
Did he make you forget your own name? 
Did he convince you he was a God? 
Did you get on your knees daily? 
Do his eyes close like doors? Are you a slave to the back of his head? 
Am I talking about your husband or your father?“

Þetta ljóð Shire virðist þannig engu minna persónulegt, enda fylgir lagið „Daddy Lessons“ í kjölfar þess þar sem Beyoncé syngur um að faðir hennar hafi varað hana við því að enda með manni eins og honum. Guðadýrkunin á vel við þegar kemur að Jay Z sem eins og margir aðrir rapparar setur sjálfan sig gjarnan í guðatölu í verkum sínum.

Slík upphafning er mikilvæg rappinu sem á rætur sínar í baráttunni við undirokun svartra. Því miður er einnig gríðarlega algengt að rapparar noti undirokun kvenna til eigin upphafningar. Sú tilhneiging er sprottin úr samfélaginu í kringum þá og rapphefðin viðheldur þeirri tilhneigingu í samfélaginu á móti.

Þess vegna eru lög á við „Formation“ og birtingarmyndir svartra kvenna í Lemonade í heild, svo mikilvægar, til þess að hefja svartar konur upp úr þeirri tvöföldu undirokun sem þær búa við og minna þær og aðra á hvers virði þær eru. Svo aftur sé vitnað í Oluo:

„Kynslóðir af vinnu, ást og vanrækslu hafa gert okkur að hljóðlátum stríðsmönnum. Tilvera okkar yfirhöfuð er mótmæli.“

Til þess að geta unnið sig upp úr undirokuninni þarf fyrst að benda á hvernig hún er til staðar. Á Lemonade gerist það á fyrri hluta plötunnar þar sem þátttaka svartra karla í kerfislægri kúgun svartra kvenna myndhverfist yfir í svik Jay Z við Beyonce. Á seinni hluta plötunnar er litið fram á veginn, til endurfæðingar. En við skulum ekki flýta okkur um of.

Brjáluð ást

Snemma í Lemonade  gengur Beyoncé niður götu með kylfu á meðan hún syngur lagið „Hold Up“. Eins og sjónvarpsþáttadrottningin Shonda Rhimes benti tísverjum á ber kylfan nafnið „Hot Sauce“ og vísar þar í síðasta lag plötunnar, „Formation“ þar sem sterka sósan í töskunni er menningarlegt vopn svartra suðurríkjakvenna gegn hverjum þeim sem hyggst abbast upp á þær. 

Beyoncé rekur þann punkt rækilega heim þegar hún beitir kylfunni á nærliggjandi bifreiðar, brosandi og hlæjandi, rétt eins og gjörningalistamaðurinn Pipilotti Rist í innsetningunni „Ever is Over All“ frá 1997.

Myndbrotið er í heild sinni nokkuð brjálæðislegt. Létt tónlistin kallast á við þungt umfjöllunarefni og glaðværð Beyoncé kallast á við eyðilegginguna sem hún skilur eftir sig.

„What‘s worse / looking jealous or crazy, jealous or crazy?“ spyr Queen B og í því sem hún beitir „sterku sósunni“ á brunahana rifjast upp augnablik eins og úr fyrra lífi. Í fyrsta myndbandinu sem gefið var út af fyrstu sólóplötu drottningarinnar var nefnilega næstum því nákvæmlega eins atriði, þar sem hún sparkaði ofan af brunahana svo vatnið gossaðist út og yfir hana alla. Jay Z átti einmitt þátt í þessum fyrstu skrefum hennar sem sólólistamanns því hann rappaði kafla í laginu sem ber það athyglisverða nafn „Crazy in Love“.

Þannig vísar Beyoncé í sameiginlega sögu þeirra hjóna. Hún vill „rather stay crazy“ en að láta vaða yfir sig og þegar hún ekur trukk yfir fólksbíla í lok lagsins sýnir hún nákvæmlega hversu „brjálæðislega ástfangin“ hún getur verið.

Fróðir einstaklingar í afrískum goðsögum hafa hinsvegar bent á að guli kjóllinn sem hún klæðist við þetta tilefni, rétt eins og staða Bey ofan á sökkvandi lögreglubíl í „Formation“ gæti vísað í stærra samhengi.

Að elska sjálfa guð

Lemonade er smekkfull af vísunum í Yoruba fólkið í Nígeríu. Beyoncé og dansarar hennar klæðast hefðbundnum Yoruba búningum og hefðbundnum Yoruba munstrum. Auk þess sá nígeríski listamaðurinn Laolu Senbanjo um að mála líkama þeirra í „Sorry“ með því sem hann kallar „hina helgu Ori list“ og felst í því að „túlka sál og örlög“ þess sem hann teiknar á.

Árvakrir aðdáendur höfðu þegar getið sér til um að fyrrnefnd uppstilling í „Formation“ vísaði til Yoruba gyðjunnar Oshun, sem er persónugervingur kvenlegs kynferðis, ástar,  frjósemi og sköpunar en einnig fersks vatns.  Gulur er litur Oshun og því er ekki um að villast hvert Beyoncé sækir innblástur sinn þegar hún stígur fram í gulum kjól, með fossandi vatn allt í kringum sig.

Omise'eke Natasha Tinsley, prófessor í afrískum fræðum við Texas háskóla í Austin fer betur í saumana á þeim svörtu kventöfrum sem Beyoncé glæðir Lemonade, í grein sinni fyrir Time. 

 Hún bendir á að Beyoncé bregður sér ekki aðeins í hlutverk Oshun því í beinu framhaldi, í „Don‘t Hurt Yourself“og „Six Inch“ umbreytist hún í hina fokreiðu og ofbeldisfullu Rauð-augna Erzulie frá Haítí, og einnig verður hún að egypsku drottningunni Nefertiti, í „Sorry“.

„Á meðan á þessu stendur syngur hún texta um framhjáhald, sársauka og yfirskilvitleika: „When you love me, you love yourself/Love God herself“,“skrifar Tinsley og vitnar þar í „Don‘t Hurt Yourself“.

Nefertiti er afar áhugaverð í þessu samhengi. Hún klæddist kórónu Hathor sem gaf henni stöðu „kynlífsgyðju, tilbúnni að leiða í ljós endurlífgandi kraft kynferðislegrar endurnýjunnar,“ eins og fræðikonan Jacquelyn Williamson orðar það. 

Þannig er innkoma hennar í lagið „Sorry“, þar sem ótrúum eiginmanninum er bókstaflega sendur fingurinn og haldið er áfram með lífið, afar viðeigandi.  Í ofanálag voru Nefertiti og eiginmaður hennar, egypski faraóinn Akhenaten, fyrst til þess að koma á eingyðistrú í Egyptalandi. Þannig minnir Beyoncé með myndrænum hætti á að hún á að vera eina konan í lífi Jay, hann skal ekki aðra guði hafa.

Vert er að minna á að það er ekki hægt að ætla að sagan sé sjálfsævisöguleg en eins og Tinsley bendir á hafa svartar listakonur lengi notað léttúðuga karla sem táknmynd feðraveldisins.

„Ef ske kynni að þið hélduð að þessi svarti kvenna galdur væri ekki pólitískur, samplar [Beyoncé] Malcom X til þess að segja ykkur afhverju hann er það,“ skrifar Tinsley og útskýrir hvernig andlit svartra kvenna fylla skjáinn í miðju „Don‘t Hurt Yourself“ í því sem rödd mannréttindahetjunnar ómar:

„The most disrespected person in America is the black woman.
The most unprotected person in America is the black woman.
 The most neglected person in America is the black woman.”

„Þegar svartar konur læra að trúa á okkar eigin ást og fegurð af eins mikilli ákefð og við trúum á aðra guði verðum við hversdags alkemistar og góðar nornir, Oshun-ur brunahana og Nefertiti-ar stokkfléttna. Og það, jú, er pólitísk aðgerð svarts femínisma.“

Þegar skítur skeður í lyftu

Eins og áður sagði notar Beyoncé slúður um eigið einkalíf í verki sínu og því skulum við leyfa okkur að líta, sem snöggvast, á slúðurhliðina.

Orðrómar um framhjáhald Jay Z hafa verið viðloðandi parið allt frá 2005. Nákvæmari útlistun á þeim má sjá á vef Jezebel en síðustu viku hafa augu heimsins beinst að „lyftuatvikinu“ árið 2014, sem virðist eina haldbæra sönnun heimsins um að líf Carter-Knowles fjölskyldunnar hafi ekki verið eins fullkomið og hún vildi vera láta.

Á myndskeiði úr öryggismyndavél sem lekið var til TMZ sést Solange Knowles, yngri systir Beyoncé, ráðast á Jay Z og fer það svo að öryggisvörður hans þarf að grípa hana af honum.

Í kjölfarið spruttu upp ýmsir orðrómar um ástæður árásarinnar en flestir snerust þeir um meint daður eða framhjáhald rapparans með fyrrum eiginkonu fyrrum viðskiptafélaga síns, Dame Dash, þetta sama kvöld.

Umrædd fyrrum eiginkona er fatahönnuðurinn Rachel Roy. Roy hóf tískuferill sinn sem nemi hjá Rocawear, tískuvörumerki Dash og Jay Z þar sem hún kynntist þeim báðum. Síðan þá hefur hún náð nokkrum frama á sínu sviði en nafn hennar var þó lítt þekkt utan tískuheims Bandaríkjanna fyrr en Lemonade kom út.

Nokkrum mánuðum eftir „lyftuatvikið“ gaf Beyoncé út nýja útgáfu af laginu „Flawless“ af plötunni Beyonce þar sem hún gerði lítið út átökunum. „Of course sometimes shit goes down when there's a billion dollars on an elevator,“ sagði Beyoncé og þar með var málið dautt lengi vel.

Rachel Roy verður líklega alltaf þekkt sem Becky, þó svo …
Rachel Roy verður líklega alltaf þekkt sem Becky, þó svo að líklega vísi línan ekki beint til hennar.

Hin nýja Monica Lewinsky?

Beyoncé minnist aldrei á „lyftuatvikið“ á Lemonade og gefur ekkert til kynna um hver/hverjar ástkonur Jay Z sem kannski er ort um var/voru. Öllum má vera ljóst að það hefði engu að síður orðið hluti af umræðunni en Roy skellti stóru skotmarki á bak sér þegar hún setti inn mynd á Instagram með orðunum: „Gott hár engin tár en við munum þiggja góða lýsingu, fyrir sjálfsmyndir, eða innri sannleika, alltaf. Lifið í ljósinu #nodramaqueens.”

„Gott hár“ er skýr vísun í textabrotið  „Better call Becky with the good hair“, síðustu línu lagsins „Sorry“ á Lemonade sem bendir Jay Z á að hann geti leitað til frillu sinnar því Beyoncé hafi fengið nóg.

Roy virðist ekki hafa gert sér grein fyrir mætti og reiði B-flugnabúsins (e. the Beyhive) eða hugsanlega sá hún tækifærið til þess að verða sér úti um frægð og frama. Hvað sem fyrirætlunum hennar líður þá hefur hún neyðst til að stilla Instagram reikning sinn á „private“ vegna þeirrar ofbeldisbylgju sem reið yfir hana í kjölfar myndarinnar. Roy reyndi að svara fyrir sig á Twitter:

„Ég virði ást, hjónabönd, fjölskyldur og styrk. Það sem ætti ekki að líðast af nokkrum, sama hvað, er einelti af nokkurri gerð.“

Það er ekki hlaupið að því að vorkenna Roy. Hún virðist hafa gert á hlut annars einstaklings og svo gert lítið úr því þegar  téður einstaklingur opnaði sig um tilfinningarnar sem fylgdu.  Hún hefur þó óneitanlega rétt fyrir sér, því einelti er aldrei afsakanleg hegðun, sama hvort Roy hafi „opnað á hana“ eða ekki.

Að auki má benda á hversu lítil reiði hefur beinst að Jay Z, manninum sem raunverulega hefur gefið Beyoncé loforð sem hann virðist hafa svikið. Málið minnir óneitanlega á þá skækjuskömm sem þá 22 ára Hvíta húss neminn Monica Lewinsky mátti þola í kjölfar þess að upp komst um samband hennar við Bill Clinton, þáverandi Bandaríkjaforseta árið 1998. Þrátt fyrir að það hafi verið Clinton sem var að „brjóta af sér“ fékk hneykslið nafn Lewinsky. Málið hefur fylgt henni síðan á svo sterkan hátt að sjálf Beyoncé persónugervði fullnægingu karlmanns með nafni hennar í laginu „Partition“ frá 2013 þar sem hún syngur „He Monica Lewinsky‘d all on my gown“.

Ekki er ólíklegt að „Becky“ muni fylgja Roy með svipuðum hætti héðan af en þó virðist með öllu óvíst að Beyoncé hafi í raun verið að vísa til hennar. Í yfirlýsingu Roy sem gefin var út á þriðjudag sagði Roy að Instagram myndin hefði verið misskilin og að lagið vísaði ekki til hennar. 

Plötuumslag Lemonade vakti upp miklar spurningar þegar Beyoncé birti mynd …
Plötuumslag Lemonade vakti upp miklar spurningar þegar Beyoncé birti mynd af því á Instagram fyrir útgáfu plötunnar.

Góða hárið

Hár svartra kvenna, í allri sinni dýrð, er gegnum gangandi sjónrænt þema í Lemonade. Jafnvel á „umslagi“ plötunnar er fléttað hárið það eina sem við sjáum af Beyoncé fyrir utan eyra hennar.

Eyrað er hugsanlega vísun í fyrsta lagið á plötunni, „Pray You Catch Me“ þar sem Beyoncé vonast eftir því að Jay Z verði var við að hana gruni eittvað („My lonely ear/Pressed against the walls of your world“) og þannig áminning um að þó svo allt leiki í lyndi við lok plötunnar þá er hún enn að hlusta.

Flétturnar eru hinsvegar menningarleg vísun í afrískan uppruna svartra Bandaríkjamanna og í forfeður þeirra sem hnepptir voru í þrældóm og fluttir til vesturheims.  Eins og segir á síðunni History of Cornrow Braiding

„Höfuð voru oft rökuð við föngun, að því er virðist af hreinlætisástæðum en með þeim sálfræðilegu áhrifum að viðkomandi var sviptur eigin menningu. Endurheimt hefðbundinna hárgreiðslna í nýja heiminum var þannig að formi andófs sem gat verið útfært á laun.“

Hár svartra hefur allt frá upphafi verið álitið óæðra af hinu ríkjandi samfélagi hvíta mannsins. Enn þann dag í dag mætir svart fólk miklum fordómum, m.a. í skóla og á vinnumarkaði, fyrir að halda hári sínu náttúrulegu eða notast við hefðbundnar afrískar greiðslur í stað þess að slétta það eða temja með einhverjum hætti sem er líkari því sem gengur og gerist meðal hvítra. Þess vegna er upphafning náttúrulegs svarts hárs og svartra hárgreiðslna andófskennd, uppreisn gegn heimi sem heimtar að svartir lagi sig að honum en gefur ekkert á móti.

Svörtu hári er fagnað allt í gegnum Lemonade bæði með ólíkum greiðslum Beyoncé og með ólíkum greiðslum annarra þátttakenda í myndinni sem eru langflestir svartir. Línan um „Becky with the good hair“ undirstrikar ástæðu þessa.

„Becky“ er slangur yfir hvíta konu og virðist það oftast notað yfir það þegar hvítar konur veita körlum munngælur. Nýlega hefur Becky reyndar einnig orðið að slangri fyrir Taylor Swift en afar ólíklegt verður að teljast að Swift sé umrædd Becky. 

„Góða hárið“ gæti síðan vissulega vísað til hárs hvíts fólks en eins og Rebecca Thomas hjá MTV bendir á hefur góða hárið ekki aðeins verið notað til að skilja á millri hvítra og svartra. Á tímum þrælahalds skildu hvítir húsbóndar þá þræla sem voru ljósari yfirlitum og með sléttara, „betra“ hár frá hinum og notuðu þá til starfa inn á heimilinum. Dekkri þrælar með grófara hár voru hinsvegar látnir sinna erfiðisvinnunni á ökrunum. Thomas vitnar í bókina Hair Story eftir Ayana Byrd og Lori Tharps: 

„Svart fólk tók hugmyndina inn á sig...[og] breiddi út hugmyndina um að svartir með dekkri húð og hrokknara hár væru minna aðlaðandi, treggáfaðri og minna virði en bræður þeirra og systur með ljósara litarhaft.“

Í laginu „Sorry“ eru ólíkar greiðslur dansara hennar einmitt áberandi og þó svo að lagið fjalli á yfirborðinu um að gefa skít í svikulan elskhuga verður samspil hársins og „Better Call Becky With the Good Hair“ þess valdandi að skilaboðin verða stærri. Skilaboðin eru upphafning svartra kvenna þar sem skítur er gefinn í hvíta fegurðarstaðla og kúgun fyrri alda fær fingurinn.

Beyoncé vísar löngutöng upp í loft.
Beyoncé vísar löngutöng upp í loft. Skjáskot úr Lemonade

Frelsi á vettvangi þrældóms

Einn áhugaverður listrænn angi Lemonade er umhverfið sem myndin gerist í en það, rétt eins og hinar ólíku hárgreiðslur kvennanna sem þar birtast, er áminning um forfeðurna. LaKisha Michelle Simmons gerir umhverfi Lemonade að umfjöllunarefni sínu í pistli á vef Háskólans í Norður Karólínu. 

Simmons segir að auk „suðurríkja gotneska stílsins“ og „suðurríkja verandarinnar“ sé landslag Louisiana áleitið vegna þrældómssögunnar sem á því hvílir. Hún segir frá þrælauppreisn 1811 þegar þræll leiddi her karla og kvenna í uppreisn gegn húsbóndum sínum. Hópurinn fór milli plantekra meðfram Missisippi og myrti hvíta en frelsaði svarta á leið sinni til New Orleans.

„Lemonade var tekin upp á einni þessara plantekra: Destrehan plantekrunni. Á Destrehan mætti her plantekrueigenda og hvítra yfirstéttar manna svarta uppreisnarhernum. Plantekruyfirstéttin fór með sigur af hólmi og handsamaði mennina sem báru ábyrgð á uppreisninni,“ skrifar Simmons.

„Í refsingarskyni, og sem áminningu til þrælanna um að óttast hvítt vald, tóku þeir hina ábyrgu af lífi og afhöfðuðu þá. Eigendur plantekranna settu afskorin höfuð uppreisnarmannanna á staura og röðuðu þeim upp, 40 mílur meðfram ánni til New Orleans.“

Innanhústökur Lemonade segir Simmons margar hafa átt sér stað á Madewood plantekrunni. Hún rifjar upp sögu konu sem ólst upp sem þræll á Madewood og þurfti að bera húsbændum sínum svipurnar sem notaðar voru til að hýða þræla. Annar þræll úr húsinu lýsti því hvernig hvítu mennirnir héldu svartri þrælakonu niðri og börðu hana þar til hún gat ekki lengur öskrað og blóðið flæddi úr henni, fyrir þá sök að eiginmaður hennar flýði til að ganga til liðs við norðurríkjamenn í Þrælastríðinu.

„Þegar einhver sagði þér að fara að húsi um nótt að hitta þá og þú þurftir að fara hvort sem þú vildir það eða ekki, ekkert var skítugra en það.“ sagði fyrrum þrællinn Louisa Sidney Martin, sem byrjaði að vinna á ökrunum aðeins níu ára gömul. „Það var þannig sem þessir skítugu húsbændur gerðu, þegar þeir vildu negrakonu létu þeir hana taka við honum eða hýddu hana til dauða.“

beyonce beyonce lemonade i aint sorry lemonade

Simmons bendir á hvernig Beyoncé og félagar endurheimta þetta hvíta rými, húsið sem þrælastúlkan gekk um með svipur sem hýddu aðrar konur til dauða. Beyoncé situr í hásæti og Serena Williams „twerk-ar“ við hlið hennar og með frelsi líkama sinna eigna þær sér hús kvalaranna.

„Ungu konurnar sem koma saman á verönd Lemonade undir „Redemption“ eru þar sem þrælabústaðir stóðu. Þær eru fulltrúar fólksins lifði og andaði, vann og elskaði meðfram Mississippifljóti. Ljóðlistin í bakgrunninum talar til þess að verða heill á ný.“.

Vatn og endurfæðing

Það er ekki hægt að breyta sítrónum í límonaði án vatns og á Lemonade er vatnið næstum hvert sem litið er. Vatnið er tákn endurfæðingar og endurlausnar en þó það sé lífsnauðsynlegt og hreinsandi getur það einnig verið tortímandi.

Það var til að mynda raunin í New Orleans, þungamiðju Lemonade þar sem flóð fellibylsins Katrínar ollu gríðarlegri eyðileggingu. Þannig kastar Beyoncé sér fram af byggingu og sekkur í herbergi fullt af vatni undir ljóðinu „Denial“. Hún sér sjálfa sig sofandi í vatninu. Það sjálf engist um, fljótandi, þar til að lokum að hún ber upp spurninguna sem frelsar hana: „Ertu að halda framhjá mér?“

Í næsta skoti sést hurð, með stórum stólpum sitthvoru megin og upp að henni liggja mörg, breið þrep sem minna á stólpana og þrepin frægu við Metropolitan safnið. „Lyftuatvikið“ sem var nefnt hér fyrr átti sér einmitt stað í eftirpartýi eftir galaveislu í Metropolitan safninu. Þannig leyfir Bey afneitun sinni og eitrinu sem í henni býr að flæða yfir þrepin þar sem allt hófst, að því er almenningur „best veit“ það er.

Því næst er hún komin í fyrrnefnt göturölt með traustu kylfunni sinni „Hot Sauce“. Fyrr í greininni var minnst á brunahanann góða og tengsl hans við fortíð þeirra hjóna en eins og allt annað á umræddri plötu hefur hann stærri merkingu. Brunahanar eru nefnilega eitt þeirra tóla sem lögregla notar til að stjórna óeirðum og bæla niður mótmæli því þá er vatni sprautað af miklum krafti á skarann og honum haldið niðri. Þegar Bey slær á hanann með sterku sósunni hefur vatnið þó öfug áhrif því um leið og vatnið fossast út kemur hópur barna hlaupandi. Rétt eins og ungi svarti drengurinn dansar gegn ofbeldi fyrir framan sveit óeirðalögreglumanna í „Formation“ dansa börnin í vatninu sem Beyoncé veitir. Þar með er vatninu snúið frá ofbeldi til frelsis.

Mörg önnur tákn endurfæðingar er að finna í myndinni/á plötunni. Cynthia Okoroafor bendir á rútuferð Beyoncé og fylgismeyja hennar í „Sorry“ sem hún segir tákna hið andlega ferðalag til framhaldslífsins. Á þeim tímapunkti plötunnar virðist reyndar sem það ferðalag muni leiða til lífs án Jay Z.

Á seinni stigum breytist tónninn þó og myndefnið með. Buzzfeed bendir t.a.m. á kintsugi skálina í „Sandcastles“ en kintsugi er hin japanska list að setja saman brotna leirmuni og hugmyndin um að það ferli geti gert hlutinn enn sterkari og fegurri en hann var í upphafi. 

Skálin birtist í sama atriði og Jay kyssir fætur Bey, …
Skálin birtist í sama atriði og Jay kyssir fætur Bey, og sýnir þannig iðrun sína og virðingu. Skjáskot úr Lemonade

Vatnið er þó lykiltáknið. Í „Love Drought“ ríkir þurrkur en strax í næsta lagi, „Sandcastles“ hrífur vatnið sambandið með sér. Þar virðist vatnið kannski af hinu slæma en það sem það gerir í raun er að koma upp um brestina, og bjóða tækifæri til betrunar, því eins og jafnvel börnin vita eru hús á sandi byggð til að falla. 

Beyoncé leiðir kynsystur sínar í vatnið, til einskonar skírnar, og í „Freedom“ vísar hún í negrasálminn „Wade in the Water“.

„I'ma wade, I'ma wave through the waters
Tell the tide, "Don't move"“

Slíkir sálmar höfðu oft duldar meiningar, kóðanir, og því hefur verið haldið fram að „Wade in the Water“ hafi átt að minna þræla á flótta á að vaða í vatni til þess að hundar gætu ekki þefað þá uppi.  Þannig frelsaði vatnið forfeðurna úr þrælkun en Beyoncé ætlar ekki aðeins að vaða heldur verður hún aldan sjálf.

Það sem upphaflega hélt Beyoncé fanginni, það sem notað er gegn svörtum mótmælendum og það sem tortímdi New Orleans er orðið að frelsandi afli. Það sem hélt henni, persónugervingu svartra kvenna á Lemonande, niðri getur einnig orðið leiðin til lausnar. Losi svarti maðurinn sig úr fjötrum afneitunarinnar á hlutverki sínu í þjáningum svartra kvenna má taka höndum saman til betra lífs. Eins og segir í lokaljóðinu, „Redemption“:

„With every tear came redemption
And my torturer became my remedy“

Lemonade er tilfinningaflóð. Það læðist rólega að en svo ýmist fossa öldurnar af bræði, sorg og baráttu þar til þær lægir og kyrrt vatnið speglar innri ró.

Heyrið lúðraþyt

Í „All Night“ er fyrsta skrefið inn í betri framtíð stigið. Beyoncé segir ást sína og Jay Z sterkari en stolt hans (ótti við náin sambönd sem hann hefur sjálfur sagt til kominn vegna svika föðurs síns sem yfirgaf hann) og að hún sjálf sé ljósið sem leiðir hann úr myrkrinu. Þannig viðurkennir hún að feðraveldið haldi ekki aðeins konum niðri, heldur líka körlum og undirstrikar að svartir menn geti hafið sig upp með hjálp svartra systra sem ljá þeim vængi sína.

Hvað sem líður pólitískum skilaboðum er lagið einnig það persónulegasta á plötunni. Undir því birtast myndskeið af augnablikum fullum af hlýju og gleði, brúðkaup Beyoncé og Jay Z, Beyoncé ólétt af Blue Ivy, móðir Bey með nýja manninum sínum og faðir hennar að leika við Blue Ivy. Þannig sýnir söngkonan hvernig sár kynslóðanna gróa og undir því öllu hljóma lúðrar sem samplaðir eru úr Outkast laginu „Spottieottiedopaliscious“.

Þessa lúðra hefur Beyoncé nýtt áður, í fyrrnefndu „remixi“ af „Flawless“ þar sem „lyftuatvikið“ bar á góma, lag sem var hugsanlega uppfullt af þeirri afneitun sem Lemonade hefst á. Hvort sem slúðrið sem söngkonan notar sem drifkraft í sögunni af límonaðigerðinni á sér stoð í raunveruleikanum eða ekki þá nýtir Beyoncé lúðrana til að opna og loka þeim kafla lífs síns og aðkomu hans að tónlist hennar.

Þó sögunni af Jay og Bey sé þar með lokið er hinsvegar hvergi nærri komið að því að svartir Bandaríkjamenn geti fagnað raunverulegu frelsi; raunverulegum jöfnum rétti. Því lýkur plötunni ekki þar heldur með laginu „Formation“, ákalli um samstöðu í mannréttindabaráttunni og þá sérstaklega í baráttu svartra kvenna.

„Formation“ minnir hlustandann á öll þau ummerki skipulagðrar undirokunar sem Beyoncé dregur fram í Lemonade. Það minnir á að þegar hún syngur „Painting white flags blue“ er hún ekki bara að segja að hún muni ekki gefast upp á hjónabandi sínu fyrir sakir Blue Ivy heldur að svartar konur muni halda áfram að berjast fyrir réttindum barnanna sinna, barna sem eiga í mun meiri hættu að verða drepin af fólkinu sem á að vernda þau, að ástæðulausu.

 „Sybrina Fulton, móðir Trayvon Martin heldur á ljósmynd af honum, og virðist sterk og ákveðin. Lezley McSpadden getur ekki annað en leyft tárum að streyma um andlit sitt á meðan hún heldur á mynd af syni sínum Michael Brown, við finnum tár falla niður andlit okkar. Að lokum, Gewn Carr, móðir Eric Garner, haldandi á ljósmynd af syni sínum í því sem hún starir inn í sál okkar.“

Michael Brown var skotinn til bana af hvítum lögreglumanni. Brown …
Michael Brown var skotinn til bana af hvítum lögreglumanni. Brown var 18 ára og óvopnaður. Skjáskot Lemonade

Þetta skrifar Melissa Vega um augnablikið í „Forward“ þar sem svartar konur halda á myndum af látnum ástvinum sínum, m.a. mönnunum þremur sem í dauða sínum urðu persónugervingar Black Lives Matter hreyfingarinnar.

Svartar konur eru líklegri til að horfa upp á börnin sín myrt og mennina sína í fangelsi en þær eru einnig líklegri til að verða fyrir heimilis- og kynferðisofbeldi og til að láta lífið af völdum þessa ofbeldis en meðal manneskjan. Þær eru í ofanálag ólíklegri til þess að leita sér hjálpar vegna þessa og taka þannig á sig þjáningar og kúgun karlanna. 

Þess vegna syngur Beyoncé „I need freedom to“. Þess vegna segir hún konum að mynda fylkingu (Cause I slay) og standa saman. Þær sem gera það ekki, verða „e-lemonade-d“ því rétt eins og Hattie, amma Jay Z, gerði límonaði úr sítrónum lífsins skal byltingin snúa undirokun til upphafningar.

Eins og Clover Hope skrifar:
„Á hvern eigum við að trúa ef við getum ekki trúað á feður okkar, maka eða landið sem heldur því fram að við séum frjálsar? Svarið er systur okkar.“

Sjá einnig: Með Tabasco sósu í töskunni (swag)

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson