Webcam-hópurinn aftur á stjá

Í nýjustu mynd Tona þarf ung kona að takast á …
Í nýjustu mynd Tona þarf ung kona að takast á við það þegar barnsmóðir stundum-kærasta hennar flytur inn með þeim. Stilla úr Snjór og Salóme

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Sigurður Anton Friðþjófsson þarf alltaf að vera að. Hann sat því ekki lengi auðum höndum eftir að framleiðsluferli frumburðar síns, kvikmyndarinnar Webcam, lauk heldur settist á ný við skriftir. Nú, um ári síðar, er hann að ljúka vinnu við nýjasta verkefni sitt, kvikmyndina Snjór og Salóme sem gefin er út af Senu og frumsýnd verður í haust.

 Webcam hlaut frábærar undirtektir gagnrýnenda og áhorfenda þó hún væri um markt óvenjuleg fyrir íslenskan kvikmyndamarkað og hreinræktuð „indie“ mynd að því leyti að hún var framleidd fyrir lítið sem ekkert fjármagn.

„Það varð mun léttara að fá fjármagn útfrá Webcam,“ segir Sigurður Anton, sem jafnan er kallaður Toni. „En Snjór og Salóme er ekkert mikið dýrari.“

Toni segist hafa tekið sér hálft ár í handritsskrif, þrjá mánuði í forframleiðslu og tökurnar sjálfar hafi tekið þrjár vikur. Eftirvinnsla hafi svo staðið yfir frá því í mars. Hann hefur þó ekki staðið vaktina einn.

Sigurður Anton er almennt kallaður Toni.
Sigurður Anton er almennt kallaður Toni. Morgunblaðið/Ófeigur

Á enskri tungu er sagt að það þurfi þorp til að ala upp barn og ef kvikmyndir Tona eru börnin hans býr hann svo vel að hafa í kringum sig vænan hóp fólks til að koma þeim á legg. Raunar er það nær alfarið sami hópur og stóð að baki Webcam sem kemur að gerð nýju kvikmyndarinnar. Sá gengur undir nafninu Stofa 224 og er einskonar krúttútgáfa af Vesturporti; mun nær meginstraumnum í efnistökum og aðferðum en samt tilraunakennd á sinn eigin hátt.

„Þetta er í rauninni bara smá hópur af bestu vinum að gera myndir. Það er oft þannig þegar maður er að vinna svona verkefni að allir verða bestu vinir í þennan tíma og svo leysist hópurinn upp og maður fer að lifa eigin lífi en af því að við byrjuðum á þessari mynd strax eftir Webcam vorum við enn í því hugarástandi,“ segir Toni.

„Þess vegna eru mikið af sömu leikurunum í þessari mynd, af því að mig langaði að vinna aftur með þeim öllum. Flest hlutverkin eru líka skrifuð með þau í huga.“

Teymið að baki Snjór og Salóme við tökur.
Teymið að baki Snjór og Salóme við tökur. Ljósmynd/ Stofa 224


Óvenjulegur trekantur

Snjór og Salóme segir frá ungri konu, Salóme, sem býr með besta vini sínum Hrafni. Þau Hrafn og Salóme eiga í einskonar jójó-ástarsambandi en allt breytist þegar Hrafn barnar aðra stúlku sem flytur í framhaldinu inn með þeim.  

Líkt og í Webcam fara þær Anna Hafþórsdóttir og Telma Huld Jóhannesdóttir með aðalhlutverkin. Auk þeirra eru þeir Vigfús Þormar Gunnarsson, Guðmundur Snorri Sigurðarson, Ævar Már Ágústsson og Júlí Heiðar Halldórsson í aðalhlutverkum en af öðrum leikurum má nefna Guðjón Davíð Karlsson, Gunnar Helgason og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur.

„Þetta er samblanda af hlutum sem gerðust í lífi mínu svona ári áður en ég byrjaði að skrifa myndina.  Mig langaði til að gera meiri grínmynd en Webcam var en það gekk ekki,“ segir Toni og hlær. Hann hafnar því alfarið að myndin sé sjálfsævisöguleg en segist fela sínar upplifanir innan um skáldskapinn. Það veiti honum ákveðið frelsi til hreinskilni.

„Þegar maður klárar svona mynd verður maður svolítið tómur, ég er búin að segja allt sem mig langaði til að segja svo núna þarf ég einhvern veginn að fara að finna nýjar upplifanir og skoðanir.“

Toni segist blanda upplifunum úr lífi sínu við skáldskapinn.
Toni segist blanda upplifunum úr lífi sínu við skáldskapinn. Stilla úr Snjór og Salóme

Skrifar frá sjónarhóli kvenna

Fyrir útgáfu Webcam hafði engin íslensk kvikmynd í fullri lengd skartað tveimur konum í helstu aðalhlutverkunum frá því að Dís kom út árið 2004.

Það virðist fáránlegt að hrósa leikstjóra fyrir að setja fram sögur af konum, kannski sérstaklega þegar sagan sem sögð var snerist að stóru leyti um „hamingjusömu hóruna“ sem er afar umdeilt fyrirbrigði. Engu að síður er staðreyndin sú að þegar helmingur Íslendinga er vanur að sjá fólk eins og sig aðeins í aukahlutverkum í íslenskum kvikmyndum fylla bæði Webcam og Snjór og Salóme í ákveðið tómarúm.

„Ég hugsa ekki: „Nú ætla ég að búa til mynd með tveimur konum“. Það er erfitt að ákveða þannig fyrirfram,“  segir Toni.

„Þegar ég byrja að skrifa finnst mér náttúrulegast að það sé í gegnum kvenmann. Mér hefur alltaf fundist stelpur skemmtilegri og áhugaverðari viðfangsefni og svo langar mig líka að sjá fleiri myndir með stelpum, kannski eru þetta viðbrögð við því. Mér finnst kvikmyndir með konum í aðalhlutverki yfirleitt áhugaverðari en aðrar.“

Telma og anna í hlutverkum sínum.
Telma og anna í hlutverkum sínum. Stilla úr Snjór og Salóme

Hann hlær þegar undirrituð spyr hvort Anna Hafþórs sé skáldskapargyðjan hans, músa eins og þær sem Woody Allen kemur sér upp með reglulegu millibili. Auk þess að fara með aðalhlutverk í Webcam og Snjó og Salóme hefur Anna nefnilega leikið í mörgum minni verkefna Tona, ef ekki í þeim flestum. Toni er þó fljótur að draga Telmu einnig inn í dæmið.

„Ég myndi segja að ég sé stærsti aðdáandi þeirra Önnu og Telmu, fyrir utan kannski þær sjálfar. Þær eru fáránlega góðar leikkonur og svo er æðislegt að vinna með þeim. Sú blanda... þegar maður veit af henni þorir maður lítið að vinna með öðru fólki sem er kannski ekkert skemmtilegt. Ég vinn mikið með sama fólkinu aftur og aftur þar til það fær leið á mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson