Átrúnaðargoð eða ófreskjur?

Woody Allen hefur ekki hlotið dóm fyrir ofbeldið sem dóttir …
Woody Allen hefur ekki hlotið dóm fyrir ofbeldið sem dóttir hans sakar hann um og svo virðist sem ferill hans hafi aldrei þurft að líða fyrir það. AFP

Árið 1967 lýsti Roland Barthes því yfir að höfundurinn væri dauður. Sú yfirlýsing var svar Barthes við hefðbundnum stefnum í bókmenntarýni þar sem texti er metinn og túlkaður út frá ævi, hugmyndafræði og ætlunum höfundar hans. Með því að drepa höfundinn aðskildi Barthes höfundinn því frá textanum, listamanninn frá listinni og gaf verkum eins konar tómarúm til að þenjast út í, óheft og frelsað af takmörkunum einnar manneskju.

Hugmyndin um að skilja listina frá listamanninum algjörlega er róttæk og getur verið erfið í meðförum, sérstaklega þegar kemur að samtímafólki okkar og þá aftur sérstaklega ef það hefur framið eða verið sakað um kynferðisofbeldi.

Sjáum við Manhattan eftir Woody Allen með hinni 16 ára gömlu Mariel Hemingway í öðru ljósi vegna ásakana dóttur hans um kynferðisofbeldi? Getum við dillað okkur við kynþokkafulla tóna „Ignition“ án þess að hugsa til þess að R. Kelly – sem sér ekkert að smá „bump n grind“ – hafi stundað kynmök með og svo migið á 14 ára stúlku? Er hægt að njóta þess að horfa á Fyrirmyndarföður leikinn af Bill Cosby?

Getum við einu sinni hlegið að hinum sídrukkna en sjarmerandi sjóara kaptein Jack Sparrow án þess að íhuga hvort Johnny Depp hafi verið ölvaður kvöldið sem meint heimilisofbeldi hans gagnvart Amber Heard átti sér stað.

Ég skrifa meint, en ég veit ekki hvort ég meina það. Orðið er mikilvægt enda er það svo í okkar réttarkerfi að meintur gerandi fær að njóta vafans, er saklaus uns sekt er sönnuð. Í samfélagslegri umræðu eru reglurnar óskýrari.

Hér verður þó ekki kafað nema lítillega í umræðuna um sekt og sakleysi heldur fremur í upplifanir okkar á „góðri“ list eftir „vonda“ listamenn.  Hvernig skiljum við þar á milli? Er yfirhöfuð hægt að drepa höfundinn og ef svo, ættum við að gera það?

„En hvað gerði hún?“

Fyrsta stig sorgarferlisins af fimm samkvæmt Kübler-Ross líkaninu er afneitun og þegar kemur að kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi festast margir á einmitt þeim stað. Kannski á þetta sérstaklega við um vini og kunningja gerandans, enda er erfitt að trúa því að fólk sem hefur mikla persónulega þýðingu fyrir mann geti brotið svo illa á annarri manneskju.

Þegar kemur að kynferðisbrotum frægra má oft sjá svipaða tilhneigingu hjá vinum og fjölskyldu viðkomandi en einnig aðdáendum þeirra. Svo fyrrnefndur Depp sé tekinn sem dæmi þá hafa vinir hans, fyrrum eiginkonur og jafnvel dóttir hans stigið fram og dregið frásögn Heard í efa. Eins og Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, orðaði það í pistli sínum 6. júní sl. þá getur fólk hins vegar verið „fínt og almennilegt“ í vinnunni, partíum og á kaffihúsum en samt átt sér allt aðra hlið.

Í grein sinni bendir Júlía á annan hóp fólks, þann sem ítrekar í sífellu að það séu „tvær hliðar á öllum málum“. Ef við höldum okkur við Kübler-Ross mætti líklega staðsetja þann hóp á þriðja stigið; stig sáttaumleitanna.

Johnny Depp og Amber Heard.
Johnny Depp og Amber Heard. AFP

„Afhverju er enn þá svona fáránlega stór hópur fólks sem vill vita einhverjar ástæður þess að fólk beiti ofbeldi? Eins og það geti verið einhverjar aðrar ástæður fyrir ofbeldi en að viðkomandi þekkir ekki mörkin í samskiptum við aðra lifandi veru?“ skrifar Júlía.

 „„Allt í lagi, lamin og blá en hvað gerði hún?“ er spurningin sem vefmiðlar um allan heim eru að fyllast af. „Hvernig voru málavextir?“ „Hvað sagði hún sem varð til þess að hann lamdi?“ Enda er mikilvægt í ofbeldismálum að fá að melta aðeins hvað gerðist og leggja svo dóm á hvort það hafi mátt lemja eða ekki. Bara eins og í öllum siðuðum samfélögum.“

Þessi sáttaumleitun, sem snýr að því að skella skömminni á fórnarlambið, kemur upp í samfélaginu í kringum nær öll nauðgunar- og ofbeldismál en fíleflist þegar um ræðir frægt fólk, listamenn og íþróttamenn. Það er okkur mikilvægt að átrúnaðargoðin okkar séu ekki ófreskjur.

Skrímslavæðing kynferðisbrota- og ofbeldismanna er annað umræðuefni sem ekki verður kafað í hér en hún er engum til heilla. Hún er  hins vegar einmitt ein af ástæðunum fyrir því að við reynum allt hvað við getum til að aðskilja listina og listamanninn.

Getur list verið ópersónuleg?

Oft er reynt að halda því fram að list sem afurð hafi ekkert meira að gera með listamanninn en hvert annað verk eða framleiðsla. Sam Schulman hjá In Character varpar því fram að mannlegir brestir tannlæknisins eða flugvélavirkjans komi ekki í veg fyrir gott verk. Þetta er vissulega rétt upp að einhverju marki en brestirnir sem Schulman tiltekur í dæmi sínu eru framhjáhald og það að gera upp á milli barna sinna. 

Fæst okkar þurfa að takast á við samviskuna yfir því að kunna að meta tónlistarmenn sem hafa haldið fram hjá mökum sínum, annars væri útvarpið sífullt af samviskubiti. Margir myndu þó líklega skipta um tannlækni ef þeir kæmust að því að viðkomandi væri kynferðisbrotamaður. Flugvirkinn er ekki eins nálægur persónu manns og líkama, bara eitt tannhjól í stærra ferli, en list er í eðli sínu persónuleg og oft uppfull af nánd.

R. Kelly á sviði í Manchester árið 2003.
R. Kelly á sviði í Manchester árið 2003. AFP

 Margir listamenn leggja mikið af eigin persónu, skoðunum, tilfinningum og upplifunum í verk sín – veri það málverk, ljósmyndir, leikverk eða tónlist. Jafnvel þó þeir ætli sér ekki að vera persónulegir höfum við tilhneigingu til að upplifa list sem persónulegt streymi, frá listamanninum til okkar. Vel heppnuð list hreyfir við okkur, á persónulegum grundvelli, oft á jákvæðan eða neikvæðan hátt.

Formleg listrýni getur kannski verið ópersónuleg og þannig kannski úrskurðað um andlát höfundarins en sú hugmynd er umdeild út af fyrir sig. Þegar kemur að persónulegum  listnautnum flækist hins vegar málið.

Að spegla sig í góðri trú

Greinahöfundur Pacific Standard segir sálkönnuðinn Otto Rank, sem var uppi snemma á 20. öld og skrifaði bókina Art and Artist, eiga eina af þremur helstu kenningum sálfræðinnar um aðskilnað listar og listamanns. Segir hann Rank halda því fram að listamaðurinn setji kjarna sálar sinnar í verk sín og að sá sem njóti verkana sjái eigin sál í kjarnanum„alveg eins og hinn trúaði finnur sál sína í trúnni eða í guði, og upplifir að með honum myndi hann heild.“

Þannig segir hann að sálfræðin á bakvið listmat sé svipuð þeirri sem liggur að baki trúarbrögðum. Greinarhöfundur útskýrir málið þannig að í biblíunni séu sagðar sögur af mildi og kraftaverkum en einnig af grimmd. Þegar kristin manneskja útskýri ástæður sínar fyrir trúnni sé það þó ekki grimmdin sem viðkomandi vitnar til.

„Alveg eins og kristni maðurinn er líklegri til að draga fram og hlúa að hugsjónum kristninnar finnur listunnandinn sig knúinn til að skynja eimaða mynd af listamanninum: Tom Hanks-útgáfuna af Walt Disney með blikið í augunum en ekki nasíska, kommúnistaveiðandi, heimsvaldasinnaða feðraveldisunnandann.“

Þessi kenning snýst þannig um speglun, hvernig við veljum hið góða af því að það sem við tengjum við okkur sjálf. Við afskrifum kannski ekki það slæma, en gefum því minna vægi.

Allt eða ekkert

Önnur kenningin sem greinarhöfundur Pacific Standard tekur fyrir er kölluð „uppskipting“ eða „allt eða ekkert hugsun" og stafar frá því þegar „einstaklingi tekst ekki að sameina bæði jákvæða og neikvæða skynjun sjálfsins eða annarra í raunhæfari samsetningu.“

Greinarhöfundur segir þetta algenga sálfræðilega varnaraðferð sem sé oft notuð af börnum sem hafa ekki nægan tilfinningaþroska til að upplifa foreldra sína sem gallaða einstaklinga. Því velji þau einfaldlega að hunsa það slæma eða taka því opnum örmum.

„Uppskiptin skiptir heiminum í góða-slæma, svarta-og-hvíta tvíhyggju: þá hluti sem skulu upphafnir og þá sem skulu gengisfelldir. Þar sem við eigum yfirleitt ekki persónuleg sambönd við listamanninn, nægir listin sem fulltrúi hans. Svo ef við hötum listina gengisfellum við listamanninn. Ef við elskum listina hefjum við hann til skýjanna.“

Yfir 50 konur hafa sakað Fyrirmyndarföðurinn Bill Cosby um kynferðisofbeldi.
Yfir 50 konur hafa sakað Fyrirmyndarföðurinn Bill Cosby um kynferðisofbeldi. AFP

Einfaldasta útskýringin á því hvernig við aðskiljum list og listamann segir greinarhöfundur þó mögulega felast í einfaldri bælingu, sem sé lykilhugmynd innan beggja fyrrnefndra kenninga.

„Við meðvitað og ómeðvitað veljum að gleyma hinu slæma [...] Það er sama þankaferlið og rekur þúsundir ungs fólks, eins og mig, til að flytja til New York. Það (ókei, við) gleymir ruddalega dýru íbúðunum í skókassastærð, milljónunum (milljörðunum?) af kakkalökkum, óljósu hlandlyktinni á heitum sumarmánuðunum. Við hugsum um krúttlegu kaffihúsin, jazzkvartettana í Washington Square Park, tveggja herbergja íbúðir í Friends-stíl sem við höfum aldrei efni á. Alveg eins og Isaac segir í inngangi Manhattan „blásum við rómantíkina upp úr öllu samhengi.“

Út frá þessu mætti ráða að okkur séu þrjár leiðir færar sé ætlunin að aðskilja listina og listamanninn: Hunsa hið slæma, hunsa hið góða eða gefa öðrum hvorum pólnum meira vægi en hinum. Við viljum kannski flest finna leið til að sætta báðar hliðar, ná jafnvægi, en undanfarið hefur sífellt meira borið á þeirri skoðun að þetta jafnvægi sé ekki til, að jafnvel með afstöðuleysinu séum við að taka afstöðu og það nánast undantekningarlaust gegn fórnarlambinu.

„Hver er uppáhalds Woody Allen myndin þín?“

Woody Allen er eitt vinsælasta dæmið um þörfina á að skilja listina frá listamanninum. Hann hefur ekki hlotið dóm fyrir meint brot sín en dóttir hans, Dylan Farrow, og fjölskylda hennar stígur ítrekað fram og bendir á hvernig Hollywood fellir dóm sinn með meintu afstöðuleysi.

Allen hefur ávalt neitað því að hafa beitt Dylan kynferðislegu ofbeldi og segir móður hennar, Miu Farrow, hafa komið hugmyndinni fyrir í kolli hennar í hefndarskyni vegna sambandsslita þeirra. Árið 2014 birti Dylan hins vegar opið bréf sem erfitt er að hunsa.

„Hver er uppáhalds Woody Allen myndin þín?“ spyr Dylan í bréfinu. „Áður en þú svarar ættirðu að vita eitt: þegar ég var sjö ára tók Woody Allen í höndina á mér og leiddi mig inn í dimmt, skápalegt háaloft á annarri hæð hússins okkar. Hann sagði mér að leggjast á magann og leika mér með rafmagnslest bróður míns. Svo beitti hann mig kynferðisofbeldi.“

Dylan sagði föður sinn hafa gert hluti sem hún kunni illa við alla hennar barnsævi. Hún hafi kunnað því illa þegar hann vildi vera einn með henni, þegar hann stakk þumlinum í munn hennar, þegar hann lét hana skríða undir sæng með honum þegar hann var á nærfötunum. Eins leið henni illa þegar hann lagði höfuð sitt í nakta kjöltu hennar og andaði inn og út. Hún segist hafa falið sig til að forðast slíkt en hann hafi alltaf fundið hana. Raunar hafi áreitið verið svo títt og svo vel falið frá móður hennar að hún taldi það eðlilegt, allt þar til þennan dag á háaloftinu. Sá var öðruvísi, og hún gat ekki þagað lengur.

Mia Farrow, fyrrverandi eiginkona Woody Allen, ásamt honum og börnum …
Mia Farrow, fyrrverandi eiginkona Woody Allen, ásamt honum og börnum þeirra, Ronan (t.h.) og Dylan (t.v.) árið 1988. Ljósmynd/The Hollywood Reporter

Í vikunni áður en bréf Dylan birtist hafði Allen verið tilnefndur til Óskarsverðlauna, og það ekki í fyrsta skipti, en í þetta skipti hugðist Dylan ekki molna heldur standa sterk.

„Svo lengi hefur samþykkið gagnvart Woody Allen þaggað niður í mér. Ég upplifði það sem persónulega ávítun, eins og verðlaunin og lofið væri leið til að segja mér að þegja og fara í burtu. En þolendur kynferðisofbeldis sem hafa haft samband við mig – til að styðja mér og deila ótta sínum við að stíga fram, við að vera kallaðir lygarar, við að vera sagt að minningar þeirra séu ekki minningar þeirra – hafa gefið mér ástæðu til að vera ekki þögul, ef aðeins til þess að aðrir viti að þeir þurfa ekki að þegja lengur.“

Dylan segir skilaboðin sem Hollywood sendir skipta máli, að Woody Allen sé holdgervingur þess hvernig samfélagið bregst þolendum kynferðisofbeldis.

„Svo ímyndaðu þér nú að sjö ára dóttir þín sé leidd inn á háaloft af Woody Allen. Ímyndaðu þér að hún eyði ævinni slegin ógleði í hvert sinn sem hann er nefndur á nafn. Ímyndaðu þér heim sem fagnar kvalara hennar.

Ertu að ímynda þér það? Hver er núna uppáhalds Woody Allen myndin þín?“

Umfjöllunin er lífstíðardómur

Dylan tekur skíra afstöðu gegn því að samstarfsfólk og aðdáendur skilji listina frá listamanninum, föður hennar og kvalara. Sömu hugmynd er þó ekki að finna hjá Samantha Geimer sem var 13 ára árið 1977 þegar leikstjórinn Roman Polanski gaf henni kampavín og róandi lyf og nauðgaði henni síðan.

Polanski, eins og svo margir nauðgarar, vill meina að Geimer hafi ekki verið mótfallinn kynferðisathöfnunum. Geimer kveðst hins vegar hafa þrábeðið hann um að hætta.  Aldurs hennar vegna er þó óumdeilanlegt að hún var ekki í aðstöðu til að veita samþykki. Upprunalega stóð þó til að samið yrði um málið fyrir dómi. Geimer segir dómarann hins vegar hafa gengið á bak orða sinna, með það fyrir augum að öðlast frægð og frama, í hennar óþökk. Það hafi orðið til þess að Polanski flýði Bandaríkin og sé enn í útlegð, 38 árum síðar.

„Hér er hvað mér finnst um þetta: Ég ber engar slæmar tilfinningar í hans garð en ekki nokkra samúð heldur. Hann er ókunnugur maður fyrir mér,“ skrifaði Geimer í tilefni af því að Polanski var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir The Pianist.

„En ég trúi að herra Polanski og kvikmyndin hans ættu að vera heiðruð miðað við gæði vinnu hans. Það sem hann hefur að atvinnu og hversu góður hann er í því hefur ekkert með mig að gera eða það sem hann gerði mér.“

Geimer segir að það myndi gleðja sig ef Polanski tækist að ráða fram úr sínum málum. Hún vonast til að það myndi þýða að hún þyrfti aldrei að tala um ofbeldið aftur.

„Stundum finnst mér eins og við höfum bæði fengið lífstíðardóm.“

Polanski er enn á flótta vegna nauðgunarinnar árið 1977.
Polanski er enn á flótta vegna nauðgunarinnar árið 1977. AFP

Er listin þess virði?

Aðsæður þeirra Dylan Farrow og Samantha Geimer eru um margt líkar þó afstaða þeirra til spurningarinnar um aðskilnað listar og listamanns sé ólík. Stærsti munurinn, fyrir utan mun á tengslum fórnarlambanna við gerendurna, liggur kannski í því glæpir Polanski gegn Geimer hafa hlotið viðurkenningu, ekki bara hans sjálfs, heldur dómskerfisins og almennings. Þar að auki hefur Geimer hlotið viðurkenningu í formi fjárbóta.

Geimer virðist hafa gert upp það sem gerðist en það er erfiðara fyrir Farrow en hún hefur ekki bara mátt þola það frá barnæsku að trúverðugleiki hennar sé sífellt dreginn í efa heldur einnig að að fólki sé hreinlega sama. Lítum til skrifa annars barns um slæman föður:

„Þegar allt er saman tekið pabbi verður það: hann skrifaði fáeinar góðar sögur, hafði nýja og ferska nálgun á raunveruleikann og hann lagði fimm einstaklinga í rúst – Hadley, Pauline, Marty, Patrick og hugsanlega mig sjálfan. Hvað finnst þér mikilvægast sjálfselski skítur, sögurnar eða fólkið?“

Þetta skrifaði Gregory, yngsta barn Ernest Hemingway til föður síns í nóvember 1952 en Hemingway beitti sína nánustu miklu andlegu ofbeldi. Charles McGrath segir Gregory þarna varpa fram spurningunni ósvaranlegu: „Hversu margar sögur, hversu góðar sem þær kunna að vera, eru virði óhamingju og þjáninga annarra?“

Er okkur sama svo lengi sem verkin séu nógu mörg, nógu góð? Sú virtist raunin í tilviki Polanski sem bjó til fjölmargar kvikmyndir og vann Óskarsverðlaun þrátt fyrir að vera í útlegð eftir að hafa nauðgað barni. Árið 2009 leit út fyrir að laganna armur hefði loks náð að grípa hann, þegar hann var handtekinn í Sviss. Yfir 100 þekktir listamenn og aðrar stjörnur skráðu sig á undirskriftalista þar sem farið var fram á að honum yrði sleppt, ekki sökum sakleysis heldur vegna mikilvægi hans fyrir listheiminn og virðingu kvikmyndahátíðarinnar þar sem hann var handtekinn.

„Staða hans sem listamaður, þá, var mikilvægari  fyrir jafningjum hans en það að hann hafði játað að hafa nauðgað 13 ára stúlku,“ skrifar Joshua Bronk hjá Brown Political Review og þar liggur kannski einmitt hundurinn grafinn.

Hefðu ásakendur Cosby stigið fyrr fram ef ekki hefði ríkt …
Hefðu ásakendur Cosby stigið fyrr fram ef ekki hefði ríkt þöggun í Hollywood?

Með aðgerðum okkar tökum við afstöðu, vegum hluti á móti hvorum öðrum. Með því að taka ekki afstöðu til spurningarinnar „hversu góð list réttlætir hetjudýrkun á kynferðisbrotamanni“ hunsum við þjáningar þolenda.

Það er auðveldast að bæla eða afneita, og samfélagið mun alltaf gera það að einhverju marki. Fórnarlömb tónlistarmanna munu alltaf þurfa að vera viðbúin því að heyra lög þeirra spiluð í útvarpinu. Dylan Farrow mun áfram þurfa að þola upphafningu kvalara síns.

Sem einstaklingar getum við hinsvegar ákveðið að sniðganga list listamanna sem kvelja aðra, haldið umræðu gegn ofbeldi á lofti og þannig reynt að veita þolendum þeirra, sem og annarra ófrægra einstaklinga, þá viðurkenningu sem réttarkerfið og samfélagið, gefur svo sjaldan. 

„Listaverkið er ekki misþyrmingin. En, það er skapað af einstaklingi sem olli annarri manneskju gríðarlegum skaða,“ skrifar Tanya Steele hjá IndiWire.

„Svo ég loka skynjun minni og veski gagnvart listamanninum í mótmælaskyni. Og ég opna hjarta mitt gagnvart fórnarlambinu. Það er það minnsta sem ég get gert.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant