Fólkið sem fór á ferlegu ári

David Bowie 1947-2016.
David Bowie 1947-2016. AFP

Aðeins fáeinir dagar voru liðnir af janúarmánuði þegar fyrsta stóra listamannsandlát ársins 2016 skók heiminn. Dauði David Bowie kom eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir alla nema hans allra innsta hring og hugsanlega þá sem höfðu lagt nógu vel við hlustir.

Tveimur dögum fyrir andlát sitt gaf Bowie út sína síðustu plötu, Blackstar. Hann hafði þá barist við krabbamein í 18 mánuði og er platan uppfull af vísunum í yfirvofandi andlát hans; óður til dauðans.

Vinur og samstarfsmaður Bowie, leikstjórinn Julian Temple, sagði ævisagnaritara svartstirnisins, Paul Trynka, að „jafnvel á níunda áratugnum hefði Bowie langað til að láta sig hverfa með mikilfenglegum hætti – framkvæma galdrabragð. Það gerði hann líka. Í síðasta myndbandinu sem gefið var út fyrir dauða hans, „Lazarus“, syngur Bowie um að vera frjáls á himnum, stígur svo inn í klæðaskáp og hverfur – eins og fyrir töfra.

Bowie dó 10. janúar, 69 ára gamall. Aðeins fjórum dögum síðar bárust fregnir af því að jafnaldri hans, Alan Rickman, væri einnig fallinn frá. Rickman var virtur sem stórbrotinn sviðsleikari en var frægastur fyrir að leika Hogwarts-kennarann Severus Snape í kvikmyndunum um Harry Potter. Það var á þeim tímapunkti sem notendur Twitter tóku fyrir alvöru að úthrópa árið 2016 sem úrhrak meðal ára og þær raddir áttu aðeins eftir að verða háværari eftir því sem á leið.

Prince 1958-2016.
Prince 1958-2016. AFP

Af hverju eru allir að deyja?

Janúar tók einnig Glenn Frey úr The Eagles og febrúar tók Maurice White úr Earth Wind & Fire. Harper Lee, höfundur To Kill a Mockingbird, lést í febrúar og í mars kvaddi meðlimur A Tribe Called Quest, rapparinn Phife Dawg, langt fyrir aldur fram.

Þann 21. apríl reið annað áfall á heimsmælikvarða yfir þegar greint var frá því að tónlistarmaðurinn Prince hefði látist á heimili sínu. Hann var 57 ára gamall. Þá tók steininn úr og bæði samfélagsmiðlar og leitarvélar flæddu yfir af sömu spurningunni: Af hverju eru svona margir frægir að deyja?

Carrie Fisher 1956 - 2016 og Debbie Reynolds 1932 - …
Carrie Fisher 1956 - 2016 og Debbie Reynolds 1932 - 2016. AFP

Þessu svaraði ritstjóri minningargreina á BBC, Nick Serpell, í viðtali við sama miðil í apríl. Hann staðfesti að gríðarleg aukning hefði verið á birtingu greina frá honum, 24 það sem af var ári samanborið við fimm yfir sambærilegt tímabil árið 2012. Á sama tíma í ár hafði Daily Telegraph birt 75 myndir í safni sínu yfir þá sem látist höfðu á árinu en í apríl 2014 voru þær aðeins 30.

Serpell benti þó á þann einfalda sannleik að sökum fólksfjölgunar og tilkomu sjónvarpsins er einfaldlega til fleira frægt fólk og því, óumflýjanlega, deyr fleira frægt fólk. Þá geri samfélagsmiðlar það að verkum að andlátsfregnir berast hraðar og víðar.

Dauðsföllin héldu enda áfram eftir að rætt var við Serpell. Þann þriðja júní lést boxarinn Muhammad Ali og í lok ágúst fór leikarinn Gene Wilder, nú best þekktur í „meme“-formi, einnig yfir móðuna miklu. Söngvaskáldið Leonard Cohen lést 10. nóvember, tæpum mánuði eftir að hafa sagst tilbúinn að deyja í viðtali við New Yorker. Nú í desember féll ungverska fegurðardísin Zsa Zsa Gabor frá og á jóladag grét heimsbyggðin fjórða stóra tónlistarmann ársins, poppstjörnuna George Michael.

George Michael 1963 - 2016.
George Michael 1963 - 2016. AFP

Sorgarflóð og sinnuleysi

Hér að ofan hefur auðvitað aðeins verið stiklað á mjög stóru hvað varðar dauðsföll ársins 2016 og til að mynda vantar á listann áhrifafólk í íslenskri menningu svo sem Eddu Heiðrúnu Backman og Gunnar Eyjólfsson. Einmitt þegar þetta var skrifað tísti síminn og tilkynning barst um andlát Stjörnustríðsprinsessunnar Carrie Fisher. Degi síðar var greinin opnuð á ný til að bæta við móður hennar, Debbie Reynolds. Hver veit nema eitt nafnið enn bætist í hóp þeirra sem 2016 tók áður en árið er úti. Sjö-níu-þrettán.

Það er svo sannarlega satt sem einhver tístverjinn sagði: „Ef andlát frægs fólks var það erfiðasta fyrir þig á árinuertu ansi heppinn.“ Sumum þykir samfélagsmiðlasorgin yfirborðskennd og ætluð til þess að senda skilaboð til umheimsins um syrgjandann fremur en hinn syrgða. Enn ein birtingarmynd sjálfhverfu mannsins. Sorgarflóð sökum frægra undirstrikar eftir allt sinnuleysi okkar vegna andláta og linnulausra þjáninga þeirra sem við þekkjum ekki, í Sýrlandi, Jemen og víðar.

Þó það sé í sjálfu sér satt og rétt er líka gott að hafa í huga stærri merkingu þeirra sem létust, hvernig Bowie, Prince og George Michael gerðu heiminn að umburðarlyndari stað fyrir fólk utan rammans með því einu að vera þeir sjálfir. Leia prinsessa í meðförum Fisher var langþráð fyrirmynd í heimi fullum af karlhetjum og sjálf varð Fisher ljós í myrkrinu fyrir fjölmarga sem þjáðust í þögn með opinskáum yfirlýsingum sínum um eigin geðsjúkdóm. Þetta fólk verðskuldar að við stöldrum við, en það gera fleiri.

Flestum þykir ljóst að 2016 sé ekki einstakt ár hvað dauðsföll fræga fólksins varðar heldur nýja normið. Það er þó þorandi að vona að við venjumst þeim ekki, eins og við höfum vanist öðrum hörmungum, heldur finnum í okkur nýja mannúð á komandi ári sem nær einnig til þeirra sem okkur virðast framandi.

Zsa Zsa Gabor 1917 - 2016.
Zsa Zsa Gabor 1917 - 2016. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson