Að leita listrænna svara

Meðlimir RaTaTam-hópsins, Guðmundur Ingi, Helgi Svavar, Charlotte, Guðrún, Arnar, Laufey …
Meðlimir RaTaTam-hópsins, Guðmundur Ingi, Helgi Svavar, Charlotte, Guðrún, Arnar, Laufey og Halldóra. mbl.is/Ásdís

Sjálfstæði leikhópurinn RaTaTam vakti verðskuldaða athygli fyrir verkið Suss! sem fjallar um heimilisofbeldi. Hópurinn vill nýta leikhúsið til að opna umræðuna um mál sem ekki má þagga niður. Nýlega fengu þau styrk frá Reykjavíkurborg og voru útnefnd Listhópur Reykjavíkur 2017. Þau halda áfram að rannsaka mannlegt eðli en í næsta leikverki, Ahhh, verður ástin skoðuð frá ýmsum hliðum. 

Við Reykjavíkurtjörn var fallegt um að litast þennan stilla vetrardag og það stirndi á frosna tjörnina. Inni í gömlum og snjáðum sófum í Tjarnabíói, heimili frjálsu leikhópanna, eru samankomnir meðlimir leikhópsins RaTaTam; leikarar, leikstjóri, ljósahönnuður og höfundur tónlistar.

Leikhópurinn RaTaTam samanstendur af leikurunum Guðrúnu Bjarnadóttur, Guðmundi Inga Þorleifssyni, Halldóru Rut Baldursdóttur, Hildi Magnúsdóttur og Laufeyju Elíasardóttur og er Charlotte Bøving leikstjóri. Hildur var vant við látin en með okkur eru þeir Arnar Ingvarson ljósamaður og Helgi Svavar Helgason tónlistarmaður.

Fyrsta leikverk hópsins var leikritið Suss! sem hefur vakið athygli og ekki síður sterk viðbrögð hjá fólki sem sýninguna hafa séð. Enn er hægt að sjá Suss! en bætt var við tveimur sýningum, 2. og 10. febrúar, og eru enn til miðar á midi.is.

Guðmundur Ingi og Laufey sjást hér í leikritinu Suss! sem …
Guðmundur Ingi og Laufey sjást hér í leikritinu Suss! sem sýnt er í Tjarnarbíói. Ljósmynd/Steve Lorenz

Heimilisofbeldi upp á yfirborðið

Við hreiðrum um okkur og hefjum spjallið; um leiklistina, lífið, ástina og ofbeldi. Allir meðlimir leikhópsins starfa annars staðar líka en hafa brennandi áhuga á leiklist sem samfélagsrýni. Leikhópurinn var stofnaður í kringum umræðu um heimilisofbeldi en nú þegar Suss! fer að hverfa af sviðinu hafa þau ákveðið að halda áfram og setja á svið fleiri leikrit.

Hvaðan kom þessi hugmynd að gera leikrit um heimilisofbeldi?

Halldóra: „Þetta var hugmynd sem ég var með í maganum og kom í ljós að það átti við um hina á einhverjum tímapunkti. En það var bara eitt kvöldið að við vorum nokkrar stelpur saman heima hjá mér að drekka rauðvín og hafa það kósí að við áttuðum okkur á því að svo margir hefðu orðið fyrir heimilisofbeldi og hefðu kannski aldrei opnað sig með þetta. Og hvað samskipti í samböndum geta verið ofbeldisfull án endilega orða eða gjörnings. Það nær til mjög margra. Þá sagði ég við Guðrúnu, við skulum gera sýningu. Svo heyrðum við í hinum og okkur langaði til að rjúfa þögnina. Og heyra sannar sögur fólks.“

Laufey: „Það var farið í það að safna sögum frá fullt af fólki og síðan voru hinir teknir inn,“ upplýsir hún. Þau skellihlæja öll.

Guðrún: „Svo komumst við að því að Charlotte var sérlegur áhugamaður um heimilisofbeldi.“

Aftur springa þau úr hlátri.

Halldóra: „Við tókum Charlotte í atvinnuviðtal.“

Charlotte: „Ég féll ekki, ég fékk þá vinnuna. Þetta er mjög illa borgað og rosalega mikil vinna, en ég var mjög hamingjusöm. RaTaTam-hópurinn var stofnaður í kringum þessa sýningu. En RaTaTam er bara að byrja.“

Hafið þið öll persónulega reynslu eða þekkið fólk sem hefur lent í heimilisofbeldi?

Guðmundur: „Já, ég held að þetta sé svolítið eins og með alkóhólisma eða samkynhneigð eða hvað það er, það þekkja allir til svona hluta með einum eða öðrum hætti.“

Charlotte: „Alkóhólisma og samkynhneigð! Að blanda þessu tvennu saman. Æ,æ.“

Þau skella upp úr á ný.

Guðmundur: „Við búum í svo litlu samfélagi að það er ekkert hægt að fela hluti eins og alkóhólisma og samkynhneigð,“ segir hann og reynir að útskýra að heimilisofbeldi sé algengara en fólk haldi.

Er heimilisofbeldi kannski meira falið?

„Já,“ svara þau öll sem eitt.

Helgi: „Ég held að við vitum öll af því. Alveg eins og þegar samkynhneigð var tabú og alkóhólisminn var tabú. Þetta er kannski á sama stað og hinir hlutirnir voru fyrir 10-15 árum.“

Halldóra: „Svo er eitt mjög áhugavert, ég varð vitni að heimilisofbeldi eftir að ég byrjaði í þessu verkefni. Það var um miðja nótt í íbúð fyrir ofan mig og ég heyri konu öskra eftir hjálp. Ég heyri dynki líka. Og þrátt fyrir það að ég er manneskja sem vill rjúfa þögnina og breyta heiminum með þessu litla skrefi, þá hugsaði ég strax: mér kemur þetta ekki við. Sem sagði mér bara að þetta er eitthvað rótgróið í samfélaginu sem er erfitt að breyta. Og ég fór strax að skoða hvað ég væri að hugsa og af hverju ég væri að hugsa þetta.“

Helgi: „Ég held að þetta sé ótti,“ segir hann og á við að þegar maður blandar sér í málið getur það dregið dilk á eftir sér. „Ég man þegar ég var 21 árs þá var ég í Austurstræti og það var gengið í skrokk á stelpu. Og ég held að hún hafi aldrei náð sér. Og það var ein stelpa í hópnum sem sá þetta og var kölluð fyrir rétt og hún þurfti að mæta í mörg ár. Þetta var meiriháttar mál, þannig að ég held að það sé líka smá hræðsla við að blanda sér í mál.“

Tóku upp 200 klukkutíma af efni

RaTaTam-hópurinn lagði mikla vinnu í undirbúning áður en handritið að Suss! var skrifað og tóku þau m.a. viðtöl við fjöldann allan af fólki og var allt tekið upp á myndband. Sögurnar voru svo notaðar í handritið.

Þegar þið voruð að undirbúa Suss!, var ekki niðurdrepandi að tala við allt þetta fólk sem sagði sögur af heimilisofbeldi?

Charlotte: „Í tvær vikur sátum við og lásum yfir og ég fann hvernig öllum var þungt um hjartað. Og þá sagði ég: við verðum að setja einhverja tónlist á og sagði, nú vil ég að við byrjum að dansa út allt sem við erum búin að lesa. Losa út allt. Og ég tók það upp á vídeó og út úr því kom eiginlega dans sem rataði inn í sýninguna. Allur þessi lestur olli tilfinningalegri losun í gegnum líkamann.“

Halldóra: „Þetta segir manni líka, og við fórum að lesa okkur mikið til, að þegar maður upplifir ofbeldi í æsku og lokar svo á það þegar maður er fullorðinn er maður fullur af neikvæðri orku sem þarf að losa.“

Charlotte: „Þetta gæti orðið skapandi orka. Ef þú nærð að setja hana í eitthvað annað en að berja næstu konu eða mann.“

Helgi: „Þau áttu ekki erfitt með að taka viðtölin. Þau áttu erfitt með að fara yfir upplýsingarnar sem komu út úr viðtölunum.“

Guðmundur: „Svo var það líka þetta ferli, maður þurfti að vera svo kaldur. Með 200 klukkutíma af efni og sýningin átti að vera í mesta lagi þrír klukkutímar. Við þurftum að vera svolítið grimm og köld þegar við fórum yfir þetta.“

Var eitthvað sem kom ykkur á óvart þegar þið tókuð viðtölin og kynntuð ykkur heimilisofbeldi?

Charlotte: „Já, ég verð að segja að heyra að 25% af ofbeldisfólki eru sikkópatar. Það er mjög erfitt að vinna með sikkópötum því þau njóta þess að beita ofbeldi og það er engin eftirsjá. Og það finnst mér rosalega óhugnanlegt. Og öll ástarsambönd byrja með að þú sért ástfangin/n og allt er æðislegt. Hvenær byrjar þá allt að breytast og hvernig uppgötvarðu það. Og kemstu þá út? Því það er svo mikið niðurif með þessu munstri.“

Tókuð þið einungis viðtöl við þolendur eða líka við gerendur?

Halldóra: „Við töluðum við þolendur, gerendur og aðstandendur. En flestir voru þolendur.“

Guðmundur: „Það var rosa erfitt að finna gerendur. Það tók mjög langan tíma og það kom ekki fyrr en við byrjuðum að æfa og við fundum að okkur vantaði þau sjónarmið mjög illilega.“

Skiljanlega vill fólk ekki koma fram og segjast hafa lamið einhvern, eða hvað?

Guðmundur: „Nei, því miður. Auðvitað vonar maður að samfélagið komist einhvern tímann á það þroskastig að átta sig á því að þetta er yfirleitt veikt fólk sem þarf hjálp. 50% gerenda ólust upp við heimilisofbeldi. Það er nú komið frábært úrræði sem heitir Heimilisfriður sem var einu sinni Karlar til ábyrgðar en nú er búið að opna það fyrir bæði kyn. Þar sem er verið að hjálpa þessu fólki. Sálfræðingurinn sem er með þetta, Einar Gylfi (Jónsson), sagði að það væri svo mikill munur á karlmönnunum sem eru að koma inn núna og þeim sem komu inn þegar þau voru að byrja fyrir 6-7 árum. Þá voru þetta menn sem áttu kannski 20-30 ára ofbeldissögu að baki en nú eru menn að koma eftir fyrsta, annað tilvik. Og leita sér hjálpar.“

Halldóra: „Og núna líka konur, þær eru ekki margar en þær eru ein og ein. Og þær eru að fatta það að hvernig þær koma fram við manninn sinn er ekki í lagi. En það sem kom á óvart, en ætti kannski ekki að gera það, og mér finnst það skipta svo miklu máli að það komi skýrt fram, er að allir geta orðið fyrir heimilisofbeldi. Allir, sterkir einstaklingar, veikir einstaklingar.“

Tengist ofbeldið oftast áfengis- og fíkniefnaneyslu?

Guðmundur: „Mjög mikið. Já, þetta er mjög neyslutengt.“

Guðrún: „Ég vil meina að það sé svolítið afsökun. Því það er bara það líkamlega, svo er þetta andlega.“

Charlotte: „Það var kona sem sá sýninguna en í henni fer Guðmundur með „mónólóg“ um konu sem er að beita mann sinn ofbeldi. Og það sem hún gerir er að t.d. að hóta honum að halda börnunum frá honum ef hann vill skilja. Og konan sem sá sýninguna fór eftir hana til leikaranna og sagði: ég skal bara fara að skoða mín mál. Ég er að gera þetta.“

Laufey: „Hún er núna komin í meðferð.“

Arnar: „Vinkona mín kom til mín eftir sýningu og sagði, ok, ég er búin að vera að beita manninn minn ofbeldi. Andlegu ofbeldi. Hún fattaði það eftir sýninguna.“

Guðmundur: „Einn strákur fór beint eftir sýningu upp á Stígamót, hætti í skólanum og er að einbeita sér að því að láta sér batna.“

Þannig að í raun getur ein svona leiksýning breytt lífi fólks?

Guðmundur: „Já, algjörlega.“

Halldóra: „Á meðan við heyrum um eina manneskju sem áttaði sig á því með sjálfa sig, þá erum við búin að sigra, að ná árangri.“

Helgi: „Þetta er langhlaup. Við erum að reyna að koma þessu inn svo að börnunum sem eru að alast upp við þetta finnist þetta ekki eðlilegt ástand.“

Charlotte: „Já, við erum líka að sýna Suss! fyrir menntaskólakrakka. Og vonandi verður hægt að víkka það út og ná til þessara krakka sem eru 16 til 19 ára, það er alveg snilld. Sýningin er létt og skemmtileg þótt efnið sé þungt. Hún verður aldrei leiðinleg og nær að grípa unga fólkið.“

Laufey: „Hildur fór í skólann til dóttur sinnar til að segja frá sýningunni og það varð til þess að einn strákur í bekknum opnaði sig og sagði frá ofbeldinu á sínu heimili. Og það fór allt á fullt að hjálpa honum og nú er kerfið að vinna með honum.“

Charlotte: „Við höfum líka í verkinu „mónólóga“ úr æskunni og svo líka fullorðins upplifun. Þannig að þú getur speglað þig í þessu á margan hátt.“

Arnar: „Það komu margir þolendur á sýninguna og maður heyrði frá þeim og öðrum gestum. Og ég heyrði að fólk hefði haldið að það yrði hér grátandi í tvo tíma en þau voru mjög ánægð að svo var ekki.“

Ástin er næst á dagskrá

Við sláum botninn í allt tal um Suss! og ofbeldi og ræðum um hvað sé næst á dagskrá. Þau stefna á nýja sýningu, helst á þessu ári, sem á að fjalla um ástina og mun heita Ahhh.

Þau hafa nýlega fengið listamannalaun, tvær milljónir frá Reykjavíkurborg og framleiðslustyrk. Hópurinn var valinn Listhópur Reykjavíkur 2017. Nú ætla þau í útrás með Suss! og eru á leiðinni á fjórar hátíðir á Norðurlöndum, en þau munu sýna í Svíþjóð, Noregi, Færeyjum og Danmörku.

Charlotte: „Við þurfum miklu meiri pening.“ Hún skellihlær.

Leikritið Ahhh er næst á dagskrá og þau eru ekki byrjuð á handritinu en hafa ákveðið að það muni fjalla um ástina, á einn eða annan hátt.

Charlotte: „Ég er búin að skrifa niður fullt af spurningum sem ég ætla að spyrja hópinn. Eins og hvað er eiginlega ást? Hvernig elskarðu? Svo er spurning hvort ástin sé geðveiki. Er ást að kunna að tengjast? Að kunna að upplifa fegurð?“

Helgi: „Að kunna að gefa skilyrðislaust?“

Charlotte: „Þetta er rannsóknarleikhópur þannig að við erum að fara að rannsaka þetta. Þetta verður að sýningu vonandi 2017 eða í byrjun 2018. Þetta er listrænn rannsóknarhópur þannig að við erum að fara að opna þetta efni eins og við gerðum með ofbeldið og spyrjum okkur, hvað er eiginlega ást. Viltu eiga þann sem þú elskar eða frelsa hann?“

Guðmundur: „Þegar við förum að rannsaka ástina þurfum við líka að rannsaka hina hliðina á peningnum sem er þetta ljóta. Ég er í samtökum ástar- og kynlífsfíkla. Og þar einmitt var setning eða loforð sem ég skildi aldrei til að byrja með og hljómar einhvern veginn svona: Ást er ákvörðun sem við tökum á ábyrgan hátt í framhaldi af umhugsun og góðri vináttu. Fyrst þegar ég byrjaði hugsaði ég, það er ekki ást! Ást er þessi geðveiki þegar maður getur ekki sofið, getur ekki borðað, getur ekki andað. Og að geta ekki hugsað um neitt annað.“

Halldóra: „Já, vísindamenn segja að maður framleiði þá dópamín.“

Charlotte: „Og hvað á maður að gera þegar það hættir, ætlarðu þá að skilja og finna þér nýtt dóp? Eða ætlarðu að finna leið til að halda áfram? Við ætlum að leita svara, listrænna svara.“

Þannig að þessi hópur er kominn til að vera?

Guðmundur: „Já, okkur líkar vel að vinna saman og rannsaka og halda áfram með þessa aðferðafræði sem okkur finnst við hafa dottið niður á. Og okkur finnst það skemmtilegt sem við erum að gera. Saman á meðan það er gaman.“

Halldóra: „Það er rosa þakklátt að fara úr ofbeldinu og yfir í ástina. Ég hugsaði með mér að þetta yrði svo frelsandi og svo mikil gleði að fara inn í ástina. En núna er ég að átta mig á því að ástin er svo flókin! Og ég upplifði ástarsorg í fyrsta skipti núna, með fullri virðingu fyrir öllum fyrrverandi kærastum!“

Þau skellihlæja.

„Ég uppgötvaði í sumar hvað ástin getur verið sár.“

Guðrún: „Svo er það með ást og ástarsorg, eru það ekki bara aðskilin fyrirbæri?“

Halldóra: „Ég held að ég hafi verið að hleypa öllu að mér, ástinni, og svo þegar ég lendi í ástarsorginni er það bara dauðinn. Maður getur ekki labbað og það er rosa sársauki. Þetta er mjög kómískt.“

Charlotte grípur hugmyndina og segist sjá það fyrir sér á sviði.

Ertu búin að finna ástina á ný?

Halldóra: „Heyrðu, hann kom aftur!“

Þau skellihlæja öll og við látum þetta gott heita og höldum út í vetrarsólina, áður en hún hverfur bakvið sjóndeildarhringinn.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson