Allir elska þeir Heru

Hera Hilmarsdóttir, Þórey Sigþórsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson.„Verkið stendur og …
Hera Hilmarsdóttir, Þórey Sigþórsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson.„Verkið stendur og fellur með leikurnum enda eru þeir einir á sviði,“ segir Þórey sem leikstýrir. mbl.is/Golli

Það væru engar ýkjur að segja að Hera Hilmarsdóttir hafi verið að gera það gott að undanförnu. Eftir að hún var tilnefnd til Edduverðlaunanna árið 2007 fyrir leik sinn í myndinni Veðramót hefur leiðin bara legið upp á við. Árið 2015 hlaut hún Edduna fyrir leik sinn í Vonarstræti og árin 2013-2016 fór Hera með stórt hlutverk í bresku sjónvarpsþáttaröðinni Da Vinci's Demons. Þá lék hún eitt aðalhlutverkanna í Eiðnum sem kom út í fyrra í leikstjórn Baltasars Kormáks, og var einnig í þriggja þátta sjónvarpsþáttaröð Discovery Channel um sögu stofnenda Harley-Davidson-mótorhjólaframleiðandans, Harley & The Davidsons.

Ben Kingsley vildi endilega fá Heru með sér í An …
Ben Kingsley vildi endilega fá Heru með sér í An Ordinary Man.

Stærsta afrek Heru til þessa hlýtur samt að vera hlutverkið sem hún landaði í tyrknesk-bandarísku myndinni The Ottoman Lieutenant sem frumsýnd verður með vorinu en þar leikur Hera aðalhlutverkið á móti sjálfum Ben Kingsley, Josh Hartnett og hollenska hjartaknúsaranum Michiel Huisman sem best er þekktur fyrir leik sinn í Game of Thrones. Þá er tökum lokið á myndinni An Ordinary Man þar sem Hera leikur aftur á móti Ben Kingsley, og í þetta skiptið í eins konar tvíleik á hvíta tjaldinu.

Handritið hafði sterk áhrif

Í augnablikinu einbeitir Hera sér hins vegar að æfingum á breska verðlaunaleikritinu Andaðu (e. Lungs) eftir rithöfundinn og leikskáldið Duncan Macmillan. Þar leiða Hera og Þorvaldur Davíð Kristjánsson aftur saman hesta sína eftir eftirminnilegan leik í Vonarstræti. Verður Andaðu frumsýnt í Iðnó næstkomandi sunnudag, 29. janúar. Sýningar standa aðeins yfir í skamman tíma og dreifast sýningar yfir þrjár vikur.

Móðir Heru, Þórey Sigþórsdóttir, leikstýrir verkinu en það var hún sem fyrst vakti athygli Heru á Andaðu. Kom Hera fljótt auga á að verk Macmillan væri alveg einstakt. „Það gerist ekki oft að ég rekst á handrit sem hefur svona sterk áhrif á mig, og var ég hreinlega í klessu eftir að hafa lesið verkið í gegn. Ég var líka spennt fyrir textanum og skipulagi verksins sem minnir helst á langt ljóð,“ segir Hera. „Aldrei hafði ég séð einmitt svona samtal og svona átök á sviði, og vissi ég strax að mig langaði að deila þessu verki og leyfa fleiri að upplifa það, og var forvitin að sjá hvort samtal sögupersónanna gæti virkað á íslensku.“

Hera og Michiel Huisman í The Ottoman Lieutenant.
Hera og Michiel Huisman í The Ottoman Lieutenant.

Myndi það virka á íslensku?

Gerði Hera sér því lítið fyrir og þýddi verkið. Hún segist hafa byrjað að þýða Andaðu til þess eins að prófa og sjá hvað kæmi út, hvort það myndi yfir höfuð ganga upp á íslensku og í íslensku samfélagi, og kom fljótt í ljós að hún væri á réttri braut. „Við ákváðum að hafa opinn samlestur á leikritinu hér heima til að sjá hver viðbrögðin væru og reyndist Andaðu fá afar sterk og jákvæð viðbrögð hjá öllum aldurshópum. Margir komu út með tárin í augunum, svo eitthvað var greinilega að virka.“

Andaðu er í grunninn ljúfsár ástarsaga. Er skyggnst inn í líf og langanir pars á þrítugsaldrinum þar sem hugmyndin um barneignir sprettur fram, og svo fylgst með lífi þeirra beggja í gegnum súrt og sætt fram að dánardegi. „Þetta er saga tveggja einstaklinga sem eru einfaldlega að reyna að vera manneskjur í heimi langana, tilætlana, vona og ótta. Þau ætla sér að gera allt, þau þrá að vera bestu útgáfur af sjálfum sér en svo grípur lífið inn í og fyrr en varir hleypur tíminn hjá og lífið er búið,“ lýsir Hera leikritinu.

Að þýða leikrit er erfiðara en það virðist og þó að talsmátinn í Andaðu sé „hversdagslegur“ þá var kúnst að koma frumtextanum rétt til skila. „Meðal þess sem er krefjandi við texta Macmillan er að samtölin geta verið alveg yfirgengilega óreiðukennd. Hvernig kemurðu persónum til skila frá upprunalegum texta yfir á annað tungumál? Þær þurfa að halda sínum persónueinkennum í hugsun og fraseringum, talsmáta, orðavali og svoleiðis, án þess að hljóma tilgerðarlegar, stífar eða þýddar,“ segir Hera. „Eitt aðalmarkmið þýðandans er annars vegar að finna samhljóm sögunnar í öðru samfélagi og tungumáli, og hins vegar að fanga kjarna og hjarta textans. Og ekki síst að treysta leikskáldinu og uppbyggingu verksins. Ég held í það minnsta að margir geti tengt við þessar persónur sem segja svo oft einmitt ekki það sem þær langar í raun að segja, og heyra ekki í hinni manneskjunni þegar virkilega á reynir.“

Hera og Þorvaldur í hlutverkum sínum í leikritinu Andaðu. „Það …
Hera og Þorvaldur í hlutverkum sínum í leikritinu Andaðu. „Það gerist ekki oft að ég rekst á handrit sem hefur svona sterk áhrif á mig.“ mbl.is/Golli

Orkan með áhorfendum

Auk þess að hafa mikla ástríðu fyrir verkinu verður það ágætis tilbreyting fyrir Heru að spreyta sig á leiksviðinu eftir að hafa leikið nær eingöngu í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum undanfarin ár. Hún segir mikinn mun á því að vinna við kvikmyndir og sjónvarpsþætti annars vegar, og hins vegar að vera á sviði fyrir framan hóp áhorfenda. „Í bíómyndum og sjónvarpsþáttum upplifir maður ekki þessa orku sem myndast í leikhúsinu,“ segir hún og bætir við að það geti verið lýjandi að vinna við langar sjónvarpsþáttaraðir eins og Da Vinci's Demons. „Í þáttaröðum gerist allt miklu hraðar, og þarf margar en stuttar senur til að halda söguþræðinum gangandi og er því vinnan í kringum hverja senu mun hraðari en í kvikmyndunum. Mér líkar ágætlega sú vinna sem á sér stað við tökur á bíómynd, maður kemur aðeins öðruvísi að persónusköpuninni og kafar dýpra inn í eina sögu heldur en kannski marga söguþræði eins og sjónvarpsþættir eiga það til að gera.“

Útlenska stelpan

Hera veit að hún er mjög lánsöm að hafa náð svona langt í faginu enda samkeppnin hörð um bitastæðustu hlutverkin. Segir Hera að eitt hafi leitt af öðru og þegar hún hóf á sínum tíma leiklistarnám við Listaakademíuna í London hafi hún stillt draumunum mjög í hóf. „Ég var alls ekki með neinar fastmótaðar hugmyndir um leiklistarferil erlendis. Í náminu mátti greinilega finna að nemendurnir voru oft undir niðri hræddir hverjir við aðra enda mikil samkeppni sem getur myndast í svona fagi, þó að nándin og vináttan sé líka mikil, en margir þeirra litu svo á að þar sem ég væri útlendingur væri lítið að óttast og ólíklegt að mér tækist að landa safaríkum hlutverkum. Ég fann alveg fyrir þessu og leyfði því bara að vera en svo fattaði ég allt í einu einn daginn að ég var sjálf algjörlega búin að taka að mér þetta hlutverk. Og mögulega hafði ég bara búið það til sjálf. Þó svo ég væri óneitanlega frá öðru landi en flestir í kringum mig þá var þetta ekki mitt hlutverk í raun. Þannig að ég breytti algjörlega hugarfari mínu, hvernig ég nálgaðist hlutverkin mín, vinnuna og svona, landaði svo frábærum umboðsmanni, var síðan boðuð í prufur og allt í einu komin með nóg af verkefnum.“

Hera býr í Lundúnum og segist ekki verða vör við einhvers konar frægð, nema þá kannski í tengslum við ákveðin verkefni, í gegnum aðdáendabréf, samskiptamiðla á netinu og þess háttar. Er það helst á kvikmyndahátíðum að Hera er farin að upplifa líf stjörnunnar. „Þannig gerðist það nýlega á einni hátíðinni að ég kom á hótelið og sá að þar hafði safnast saman hópur fólks. Ég hugsaði sem svo að einhver fræg kvikmyndastjarna hlyti að gista á sama hóteli og ég, og þegar nokkrir úr hópnum kölluðu „Hera! Hera!“ hélt ég að það væri fólk sem starfaði við hátíðina og ætti að taka á móti mér. Ég vitaskuld faðmaði þessa gestgjafa mína og kyssti en svo rann það smám saman upp fyrir mér að þetta væru aðdáendur komnir til að sjá mig. Mér fannst það mjög skrítið.“

Stórstjarna fæðist

Verður áhugavert að sjá hversu skært frægðarstjarna Heru mun skína eftir að sýningar hefjast á The Ottoman Lieutenant og An Ordinary Man. Af lýsingum á fyrrnefndu myndinni að dæma er þar á ferð einstaklega rómantísk saga þar sem Hera lendir í miðjum ástarþríhyrningi á milli þeirra Josh Hartnett og Michiel Huisman en Huisman lék einnig með Heru í Harley-Davidson-þáttaröðinni sem nefnd var í byrjun greinarinnar. An Ordinary Man fjallar aftur á móti um mann sem er eftirlýstur fyrir stríðsglæpi, er á flótta undan réttvísinni, og hefur engan nema þernuna sína til að tengjast umheiminum.

Í The Ottoman Lieutenant fer Hera fer með hlutverk Lillie, bandarískrar hjúkrunarkonu sem starfar á spítala í Fíladelfíu árið 1914. „Henni hugnast ekki kynþáttamismununin sem hún upplifir í samfélaginu og á spítalanum, og lætur hrífast þegar ungur læknir, leikinn af Josh Hartnett, kemur til borgarinnar að kynna mannúðarstarf lækna í Tyrklandi.“ Hjúkrunarkonan finnur þar köllun sína og heldur af stað til Tyrklands með vörubíl fullan af læknisbúnaði. Fyrri heimsstyrjöldin er við það að bresta á og hættur leynast víða. „Á leiðinni á áfangastað kynnist Lillie tyrkneskum hermanni, leiknum af Huismann, sem hefur verið falið að gæta hennar á þessari hættuför. Ben Kingsley leikur síðan yfirlækninn á tyrkneska spítalanum og verður hann Lillie að eins konar föðurmynd.

Draumaprins æskuáranna

Neitar Hera ekki að það voru mikil viðbrigði að starfa með svona nafntoguðum stjörnum, og líklega skrítnast af öllu að leika í rómantískum senum á móti Josh Hartnett enda er Hera ekki eldri en svo að hafa sem krakki hrifist mikið af þessum bandaríska sjarmör. Þó að Hera hafi fengið að vera í faðmi Hartnetts og Huismann virðist hún hafa náð hvað sterkastri tengingu við Kingsley. „Við unnum virkilega vel saman og það var strax góð orka á milli okkar. Við urðum kannski ekkert rosalega náin fyrst við tökurnar í Tyrklandi, en svo hringdi Ben í mig einn daginn til að athuga hvort ég væri til í að leika með honum í annarri mynd. Við tökurnar á An Ordinary Man vörðum við meiri tíma saman og erum ágætir vinir í dag.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson