Kom verulega á óvart

Valerie Leroy.
Valerie Leroy.

Franski leikstjórinn Valérie Leroy hlaut í gærkvöldi verðlaunin í stuttmyndakeppni Sólveigar Anspach fyrir kvikmyndina Le Grand Bain (Sundferðin mikla) en þær þrjár myndir sem kepptu til úrslita voru þá sýndar í Bíó Paradís ásamt stuttmynd Sólveigar Par amour.

Samkeppnin var hluti af Franskri kvikmyndahátíð sem nú stendur yfir. Alls voru 53 stuttmyndir eftir kvenkyns leikstjóra sendar í keppnina, frá Íslandi, Frakklandi, Kanada, Haítí og Burkína Fasó. Í gærkvöldi sagði Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri frá myndunum sem sendar voru í keppnina og sérstaklega frá þeim þremur sem kepptu til úrslita. Að sýningu myndanna lokinni var svo tilkynnt hver hlyti verðlaunin og afhentu leikkonan Didda, sem lék í nokkrum kvikmynda Sólveigar, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Leroy verðlaunin.

Leikari og leikstjóri

Stuttmynd Valérie Leroy er nær 17 mínútur að lengd. Hún fjallar um þrítuga konu sem flytur inn í litla íbúð í vinsælu hverfi. Hún er fyrrverandi sundmeistari og endar á því að kenna nágrönnum sínum að synda, án þess að hafa til þess sundlaug.

Leroy stundaði meistaranám í sagnfræði en lék meðfram náminu í gamanmyndum. Hún hefur haldið áfram að leika og fer meðal annars með litla rullu í Elle, opnunarkvikmynd Franskrar kvikmyndahátíðar í ár. Leroy ákvað að spreyta sig á handritsgerð og fór í nám á því sviði, þar sem hún skrifaði sitt fyrsta handrit að kvikmynd í fullri lengd og hefur það unnið til verðlauna. Þá vann Leroy verðlaun á stuttmyndamaraþoninu í Valence árið 2015 en áður hafði hún kvikmyndað stuttmyndina sem sigraði í gærkvöldi, Le grand bain.

Sólveig góð fyrirmynd

„Þetta kom mér verulega á óvart,“ sagði Valérie Leroy um verðlaunin. „Ég sá samkeppnina auglýsta og bað fyrirtækið sem dreifir kvikmyndinni að senda hana. Reykjavík, Ísland og Sólveig Anspach hljómaði eins og fullkomin þrenning! Auðvitað bjóst ég aldrei við að vinna svo það kom mér afar skemmtilega á óvart.“

Leroy þekkir kvikmyndir Sólveigar vel og sagðist til að mynda muna afar vel hvar og hvenær hún sá fyrstu leiknu kvikmynd hennar í fullri lengd, Haut les cœurs! (1999). „Mér þótti hún svo huguð að gera kvikmynd sem þessa um brjóstakrabbamein, og gera það á svo skoplegan hátt – það er frábær kvikmynd. Og síðan hef ég séð allar myndir hennar, nema eina. Þar hef ég eitthvað að hlakka til.“

Ferill Leroy við handritaskrif og leikstjórn er stuttur en þetta eru þriðju verðlaunin sem hún hlýtur. „Ég hef veitt einum viðtöku í Marokkó, einum í París og nú í Reykjavík – það er gaman að geta ferðast um heiminn með myndunum sínum,“ sagði hún en þær hafa verið sýndar á allmörgum hátíðum.

Þessi nýju stuttmyndaverðlaun beina kastljósinu að kvenleikstjórum og Leroy fagnaði því. „Mér finnst það mikilvægt því karlleikstjórar eru enn miklu fleiri en við konurnar,“ sagði hún og bætti við að þótt hún hefði unnið talsvert sem leikari í kvikmyndum þá hefði hún um tíma átt erfitt með að ímynda sér sig sem leikstjóra, því fyrirmyndirnar vantaði. Sólveig og aðrir kvenbrautryðjendur séu því mikilvæg fyrirmynd fyrir unga kvenleikstjóra. „Þær hafa sýnt okkur að konur geta vitaskuld jafn vel og menn staðið á bak við tökuvélina,“ sagði hún.

Ötull kvikmyndaleikstjóri

Sólveig Anspach lést úr krabbameini í ágúst 2015, 54 ára að aldri. Hún var ein ötulasta kvikmyndagerðarkona Íslands, lengst af búsett í Frakklandi en tók kvikmyndir sínar einnig upp hér á landi. Hún var fædd í Vestmannaeyjum en lærði kvikmyndagerð í Frakklandi.

Úr stuttmynd Leroy.
Úr stuttmynd Leroy.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant