Klifrað upp í ljósið

Stefan Glowacz að klifra
Stefan Glowacz að klifra "Into the light". Mynd/Stefan Glowacz

Eftir rúma fjóra áratugi í klifri, fjallamennsku og ævintýraferðum er Stefan Glowacz kominn á sextugsaldur, en er enn að sækja í ævintýri sem marga dreymir um en færri láta verða að raunveruleika. Hann hefur verið atvinnuklifrari og fjallamaður undanfarin 25 ár og segir að í dag sé hann spenntari en áður að takast á við nýjar áskoranir. Á morgun mætir hann í Háskólabíó ásamt Elísabetu Margeirsdóttur og Tómasi Guðbjartssyni á vegum 66°Norður og Félags íslenskra fjallalækna og mun þar fjalla um afrek sín, en hann hefur meðal annars klifrað eina erfiðustu klifurleið sem þekkist í hellinum Madschlis al Dschinn í Óman.

„Ísland er land að mínu skapi“

„Ísland er land að mínu skapi,“ segir Glowacz þegar blaðamaður heyrði í honum nýlega og sagðist hann hafa komið hingað tvisvar sinnum áður. Hvorugt skiptið hafi reyndar verið til að stunda fjallamennsku, en hann hafi þó séð hvað landið hafði upp á að bjóða. „Umbreytingasamt veður, engin tré og spennandi fjalllendi,“ segir hann og bætir við að hann verði einhvern tímann að koma hingað seinna meir til að upplifa náttúruöflin.

Þótt mörgum ferðamönnum finnist Ísland líklega mjög framandi og harðneskjulegt er slíkt landslag þó ekkert nýtt fyrir Glowacz. Meðal afreka hans er að fara með seglbát til Suðurskautslandsins og klifra þar upp þverhnípta tinda, sigla á kajak við Grænlandsstrendur til að komast í klifurleiðir sem annars væri óhugsandi að komast að, klifur í Mapupuner-klettunum í óbyggðum Rússlands og að klifra leiðina „Into the light“ upp úr hellinum Madschlis al Dschinn í Óman.

Til að komast í hellinn þurfi að síga niður 160 …
Til að komast í hellinn þurfi að síga niður 160 metra. Svo hófst klifrið upp aftur. Mynd/Stefan Glowacz

Sigu niður 160 metra og klifruðu svo upp

Til að komast þangað þurfti hann ásamt föruneyti, sem innihélt meðal annars bandaríska klifrarann Chris Sharma, að ganga um óbyggðir Óman með allan farangurinn langa leið áður en komið var að hellinum.

Þá tekur við að þurfa að síga 160 metra niður um opið ofan í hellinn sem er næststærsti hellir heims. Til að setja þetta í samhengi er Hallgrímskirkja um 74,5 metra há og því er þetta rúmlega tvöföld hæð turnsins sem sigið er niður.

Frá botninum reyndu þeir Sharma og Glowacz svo að klifra alla leið upp, en með því þurftu þeir að fara um stærsta „þak“ sem nokkur klifurleið hér á jörðinni býr yfir. Í fyrirlestri sínum ætlar Glowacz að segja nánar frá þessari tilraun þeirra félaga.

Heillaður af afskekktum stöðum

Glowacz segist heillaður af stöðum sem séu afskekktir og þar sem í boði er að reyna á þolmörk hins líkamlega. Hann byrjaði ferilinn 12 ára gamall þegar hann byrjaði að klifra. Síðar varð hann atvinnumaður í greininni og keppti í klifri í átta ár frá 1985. Hann vann meðal annars þrisvar sinnum Rock master, sem hann lýsir sem eins konar Wimbeldon-móti klifurheimsins.

Á leiðinni upp.
Á leiðinni upp. Mynd/Stefan Glowacz

Í byrjun tíunda áratugarins fór Glowacz að horfa meira á svokallaðar ævintýraferðir, en með því vildi hann blanda saman því að fara í stóra leiðangra og að takast á við fjallamennsku eða klifur. Leiddi það meðal annars til fyrrnefndra leiðangra sem hann fór í á þessum tíma. „Ég er hvergi nærri hættur. Ég er áfram mjög spenntur að fara út og sjá ný lönd og náttúru sem ég hef ekki séð áður,“ segir hann.

Innanhúsklifur var stærsta breytingin

Á næsta ári ætlar hann aftur að fara til Grænlands og þegar hann horfir lengra til framtíðar segist hann vera spenntastur fyrir óbyggðum Rússlands og Kína. Þar sé mikið um alls konar áskoranir fjarri byggðu bóli sem eigi eftir að reyna við.

Eins og gefur að skilja hefur Glowacz orðið vitni að þróun klifurs og fjallamennsku síðustu áratugina. Aðspurður hvað honum finnist standa þar upp úr segir hann að innanhúsklifur hafi verið stærsta breytingin. Fyrstu ár hans í keppnum segir hann að keppt hafi verið á venjulegum klettaveggjum. Eftir 1987 hafi svo fólk svo byrjað að klifra inni og það hafi notið mikilla vinsælda. Þetta hafi leitt til þess að klifrarar gátu æft sig mun oftar og við þægilegri aðstæður. „Þetta kom klifri í alveg nýjar hæðir. Áður klifruðum við 8a eða þar um kring en erum núna komnir yfir 9b,“ segir hann og vísar til erfiðleikastigs klifurleiða sem menn geta í dag klifrað.

Auk frásagnar frá hellaklifrinu í Óman mun Glowacz einnig segja frá leiðangri sínum á Sam Ford Fjord á Baffin Island við Suðurskautslandið og göngu á hæsta fjall Malasíu, Mount Kinabalu. Fyrirlestrarnir munu hefjast klukkan 20 á morgun í Háskólabíói og hægt er að kaupa miða á midi.is.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason