Sónar fyrir augu og eyru

Gus Gus á Sónar.
Gus Gus á Sónar. Ljósmynd/Aníta Björk

Það stóð víst tæpt að hægt hefði verið að halda Sónar hátíðina í fimmta skipti hér á landi en það hafðist og lauk henni á laugardagskvöldið eftir þriggja daga dagskrá. Sónar merkið er orðið vel þekkt í heimi raf- og framúrstefnutónlistar en fyrsta hátíðin var haldin í Barcelona árið 1994 og nú er hátíðin haldin árlega víða um heim. Dagskrá hátíðarinnar í ár bar nokkurn keim af því að um hálfgerða reddingu hefði verið að ræða en engu að síður var eitt og annað áhugavert í boði.

Það er erfitt að ímynda sér betri vettvang fyrir Sónar en Hörpu og það gaf tóninn fyrir föstudagskvöldið að koma að Hörpu þar sem hátíðargestir gátu haft áhrif á hreyfingar og litabreytingar í ljósunum í glerhjúp hússins. Allt mjög framúrstefnulegt og í takt við einkunnarorð Sónar: Tónlist, sköpun og tækni.

Samaris var á sviðinu í Silfurbergi þegar ég kom í hús. Stærð salarins gerði það að verkum að þrátt fyrir að talsvert margt fólk væri komið til hlýða á sveitina var hálftómlegt um að litast þar. Hljóðheimurinn sem Jófríður og félagar hafa skapað virkaði líka einhverra hluta vegna hálffjarlægur og tilþrifalítill.

Sturla Atlas í góðu stuði.
Sturla Atlas í góðu stuði. Ljósmynd/Aníta Björk

Bretinn Matthew Barnes er maðurinn á bak við Forest Swords sem var í Norðurljósasalnum. Hljómurinn þar minnti á hljóðrásina í einhverju mystísku sakamáladrama og myndi virka vel sem slík. Flott músík og Matthew var í miklum fíling á sviðinu en enn var fólk að tínast í hús.

Í Kaldalóni gerði Madridingurinn John Grvy allt sem hann gat til að rífa stemninguna í gang. Þrátt fyrir að ýmislegt vanti mögulega upp á hvað tónlistina varðar þá var erfitt annað en að hafa gaman af tilburðunum hjá söngvaranum sem dansaði af krafti og lifði sig inn í tónlistina af öllum mætti. Að ná fólki til að koma og dansa niðri á sviðinu í Kaldalóni á þessum tímapunkti var töluvert afrek. Skemmtilegur strákur með smitandi sviðsframkomu sem erfitt er þó að sjá að myndi rata á klakann nema fyrir tilstilli hátíðar á borð við Sónar.

Íslenskt rapp og hip-hop er á miklu flugi og myndaði að vissu leyti burðinn í dagskránni. Sturla Atlas fékk flott pláss í Silfurbergi þar sem nú var orðið fjölmennara og sveittara. Hann var í miklu stuði og með honum á sviðinu voru meðal annarra Retro Stefson-bræðurnir Logi og Unnsteinn. Það er mikið lagt í sjónræna upplifun á hátíðinni og það er ekki hægt annað en að minnast á Sturla Atlas-letrið sem gnæfði yfir strákunum á sviðinu. Retró-eitís og flott.

Það var svo eitthvað ljóðrænt og fallegt við það að Sindri í Sin Fang hefði komið fram í túristalegu kúlutjaldi í salnum sem er kenndur við norðurljósin. Myndavél var inni í tjaldinu og flennistórum myndum af Sindra sem búið var að breyta með ýmiskonar effektum var varpað á tjaldið fyrir ofan sviðið þannig að áhorfendur höfðu smá tilfinningu fyrir því hvað þar fór fram. Tónleikarnir fóru mjög hægt af stað en allt var þetta samt einhvern veginn alveg eins og það átti að vera. Eftir að hafa séð Sin Fang nokkrum sinnum er ég ekki frá því að þessir tónleikar standi upp úr.

Gus Gus er þessa dagana einungis mönnuð þeim Bigga Veiru og Daníel Ágústi og Silfurberg var orðið troðfullt þegar þeir félagar stigu á sviðið. Hápunkturinn þar var magnað leysigeislaatriði þar sem Biggi var einn á sviðinu í syntha-kastalanum sínum og framkallaði teknó-seiðinn sinn sem hljómar á einhvern furðulegan hátt eins og hann sé ævagamall. Ljósin voru eins og áður sagði mögnuð og upplifunin líktist því að vera staddur í lokatriði á Stjörnustríðsmynd. Gus Gus er þjóðargersemi.

Tónleikarápið tekur á og það er stór hluti af Sónar-upplifuninni að setjast niður og virða fyrir sér fjölbreytt mannlífið sem sækir hátíðina og um leið borgina. Á sama tíma bölvar maður samt verðinu á dósabjórnum sem rennur auðveldlega niður á meðan verið er að safna orku á milli atriða. Þá er alltaf jafn furðulegt og eiginlega óþolandi að sjá að lögreglan skuli sjá sig knúna til að mæta á tónlistarhátíðir með hunda með sér. Fíkniefnastríðið er tapað og tímabært að huga að öðrum lausnum en ofbeldi.

Berlínarbúarnir og í Moderat voru næstir á svið í Silfurbergi. Tríóið hefur gert fína tónlist í gegnum tíðina og eiga sér dyggan og töluvert stóran hóp aðdáenda. Enn og aftur var sjónræni þáttur tónleikanna metnaðarfullur. Leysiljós voru notuð til að skapa þrívídd á sviðinu og það hjálpar sveitinni töluvert enda eru miðaldra karlar sem standa yfir raftækjum og stíga nokkur dansspor annað slagið takmörkuð upplifun að fylgjast með ef út í það er farið. Eftir síðustu tónana af hinu frábæra Bad Kingdom fór ég sáttur út í vorlega febrúarnóttina og ánægður með að Sónar skuli enn vera hluti af íslensku tónlistarlífi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson