Nettur köttur, minna nettur Fatboy

Fatboy Slim vottaði Prince heitnum virðingu sína á Sónar.
Fatboy Slim vottaði Prince heitnum virðingu sína á Sónar. Ljósmynd/Aníta Björk

Ég fór með erlendum gesti á Sónar, sem hafði aldrei komið í Hörpu áður. Hann er mjög sjóaður í alþjóðlegum tónlistarhátíðum en hann horfði í kringum sig með undrunaraugum og hafði orð á því allt kvöldið hvað húsið væri óskaplega fallegt og hvað það væri gaman að sjá slíka hátíð í þessu umhverfi. Ljósin í glerhjúpnum voru síkadelískri en nokkru sinni áður og myndar byggingin í heild hinn fullkomna ramma fyrir raftónlistarhátíð sem þessa. Gestir sýndust mér vera á öllum aldri – frá unglingum upp í fimmtugt og það er augljóst að hápunktar kvöldsins – rappararnir í De La Soul og hinn breski Fatboy Slim – sem allir voru frægir snemma eða um miðbik tíunda áratugarins – drógu að sér eldri áhorfendurna.

Fyrstu tónleikar kvöldsins hjá okkur voru með rapparanum Atla Sigþórssyni, betur þekktum sem Kött Grá Pjé, í Silfurbergi. Atli hefur getið sér gott orð, ekki einungis í rappinu heldur einnig sem ljóðskáld og hann gaf út stuttprósabókina Perurnar í íbúðinni minni fyrir jól. Textarnir hans eru líka mjög flottir og viti bornir – ekki bara um eiturlyf, peninga, konur og úthverfin. Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá Köttinn á sviði og hann hefur sannarlega grípandi sviðsframkomu. Með sítt flaksandi hár og naglalakk, klæddur í flauelskímónó, söng hann um að brenna allt, hann söng um innflytjendur, í einu laginu vísaði hann í bleikan náttkjól Megasar og ólíkt mörgum af þessum nýju íslensku röppurum er Kött Grá Pje „old school“ rappari: hann hefur skoðanir, textarnir eru pólítiskir og þeir eru mikilvægir. Þrívíddargrafíkin á sviðinu var líka mjög töff, píramídar og styttur af egypskum köttum voru á sveimi og fleiri dulræn tákn. Á miðjum tónleikunum fór hann úr spjátrungslegri yfirhöfninni og var ber að ofan en hafði tússað með feitu letri „This machine kills falafel“ sem er auðvitað vísun í setninguna „This machine kills fascists“, skilaboð sem tónlistarmaðurinn Woody Guthry skrifaði á gítarinn sinn á fimmta áratugnum. Ég fíla líka húmorinn við falafel-fyllta bumbu því kötturinn er með pínulitla „dad-bod“-ístru sem hann er stoltur af. Frábærir tónleikar og að mínu mati það mest spennandi sem er í gangi í rappi landans í dag.

Fullmikið mas

Næst á svið í Silfurbergi var hipphopp-sveitin De La Soul sem varð gríðarlega vinsæl í lok níunda áratugarins með plötuna Three Feet High and Rising og undirrituð keypti á unglingsárunum. Þeir voru vissulega mjög hressandi og tóku nokkra fræga slagara og augljóst var að fjöldi aðdáenda á miðjum aldri var í salnum. Það eina sem mér leiddist var hversu mikla áherslu þeir lögðu á að tala í sífellu við áhorfendur, skipta þeim í tvo hópa og láta ýmist vinstri eða hægri hlið salarins syngja með. Þetta var dálítið kjánalegt og þreytandi til lengdar. Í heildina voru tónleikarnir örlítil vonbrigði og komust ekki alveg á stuðflug.

Ég kíkti aðeins á ungstirnið Aron Can. Hann er bara 17 ára og af tyrknesk-íslenskum uppruna. Miklar væntingar eru gerðar til hans sem nýjustu rappstjörnu Íslands. „Live“ settið hans var að tala við áhorfendur en það var ljóst að hann vantar reynslu í sviðsframkomu. Lögin hans höfða til margra og allir voru að syngja með sem var dálítið kómískt og sveitaballalegt á köflum. Í lokalaginu fékk hann 101 boys til að dansa með sér og þá komst þetta á flug. Augljóslega mikill hæfileikadrengur á ferð en vantar dálitla hjálp við settið í heild.

Aðalnúmer kvöldsins var án efa Fatboy Slim, næntís plötusnúðurinn sem kom með hittara eins og „Right Here, Right Now“, „Funk Soul Brother“ og „Weapon of Choice“ á sínum tíma. Ég var ansi spennt fyrir þessu af því að ég er svo gömul að ég dansaði við þetta allt fyrir löngu. Vonbrigði mín voru þó nokkur, er ég hrædd um. Mér fannst þetta eiginlega alveg hundleiðinlegt, mér leið eins og á einhverju glötuðu diskóteki á Ibiza eða í hot jóga tíma á sterum.

Þegar gulu broskallarnir – Acid House lógóið í öllu sínu veldi, birtust á sviðinu og hann byrjaði að kyrja „Everybody on drugs“, sem kannski allir voru á, fannst mér þetta bara sveitt og hallærislegt og hugsaði bara um það eitt að komast út.

Flottasta varðan

Það síðasta sem ég gerði í Hörpu þetta kvöld var að kíkja í bílakjallarann í það sem Sónar kallar SonarLab og er ansi svalur staður fyrir reif, sem var að minnsta kosti fílingurinn þarna niðri. Þar var DJ hópurinn Plútó að þeyta einhverri harðkjarnatónlist sem heyrist á Paloma og Prikinu og fullt af fólki að dansa og horfa í áttina að strobe-ljósunum í hinum enda bílastæðakjallarans. Frekar sérstakt og skondið en hvað veit ég, ég er bara „irrelevant“ og miðaldra. Eða eitthvað.

Endaði svo kvöldið á því að gera það sem allir túristarnir voru að gera. Stóðst bara ekki mátið því þetta virðist vera nýjasta tíska, að skreppa út í fjöruna við Hörpu og byggja vörðu. Þetta var pottþétt flottasta varðan í fjörunni eða okkur fannst það á þessu ljúfa vorlega kvöldi undir blikkandi neonljósum Hörpu.

Liðsmenn De La Soul voru hressir.
Liðsmenn De La Soul voru hressir. Ljósmynd/Lilja Draumland
Tónleikar Kött Grá Pjé voru frábærir.
Tónleikar Kött Grá Pjé voru frábærir. Ljósmynd/Aníta Björk
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant