Besta sviðsmyndin oft ósýnileg

Sólrún Ósk Jónsdóttir.
Sólrún Ósk Jónsdóttir.

Sólrún Ósk Jónsdóttir hefur komið sér vel fyrir í London og er að gera góða hluti í breska kvikmyndageiranum. Hún virkar reyndar ósköp hógvær, og vill ekki gera allt of mikið úr því þó að mynd sem hún gerði með samnemendum sínum við hinn virta NFTS-kvikmyndaskóla hafi hreppt BAFTA-verðlaunin fyrr í mánuðinum.

Sólrún hefur menntað sig í leikmyndahönnun fyrir kvikmyndir og gerði leikmyndina fyrir stuttmyndina A Love Story sem hlaut verðlaun í flokki svokallaðra „stop-motion“-mynda. Þessa dagana hefur hún hins vegar í nógu að snúast hjá leikmyndadeild kvikmyndarinnar Murder on the Orient Express sem frumsýnd verður seint á þessu ári. Kenneth Branagh leikstýrir myndinni, sem er vitaskuld byggð á spennusögu Agöthu Christie. Hefur Branagh fengið margar stærstu stjörnur kvikmyndaheimsins til liðs við sig og fara t.d. Johnny Depp, Michelle Pfeiffer, Judi Dench, Penélope Cruz, Derek Jacobi, Willem Dafoe og Daisy Ridley úr Star Wars með hlutverk í myndinni. Sjálfur leikur Branagh Hercule Poirot.

Vissi ekki að námið væri til

Eftir stutt stopp í Iðnskólanum í Reykjavík starfaði Sólrún við ýmis störf hjá Borgarleikhúsinu og aðstoðaði einnig Filippíu Elísdóttur búningahönnuð í nokkrum verkefnum. Hélt hún 25 ára gömul til Bretlands og lauk þriggja ára námi frá Wimbledon College of Art í hönnun sviðsmynda fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir. Því næst tók við tveggja ára meistaranám við National Film and Television School, NFTS.

Áhuginn á sviðsmyndahönnun kviknaði snemma. „Pabbi minn er smiður og í gegnum hann lærði ég að lesa teikningar. Snemma þróa ég með mér brennandi áhuga á kvikmyndum og listum,“ segir Sólrún en bætir við að lengi vel hefði hún ekki vitað að væri til eitthvað sem héti í sérstakt nám í hönnun sviðsmynda fyrir kvikmyndir.

Sólrún er núna þrítug, nýútskrifuð, og þakkar hún NFTS að henni skyldi ganga greiðlega að finna vinnu strax að náminu loknu. Getur annars verið erfitt að stíga fyrstu skrefin í kvikmyndaheiminum. „Þetta er tiltölulega lokaður heimur og erfitt að finna út hvern maður á að hafa samband við til að reyna að komast inn um dyragættina,“ segir hún. „Skólinn fær bæði fólk úr bransanum til að gera úttektir á verkum nemenda, og í lok námsins höldum við sýningar á sköpunarverkum okkar hjá þremur stærstu kvikmyndaverunum. Það var á einni af þessum kynningum að ég kynntist listræna stjórnandanum Dominic Masters og það leiddi á endanum til þess að mér var boðið starf.“

Viktoríutíminn í bland við vísindaskáldskap

En af hverju að fara til Bretlands frekar en til Hollywood? Er það ekki þar sem hjarta kvikmyndageirans slær? Sólrún er aldeilis ekki á því að betra hefði verið að halda vestur um haf enda breski kvikmyndageirinn mjög virkur. „Umhverfis London er að finna mörg stór kvikmyndaver og margar af stærstu myndum Hollywood eru teknar upp hér. Þá er verkefnaflóran fjölbreytt og töluvert framleitt af myndum þar sem sögusviðið þarf að endurskapa löngu liðna tíð, eða sýna langt fram í framtíðina, sem er mjög spennandi fyrir hönnunardeildina.“

Sólrún má ekki gefa of mikið upp um mynd Kenneth Branagh, né heldur segja neitt um næstu skref. Sólrún aðstoðar hönnuðinn Jim Clay og hans aðstoðarhönnuði, og deildina í heild, og hefur hún enska titilinn „art department assistant“. Þessa dagana felst starfið einkum í að gera tækniteikningar og módel út frá teikningum hönnuðanna. Hún segir þessa vinnu hafa verið mjög lærdómsríka og verið tækifæri til að kynnast vel ýmsum hliðum framleiðsluferlisins í erlendri stúdíómynd.

Starfað í bakgrunninum

Þegar Sólrún leitar að innblæstri hefur hún gaman af að horfa á myndir af eldri sortinni, og jafnvel svarthvítar. Hún nefnir 2001: A Space Odissey eftir Kubrick og Solaris eftir Tarkovsky sem dæmi um myndir sem eru í miklu uppáhaldi og kann hún vel að meta kvikmyndaverk þar sem söguþræðinum vindur hæfilega hægt fram og hægt að skoða umgjörðina vel sem part af heildarmyndinni og sem mikilvægan part af söguþræðinum í stærra samhengi.

Hönnun sviðsmyndar getur verið mjög flókin og það er oft að leikstjóri og hönnuður þurfa að vinna náið saman til að skapa það útlit sem sóst er eftir fyrir söguna. Segir Sólrún að vinnubrögðin geti verið mjög breytileg eftir leikstjórum og myndum en alla jafna útheimti venjuleg stúdíómynd í Bretlandi fjölda teikninga og módela. Í myndinni sem hún vinnur núna að hafi t.d. verið gerðar um 780 teikningar, fjöldinn allur af módelum og 40 eintök af svokallaðri „consept“ list.

Rétt heildarútlit kvikmyndar og rétta samspilið á milli leikmyndar og lýsingar getur haft mikið að segja um hvort kvikmynd heppnast vel eða illa en starf sviðsmyndarhönnuðarins er samt iðulega þannig að þegar hann gerir hlutina rétt þá tekur áhorfandinn ekki eftir því. „Stærstu og þekktustu myndirnar væru varla neitt ef ekki hefði verið fyrir góða hönnuði. Samt eru hönnuðirnir oftast ekki mjög áberandi og sýnileiki þeirra sjaldan neitt í líkingu við leikstjórann og tökustjórann. Oft er sviðsmyndin best heppnuð þegar hún verður nánast ósýnileg og smellpassar svo vel við söguna og leikarana.“

Úr stuttmyndinni A Love Story.
Úr stuttmyndinni A Love Story.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson