Ljósverki varpað á risastóra tungu

Sesselja Hlín Jónasardóttir og Celia Harrison stofnendur Listar í ljósi …
Sesselja Hlín Jónasardóttir og Celia Harrison stofnendur Listar í ljósi á Seyðisfirði.

Listahátíðin List í ljósi verður haldin í annað sinn á Seyðisfirði 24. og 25. febrúar, þ.e. á föstudag og laugardag, en hátíðin var eitt sex menningarverkefna sem tilnefnd voru til Eyrarrósarinnar í ár.

Sesselja Hlín Jónasardóttir og Celia Harrison eru stofnendur hátíðarinnar og segir Sesselja að það hafi verið mikill heiður fyrir þær að hljóta tilnefningu. Hún segir hátíðina hafa heppnast mjög vel í fyrra. „Við skipulögðum hana á tveimur og hálfum mánuði en við erum báðar þrælvanar og með hjálp frá samfélaginu og vinum varð hún æðisleg. Hún er líka ein sinnar tegundar og fer fram á tíma þegar lítið er að gerast í þessum hluta landsins,“ segir Sesselja.

Fagna komu sólar

Hátíðin er haldin utandyra og er fyrir alla, unga sem aldna, og umbreytir Seyðisfirði með ljósadýrð og spennandi listaverkum um leið og komu sólar og ljóss er fagnað, eftir veturlanga bið, eins og segir í tilkynningu. „Áhorfendur, sem um leið eru virkir þátttakendur, munu upplifa á magnaðan hátt allskonar ljósverk; allt frá innsetningum og vídeóverkum til stærri ljósaskúlptúra. Innlendir sem erlendir listamenn taka þátt í hátíðinni, sem bókstaflega lýsir upp Seyðisfjörð,“ segir þar ennfremur.

Sesselja er spurð að því hvers vegna þær Celia hafi stofnað til hátíðarinnar og hver sé tilgangur hennar og segir hún að tímasetningin hafi verið valin með það í huga að fagna komu sólar.

„Sólin hverfur í þrjá mánuði bak við fjöllin og í mörg ár hefur verið haldin bæjarhátíð sem heitir Dagar myrkurs og er ótrúlega krúttleg. Þá hittast bæjarbúar og ganga saman í myrkri og á meðan eru sagðar sögur. Hátíðin okkar er mótsvar við því, að hafa ljósahátíð í stað myrkrahátíðar. Myrkrahátíðin er haldin þegar sólin fer og okkur fannst því tilvalið að hafa ljósahátíð þegar sólin birtist aftur,“ segir Sesselja.

Hljóð er líka ljós

–Listaverkin sem eru sýnd á hátíðinni, tengjast þau öll ljósi?

„Já og svo eru líka hljóðverk en fyrir okkur er hljóð líka ljós. Þannig að þetta er allt frá litlum vídeóverkum upp í risaskúlptúra og alls konar gjörninga,“ svarar Sesselja og bendir á að systurhátíð Listar í ljósi, kvikmyndahátíðin Flat Earth, sé þegar hafin í bænum. Sú hátíð hófst 20. febrúar og stendur til 26. febrúar. Á henni verða sýndar 40 stuttmyndir, vídeóverk, hreyfimyndir og heimildarmyndir eftir innlenda og erlenda listamenn. Skipuleggjendur hennar eru Arndís Ýr Hansdóttir og Austin Thomasson en þau hafa stjórnað vikulegum bíóklúbbi á Seyðisfirði í vetur. Kvikmyndahátíðin fer fram í bíósal Herðubreiðar, menningar- og félagsheimilis Seyðfirðinga, og er aðgangur að hennni ókeypis.

„Tilgangur hátíðarinnar er að vekja upp kvikmyndahússtemningu fyrri tíma, deila stuttmyndum með samfélaginu og bjóða upp á einstaka bíóupplifun fyrir áhorfendur,“ segir um þá hátíð í tilkynningu og bætir Sesselja við að með henni sé dagskrá Listar í ljósi lengd. „Við fáum alltaf svo mörg vídeóverk send að okkur fannst tilvalið að búa til sérstaka hátíð fyrir þau,“ segir hún.

Rokkstjarna meðal sýnenda

Sesselja segir um 20 listamenn taka þátt í hátíðinni og við þá bætist svo höfundar yfir 40 stuttmynda á kvikmyndahátíðinni. Þessir listamenn eru bæði innlendir og erlendir og þeirra á meðal er ein rokkstjarna, segir Sesselja. „Hún heitir Abby Portner og hefur verið að túra með Animal Collective, sem er mjög vinsæl hljómsveit í Bandaríkjunum, sér um sjónræna umgjörð (e. visuals) fyrir hana og fleiri stórar hljómsveitir sem hún hefur ferðast með,“ segir Sesselja. Portner mun varpa verki eftir sig á gamla skólann í bænum. „Hún er búin að byggja risastóra tungu sem kemur út úr skólanum sem verður varpað á. Þetta verður rosalegt,“ segir Sesselja.

–Er það eitt af aðalverkunum eða eru einhver aðalverk yfirleitt á hátíðinni?

„Nei, við horfum bara jafnt á alla listamennina okkar,“ segir Sesselja og bætir við að rosalega flottir listamenn eigi verk á hátíðinni, nefnir sem dæmi norska dansarann Rinu Rosenqvist sem mun dansa á hólmanum í miðbænum frá kl. 21 til 23 bæði kvöld.

Frekari upplýsingar um hátíðina, listamenn hennar og dagskrá má finna á listiljosi.com.

Verk á hátíðinni í fyrra sem nefndist Dieselqueen. Því var …
Verk á hátíðinni í fyrra sem nefndist Dieselqueen. Því var varpað á kirkjuna á Seyðisfirði. NIkolas Grabar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant