Þarf að helga sig tónlistinni

Richard Simm.
Richard Simm.

„Í tilefni sjötugsafmælis míns langaði mig að halda einleikstónleika og leika nokkur uppáhaldsverka minna. Sum þeirra hef ég leikið næstum alla ævi meðan einstaka verk er ég nýbyrjaður að fást við. Þetta eru allt mjög skemmtileg tónverk og saman mynda þau fjölbreytta efnisskrá,“ segir píanóleikarinn Richard Simm um tónverkin sem hann leikur á einleikstónleikum í Norðurljósum Hörpu sunnudaginn 26. febrúar kl. 14. Meðal tónskálda á efnisskránni eru Scarlatti, Beethoven, Liszt, Rachmaninoff og Debussy.

„Ég hlakka til að spila í Norðurljósum, enda er hljómburðurinn í öllum sölum Hörpu afskaplega góður,“ segir Richard og tekur fram að Steinway flyglar Hörpu séu framúrskarandi hljóðfæri. „Ég hef leikið á nokkra af Steinway flyglunum sex í húsinu og alltaf verið ánægður með hljóðfærin. Tónninn er mjúkur á sama tíma og hægt er að skapa nógu mikinn kraft þegar á þarf að halda.“

Heillaðist ungur af píanóinu

„Allt frá því ég man eftir mér heillaðist ég af píanóinu,“ rifjar Richard upp þegar hann er spurður hvers vegna píanóið hafi orðið fyrir valinu á sínum tíma. „Það kom ekki píanó inn á heimilið fyrr en ég var orðinn átta ára gamall. Fram að þeim tíma greip ég öll tækifæri sem gáfust til að spila á píanó heima hjá ættingjum. Til að byrja með spilaði ég eftir eyranu, en eftir hálft annað ár datt pabba í hug að senda mig í píanótíma,“ segir Richard sem ákvað ungur að verða einleikari.

„Ég var 14 ára þegar ég vissi að ég vildi verða einleikari. Ég einsetti mér að læra erfið verk sem mér fannst skemmtileg og fékk nóturnar lánaðar á bókasafninu. Ég var fremur feiminn sem barn, en mér fannst samt alltaf gaman að koma fram á tónleikum,“ segir Richard sem nam fyrst píanóleik í fæðingarbæ sínum í Newcastle á Englandi þar sem hann aðeins sextán ára gamall vakti athygli fyrir flutning sinn á píanókonsert nr.1 eftir Liszt. Tveimur árum síðar lá leið hans til London þar sem hann nam hjá Bernard Roberts við Royal College of Music í fimm ár og hjá Erik Then-Bergh við Staatliche Hochschule für Musik í München í þrjú ár.

Segir já við öllum konsertum

Að námi loknu var Richard fastráðinn sem píanóleikari og kennari við Háskólann í Wales í níu ár og gestaprófessor við Illinois-háskólann í þrjú ár. Frá því að hann settist að á Íslandi árið 1989 hefur Richard leikið með fjölda tónlistarmanna og hópa hérlendis auk þess að koma t.d. fram sem einleikari í píanókonsert nr. 2 eftir Rachmaninoff með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1997. Hann hefur tekið þátt í Listahátíð í Reykjavík, unnið um árabil með Rut Ingólfsdóttur fiðluleikara og starfar sem píanóleikari í Tríó Reykjavíkur með Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara.

Richard starfar nú sem meðleikari framhalds- og útskriftarnemenda við Listaháskóla Íslands. „Ég nýt þess að spila með nemendum og fæ mikið út úr kennslunni. Auk þess reyni ég að koma fram sem einleikari eins oft og hægt er,“ segir Richard og bendir á að hann hafi í mars sl. leikið Grieg-píanókonsertinn með hljómsveitinni Philomusica of Aberystwyth í Wales. „Ég segi já við öllum píanókonsertum og færi til Ástralíu á morgun ef þaðan bærist boð.“ Inntur eftir því hver sé lykillinn að því að vera farsæll píanisti segir Richard að æfingin skapi meistarann. „Maður þarf að helga sig tónlistinni og hafa ástríðu fyrir henni,“ segir Richard og upplýsir að hann spili og æfi sig í um sex klukkustundir á dag. „Ég er svo lánsamur að hafa enn fullt þrek til að geta setið svona lengi við daglega.“

Sýna hvers píanóið er megnugt

Spurður nánar um efnisskrá tónleikanna nefnir Richard að hann muni m.a. spila Feux Follets (Mýrarljós) eftir Liszt. „Ég man þegar ég heyrði þetta verk fyrst í útvarpinu aðeins 14 ára gamall. Ég man hvað mér fannst þetta ótrúlega spennandi, skemmtilegt og fallegt stykki. Ég sagði pabba frá því og dag einn kom hann heim úr vinnunni með nóturnar að verkinu og þá fór ég strax að æfa mig til að læra verkið. Þetta er hrikalega erfitt og jafnvel Rachmaninoff lét hafa eftir sér að sér fyndist þetta erfiðasta verk sem hann hefði tekist á við. Ég vissi það ekki þá,“ segir Richard kíminn og tekur fram að hann hafi einfaldlega heillast af sjarma verksins. „Ég hef æft verkið reglulega alla ævi, en hef ekki leikið það opinberlega síðan ég lék það á útskriftartónleikum mínum úr Royal College of Music,“ segir Richard og rifjar upp að hann hafi fengið mjög háa einkunn dómnefndar á sínum tíma.

Inntur eftir því hvaða verk á efnisskránni sé styst síðan hann byrjaði að æfa nefnir Richard þrjú verk eftir Rachmaninoff, þ.e. Prelúdíu í es-moll op. 23, nr. 9, Etýðu-mynd op. 39, nr. 5 og Etýðu-mynd op. 33, nr. 6. „Prelúdían eftir Rachmaninoff er ekki nema tvær mínútur í flutningi, en mjög fallegt og á sama tíma mjög erfitt enda með tvöföldum nótum. Hin verkin tvö, sem líka eru stutt, krefjast þess að maður leiki þau mjög hratt. Ég hef alltaf haft áhuga á því hvað píanónið sem hljóðfæri geti gert og tónskáld á borð við Liszt og Rachmaninoff sýndu hvers píanóið væri megnugt. Þeir notuðu hraða og tækni til að skapa eitthvað sem er virkilega þess virði að heyra.

Ég ætla að byrja efnisskrána á þremur sónötum eftir Scarlatti, þ.e. í G-dúr, Kk. 146, í f-moll, Kk. 69 og í C-dúr, Kk. 159. Scarlatti var samtímamaður Bach, en ólíkt Bach sem samdi ávallt alvarlega tónlist finnur maður í tónlist Scarlatti að hann kunni að skemmta sér,“ segir Richard og bendir á að stærstur hluti þeirra 555 sónata sem Scarlatti samdi sé í hraðari kantinum. „Honum tókst afskaplega vel að sýna hvað semballinn gat gert og hafði t.d. mikið af skölum. Mér finnst verkin hans virka mjög vel á nútímapíanó og er sannfærður um að Scarlatti hefði orðið hrifinn af nútímaflyglinum.“

Að sögn Richards einkennist efnisskráin í heild sinni af stuttum verkum. „Eftir Beethoven mun ég leika Polonaise op. 89. Þetta er mjög fallegt, þroskað og óvenjulegt verk,“ segir Richard og tekur fram að hann hafi valið verkið til heiðurs kennara sínum, Bernard Roberts, sem lést fyrir örfáum árum. „Hann var sérfræðingur í Beethoven og tók upp, ef ég man rétt, allar sónótur Beethoven þrisvar.“

Eftir Debussy leikur Richard þrjú verk úr Prelúdíum, hefti II, þ.e. Bruyères (Lyngheiðar), La Puerta del Vino (Vínhliðið) og Feux d'Artifice (Flugeldar). „Ég hef alltaf verið hrifinn af Debussy. Þetta er töfrandi tónlist þar sem Debussy tekst að lýsa hlutunum á ótrúlega raunverulegan en samt draumkenndan hátt.“

Að lokum er ekki út vegi að spyrja hvort Richard eigi sér uppáhaldsverk sem hann dreymi um að spila með sinfóníuhljómsveit. „Það er alltaf mjög gaman að spila með sinfóníuhljómsveit. Ég er hrifinn af píanókonsertum eftir Rachmaninoff, Tsjajkovskíj, Grieg og Schumann. Mig myndi hins vegar langa til að spila Variations symphoniques eftir César Franck, sem er vanmetið tónskáld, því þetta er ótrúlega fallegt verk og spennandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson