Var 1997 besta árið í tónlist?

Töluvert hefur verið fjallað um árið 1997 sem sérstaklega gott ár í tónlistarútgáfu, sem er skiljanlegt því margar góðar plötur komu út árinu og verða því 20 ára gamlar í ár. Þetta er svo sem ekkert nýtt því oft hefur því verið haldið fram að árin 1967 eða 1969 hafi verið þau bestu. Ætli þetta fylgi því ekki að komast á ákveðinn aldur sem kalli fram fortíðarþrá.

Sérstaklega var árið gjöfult í Bretlandi, þar sem Radiohead gaf út OK Computer, The Verve gerði Urban Hymns, Dig Your Own Hole með Chemical Brothers kom út, Portishead og Prodigy gerðu plötur sem margir halda upp á og Blur gaf út samnefnda plötu svo eitthvað sé nefnt. Sú síðastnefnda innihélt Vúhú-smellinn sem mun vera innblásinn af alíslenskri Botnleðju. Þetta var einmitt á tíma sem mikil gróska var í íslensku tónlistarlífi, sem var innblásið af velgengni Bjarkar á undanförnum árum.

Blómaskeið Undirtóna

Á þessum árum var tónlistarblaðið Undirtónar gefið út af mikilli hugsjón og það er gaman að fletta í gegnum það tuttugu árum síðar og fá tilfinningu fyrir drifkraftinum sem var í tónlistarlífinu á þessum árum. Quarashi kom með ferska strauma á sinni fyrstu plötu, Maus gaf út Lof mér að falla að þínu eyra og Sigur Rós gaf út Von sem vakti þó nokkra athygli þó að hún hafi tæplega verið til þess fallin að seljast í bílförmum (skipaförmum kannski?) eins og síðari verk.

Subterranean var önnur rappsveit sem var töluvert spiluð og naut vinsælda. Vínyll, 200.000 Naglbítar, Stjörnukisi og Tristian með Pétur Ben innanborðs voru með lög á safnplötunni Spírur sem var eiginlega safnplata með hljómsveitum sem þóttu eiga möguleika á erlenda markaði.

Lesendur Undirtóna gátu sent inn sína skoðun um hver hefði verið besta plata ársins og sex tónlistarmenn og atriði deildu heiðrinum. Quarashi, Subterranean, Maus og Björk ásamt hljómsveitunum á Spírum.

Þá tók Árni Matthíasson, tónlistarskríbent Morgunblaðsins, nokkrar plötur saman sem honum þótti standa upp úr á árinu. Maus, Quarashi og Subterranean voru þar á meðal en einnig Lúðraröð Smekkleysu-útgáfunnar þar sem Sigur Rós og Andhéri voru m.a. ásamt Abbababb sem var barnaplata Dr. Gunna.

Mikil gerjun á tímabilinu

Hvort árið 1997 hafi verið eitthvað betra en önnur ár í tónlist skal ósagt látið en þó er ljóst að mikil gerjun var á þessum árum þar sem sífellt fleiri gátu útfært hugmyndir sínar um tónlist með nýjum tækjum á borð við hljóðsmala og stafrænar upptökustöðvar. Það er líka athyglisvert að tónlistarmenn á borð við Björk, Portishead og Radiohead, sem gáfu út plöturnar sem hafa elst hvað best frá þessum tíma, hafa nýtt þessa tækni til hins ítrasta bæði þá síðar á ferlinum.

Íslenskir tónlistarmenn tileinkuðu upp til hópa sér þessa nýjungagirni og tilraunamennsku og óhætt er að segja að hún hafi haft mótandi áhrif á hvernig íslenskt tónlistarlíf hefur þróast. Þetta sést vel á að renna í gegnum einn árgang af Undirtónum sem var þarna algert öndvegisrit, líklega hefur þráðurinn tapast um það leyti þegar byrjað var að fjalla um klámmyndir af fullri alvöru, og hér með er skorað á starfsmenn Landsbókasafns að girða sig í brók og birta blaðið á tímarit.is. 

Hér eru nokkrar umfjallanir um tónlistarárið 1997 í erlendum miðlum:

Stereogum

NME

FACT Magazine

Pitchfork

Billboard 

NME

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson