Hvað klikkaði með umslagið?

Faye Dunaway og Warren Beatty halda á umslaginu.
Faye Dunaway og Warren Beatty halda á umslaginu. AFP

Margir velta nú fyrir sér hvernig það gat gerst að leikarinn Warren Beatty hélt á röngu umslagi þegar hann tilkynnti um bestu kvikmyndina á Óskarsverðlaununum í nótt.

Í umfjöllun The Guardian um málið kemur fram að athyglin muni beinast að þeim ráðstöfunum sem áttu að tryggja að ekkert færi úrskeiðs, þ.e. því að tvö eintök eru ávallt til af hverju umslagi með sigurvegurunum. Þannig á að tryggja að annað eintak sé til taks ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis hjá kynninum eða varðandi umslagið sjálft.

Lykilspurningin felst í því hvort Beatty hafi fengið slíkt varaumslag sem hafði að geyma upplýsingar um bestu leikkonuna í aðalhlutverki (Emmu Stone) en tilkynnt var um hana áður en Beatty steig á svið.

Jordan Horowitz, framleiðandi La La Land, og Warren Beatty eftir …
Jordan Horowitz, framleiðandi La La Land, og Warren Beatty eftir mistökin. AFP

PriceWaterhouseCooper (PwC), sem er eitt þekktasta endurskoðendafyrirtæki heimsins, hefur haft yfirumsjón með atkvæðatalningu á Óskarnum og tilkynningum á sigurvegurunum í langan tíma.

Starfsmenn fyrirtækisins bíða til hliðar við sviðið meðan á Óskarathöfninni stendur og láta kynnana hafa umslögin með sigurvegurunum.

Það sem er mest niðurlægjandi varðandi fyrirkomulagið, sem misheppnaðist í nótt og átti að vera algjörlega skothelt, var að mistökin gætu ekki hafa verið meira áberandi. Hundruð Hollywood-stjarna eru viðstödd athöfnina og hundruð milljóna horfa á Óskarsverðlaunin í beinni útsendingu í sjónvarpinu úti um allan heim.

Þegar nánar er að gáð sést að Betty hélt á umslagi fyrir bestu leikkonuna en Emma Stone, aðalleikkona La La Land, hafði skömmu áður hlotið þau verðlaun. Sjálf sagðist Stone hafa fengið upphaflega umslagið með tilkynningunni um að hún hafi fengið Óskarinn, þannig að Betty hlýtur að hafa haldið á varaumslaginu.

Emma Stone með Óskarinn og umslagið. Leonardo DiCaprio stendur við …
Emma Stone með Óskarinn og umslagið. Leonardo DiCaprio stendur við hlið hennar. AFP

Á meðan Marc Platt, einn af framleiðendum La La Land, tók við Óskarsverðlaunum úr höndum Beatty og leikkonunnar Fay Dunaway og var að hefja þakkarræðu sína heyrist starfsmaður PwC hrópa baksviðs: „Hann tók rangt umslag!“ og hljóp á sviðið til að stöðva ræðuna, að sögn USA Today, sem var með blaðamenn baksviðs.

Fyrir aftan Platt sást meðal annars til Brian Cullinan og Martha Ruiz, yfirumsjónarmanna umslaganna frá PwC, rannsaka rauð og gyllt umslög í örvæntingu. Þegar sannleikurinn kom í ljós tilkynnti annar af framleiðendum La La Land að myndin hefði ekki unnið verðlaunin. Í framhaldinu tilkynnti Beatty, sem á þeim tímapunkti hafði fengið rétt umslag, að Moonlight hefði borið sigur úr býtum.

Marc Platt (til vinstri), Jordan Horowitz (annar frá vinstri) og …
Marc Platt (til vinstri), Jordan Horowitz (annar frá vinstri) og Fred Berger taka við verðlaununum fyrir myndina La La Land. AFP

Brian Cullinan og Martha Ruiz höfðu fyrr í vikunni farið í viðtal hjá BBC þar sem þau útskýrðu kerfið varðandi umslögin, sem átti að vera algjörlega skothelt. Þau sögðu að lítill hópur hjálpaði þeim við að telja og endurtelja atkvæðin, bæði rafræn atkvæði og atkvæði á pappír, skömmu eftir atkvæðagreiðslu um sjö þúsund félaga Óskarakademíunnar. Atkvæðin séu prentuð út og talin og endurtalin í höndum.

Hún og Cullinan setja sjálf niðurstöðurnar í umslögin, skoða þau og innsigla. Einnig leggja þau á minnið öll úrslitin ef eitthvað skyldi koma fyrir umslögin.

Beatty heldur á ranga umslaginu.
Beatty heldur á ranga umslaginu. AFP

Umslögin eru í framhaldinu lokuð inni í öryggishólfi þangað til Óskarsathöfnin hefst. Þá ferðast þau hvort í sínu lagi í fylgd öryggisvarða í Dolby-leikhúsið í Hollywood þar sem athöfnin fer fram. Hvort um sig eru þau með skjalatösku með umslögunum og standa hægra og vinstra megin við sviðið, tilbúin til að láta kynnana fá umslögin nokkrum sekúndum áður en þeir ganga á sviðið.

Í viðtalinu sögðust þau vera sannfærð um að ekkert gæti farið úrskeiðis, þangað til það gerðist einmitt í nótt, þegar allur heimurinn var að horfa.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson