Nett grín á bak við lagið fyrst

Tónlistarmaðurinn Rúnar Freyr Rúnarsson eða Rúnar Eff eins og hann kallar sig er Akureyringur í húð og hár. Hann tekur þátt í úrslitakvöldi Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardaginn og er fimmti á svið.

Lag Rúnars,  Mér við hlið, var eitt af þremur lögum sem komust áfram á fyrsta undanúrslitakvöldi keppninnar. Segir hann það hafa komið sér nokkuð á óvart en segir jafnframt að í þessari keppni geti allt gerst.

Í samtali við mbl.is segir Rúnar ekki miklar breytingar hafa verið gerðar á atriðinu síðan hann flutti það á fyrsta undanúrslitakvöldinu fyrir utan að á laugardaginn syngur hann lagið á ensku. „En núna stendur yfir kynningarvinna, alls konar viðtöl og spilamennska hér og þar. Maður er að reyna að vera duglegur að minna á sig.“

Rúnar er enginn nýgræðingur í tónlist heldur hefur hann gefið út tvær plötur og ferðast um heiminn og flutt tónlist sína. Til að mynda er hann á leiðinni til Texas í nóvember þar sem hann er tilnefndur til country-tónlistarverðlauna.  „Ég er eiginlega með tvær stefnur í gangi, bæði svona rafpopp og „country“.“

Rúnar starfar einnig sem trúbador og hefur hann gert það í tíu ár. „Það getur oft verið mjög gaman en stundum er það bara eins og að moka skurð. Það fer rosalega eftir því hvernig maður er stemmdur.“

Aðspurður hvernig honum fannst að koma fram í Háskólabíói á undanúrslitakvöldinu segir hann það hafa verið mjög skemmtilegt en smá stressandi. „Það var smá flensa búin að vera að hrjá mig en þetta gekk vel og var góð æfing fyrir úrslitin á laugardaginn,“ segir Rúnar en þau fara fram í Laugardalshöll.

Lag Rúnars, Mér við hlið eða Make your way back home eins og það heitir á ensku, var ekki samið sérstaklega fyrir keppnina. „Ég samdi þetta til konunnar minnar fyrir 2-3 árum þegar hún fór í frí á æskuslóðir til Ísafjarðar. Ég sendi henni þetta lag í gríni eins og það væri allt ómögulegt, enginn til að mata mig og svona. Þetta var nett grín en alveg alvara á bak við þetta.“

Hann tók síðan lagið aftur upp og kláraði það og sendi inn í keppnina. Rúnar segist ekki hafa búist við því að komast alla leið í úrslitin. „En maður veit aldrei með þessa keppni. Það eru allir að horfa á þetta, það er bara svoleiðis. Maður sér ýmislegt á netinu hvað fólk er að spá í að kjósa en svo er eldra fólkið líka að kjósa sem er ekkert að tjá sig á netinu þannig að það kemur alltaf eitthvað á óvart.“

Rúnar verður fimmti á svið á laugardaginn. Hægt er að kjósa lagið hans með því að hringja eða senda SMS í númerið 900-9905.

Rúnar á sviðinu í undanúrslitunum.
Rúnar á sviðinu í undanúrslitunum. Ljósmynd/Mummi Lú
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant