Frábært að fá annað tækifæri

„Það var svolítið fyndið að fara aftur í Eurovision-gallann en mjög gleðilegt. Mig langaði alltaf að fara með atriðið í Höllina og er mjög spennt að taka aftur þátt. Ég lít á þetta sem annan séns,“ segir Hildur Kristín Stefánsdóttir í samtali við mbl.is en hún tekur þátt í úrslitum Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardaginn. Lag Hildar, Bammbaramm, komst ekki áfram í undanúrslitunum eftir símakosningu en var valið áfram í úrslitin af dómnefnd sem svokallaður Svarti Pétur.

Hildur segist vera á fullu að undirbúa sig fyrir annað kvöld. „Ég ætla að breyta atriðiðnu aðeins,“ segir Hildur og nefnir í því samhengi breytingar á myndvinnslu og ákveðnar áherslubreytingar. „Síðan verður „outfit-ið“ kannski ekki það sama,“ segir Hildur.  Hún segir gríðarlega vinnu fylgja þátttöku í Söngvakeppninni. „Fólk áttar sig oft ekki á því hvað það þarf mikinn undirbúning fyrir 3 mínútur á sviðinu.“

Vísun í það þegar hjartað fer á fullt

Beðin um að lýsa laginu Bammbaramm segir Hildur það vera „hresst ástarlag“. „Lagið er um það þegar maður er að kynnast manneskju sem maður er skotinn í og vill vera með. Bammbaramm er vísun í það þegar hjartað fer á fullt og maður finnur alveg fyrir því.“

Hildur hefur áður tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins, árið 2015 með lagið Fjaðrir. Hún samdi það ásamt vini sínum Guðfinni Sveinssyni og komust þau þá í úrslit. Hildur segir það vera fyrsta popplagið sem hún samdi en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar en í síðustu viku var Hildur verðlaunuð á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrir popplag ársins, I‘ll Walk With You.

Hildur á sviðinu í Háskólabíói.
Hildur á sviðinu í Háskólabíói. Ljósmynd/Mummi Lú

Hildur segir að það hafi verið draumur hennar að komast í Eurovision síðan hún var lítil. „Það var einn af mínum villtustu draumum að standa á stóra sviðinu. En eftir að maður fór að vera í tónlist og semja og spila komst maður nær því. Ég vissi að mig langaði að taka aftur þátt með popplag sem myndi passa inn í keppnina. Ég fór síðan að hugsa um það síðasta sumar að það væri gaman að semja eitt Eurovisionlag og ég fann það um leið og ég byrjaði að semja þetta að það væri kjörið fyrir keppnina.“

Hún segist hafa fengið frábær viðbrögð við laginu og að þau hafi farið fram úr öllum hennar vonum. „Ég hef ekki undan að skoða Snapchat og myndbönd af börnum að syngja lagið,“ segir hún. „Það virðist virka mjög vel á yngri kynslóðina en ekki síður þær eldri.  Börn hafa tekið ástfóstri við lagið, sérstaklega viðlagið. Það er náttúrulega frekar einfalt, ég hef heyrt börn sem kunna varla að tala syngja það.“

Þakklát fyrir tækifærið

Eftir fyrri undankeppnina sendi Hildur frá sér formlega kvörtun til RÚV vegna hljóðblöndunarinnar á sviðinu í Háskólabíói. Sagði hún að undirspilið hafi m.a. verið of lágt sem hafði áhrif á frammistöðu hennar á sviðinu. „Það er alveg frábært að fá annað tækifæri. RÚV er alveg búið að gefa það út að þetta verði betra á laugardaginn og ég geri allt sem ég get til að tryggja það. Ég verð til dæmis með minn eigin hljóðmann í Höllinni.“

Hún segist vera mjög þakklát fyrir tækifærið að fá að flytja atriðið aftur. „Það var alltaf vitað að dómnefndin mætti velja Svarta Pétur þótt það sé ekki alltaf gert, það var t.d. ekki gert í fyrra. En ég var ekkert að búast við því. Hugsaði að það yrði vissulega gaman en vildi ekki gera ráð fyrir neinu,“ segir Hildur.

Spurð hvað sé á döfinni fyrir utan Söngvakeppnina segir Hildur nóg að gera í tónlistinni. „Ég er að gefa út EP-plötu á næstu vikum eða mánuðum og er núna að klára síðasta lagið á henni. Síðan er nóg að gera í spilamennskunni,“ segir Hildur en hún mun m.a. koma fram á hátíðinni Aldrei fór ég suður um páskana og á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina.

Hildur verður fjórða í röðinni á laugardaginn. Hægt er að kjósa lagið hennar með því að hringja eða senda SMS í 900-9904. 



mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler