Að læra það sem hjartað vill

Sigrún Hrólfsdóttir segir myndlist ekki fá nægilegan sýnileika í íslenskum …
Sigrún Hrólfsdóttir segir myndlist ekki fá nægilegan sýnileika í íslenskum fjölmiðlum. Gróskan er mikil en gæti farið framhjá fólki ef umfjöllunina vantar. Eggert Jóhannesson

Sigrún Hrólfsdóttir hefur haft í nógu að snúast undanfarna tólf mánuði. Í mars 2016 tók hún við af Kristjáni Steingrími Jónssyni sem forseti myndlistardeildar LHÍ og segir hún að þetta fyrsta ár hafi vissulega verið svolítið strembið. Hjálpaði ekki til að fyrstu önnina í nýja starfinu vann Sigrún að því að klára meistararitgerð í heimspeki, en hún segist núna smám saman vera að ná betri tökum á taktinum í starfinu. Næstu árin ættu að verða auðveldari.

Listamannsferill Sigrúnar spannar rösklega tvo áratugi og er hún líklega þekktust fyrir að vera hluti af listamannaþríeykinu Gjörningaklúbbnum, sem hún hefur starfrækt í félagi við Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur. „Við höfum starfað saman í um tuttugu ár, allt frá því við útskrifuðumst úr Myndlista- og handíðaskólanum, og allan þann tíma mótað starfsemina eins og okkur hentar, og aðlagað Gjörningaklúbbinn að því sem komið hefur upp í lífi okkar þriggja, eins og gengur og gerist. Við höfum eignast börn, búið erlendis, og sinnt kennslu, en það er hins vegar alveg nýtt að ein okkar skuli komin í fasta vinnu í svona lanagn tíma. Að vera forseti myndlistardeildar er tímafrekt og krefjandi starf og varð það sameiginleg niðurstaða að á meðan myndi ég taka mér rannsóknarleyfi frá Gjörningaklúbbnum,“ upplýsir Sigrún og má heyra á henni að þó það sé ekki auðvelt að taka langt frí frá klúbbnum þá sé samstarfið fjarri því á enda:

„Eftir allan þennan tíma tengjumst við ótrúlega sterkum böndum og erum mjög góðar vinkonur. Gjörningaklúbburinn er líka löngu orðinn að sjálfstæðri veru, og mun halda áfram.“

Sigrún mun sinna eigin listsköpun samhliða því að stjórna deildinni, og ætti að hafa meira svigrúm til þess núna þegar fyrsta og erfiðasta árið er að baki. „Bæði er það mikilvægt fyrir mig sjálfa, og eitthvað sem stofnunin sækist eftir, að allir listamennirnir sem þar starfa séu virkir á sínu sviði.“

Að rannsaka hið skapandi ferli

En hvernig bar það til að Sigrún tók við starfi deildarforseta? „Ég lét slag standa þegar ég sá starfið auglýst, og langaði að prófa að kynnast sjálfri mér í þeim aðstæðum sem þessi vinna býður upp á. Auðvitað er það mikil breyting að vera komin í þetta hlutverk, og um leið mikil ábyrgð enda held ég að allir myndlistarmenn landsins beri hag deildarinnar fyrir brjósti á einhvern hátt, og vilji sjá hana vaxa og dafna.“

Eitt af fyrstu verkefnum Sigrúnar var að ráða fimm nýja kennara en hjá LHÍ gildir sú regla að til að tryggja endurnýjun geta kennarar ekki starfað þar lengur en tíu ár í mesta lagi. „Það var mikil áskorun að velja úr stórum hópi góðra umsækjenda, en líka gott tækifæri fyrir mig til að byrja að búa til teymi sem gæti endurspeglað fjölbreytnina í faginu, og þar sem allar raddir gætu fengið að heyrast innan þessarar deildar.“

Listaháskóli Íslands reynir að undirbúa listamenn framtíðarinnar svo þeir geti …
Listaháskóli Íslands reynir að undirbúa listamenn framtíðarinnar svo þeir geti látið að sér kveða á sínu sviði. Eggert Jóhannesson

Meðal þess sem Sigrún vill gera sem deildarforseti er að efla hlut listrannsókna. „Ég held að ráðningarnar hafi endurspeglað þá auknu áherslu sem lögð er á listrannsóknir og kortlagningu þess sem er að gerast í hinu skapandi ferli.“ Hún bendir á að því hafi ekki verið nægilega mikill gaumur gefinn hvað gerist í því skynfræðilega ferli þegar myndlistarverk tekur á sig mynd, og t.d. ekki verið skoðað eða metið til jafns við það að skrifa texta. „Markmiðið er kannski að listsköpunin sjálf verði með réttu viðurkennd sem þekkingarsköpun,“ segir Sigrún.

Hagnýtasta nám sem stunda má

Talið berst yfir í gildi listmenntunarinnar og atvinnuhorfur íslenskra listamanna. Kannski hafa sumir lesendur staldrað við hér að ofan, og kennt í brjósti um kennarana fimm sem þurftu að kveðja LHÍ eftir tíu ára starf – hvað er jú í boði, jafnvel fyrir listamenn með mikla reynslu? Sigrún hlær þegar blaðamaður viðrar þessar áhyggjur og segir ástandið ekki svo slæmt, hvorki fyrir reynsluboltana né þá nýútskrifuðu. Raunar segir hún myndlistarnám mögulega hagnýtasta nám sem hægt er að stunda, jafnvel þó nýútskrifaðir nemendur geti ekki alltaf gengið að föstu starfi vísu, og tækifærin leynast víða.

Umsóknarfrestur í BA-nám myndlistardeildar LHÍ er 31. mars næstkomandi en tekið er við umsóknum í mastersnámið til 21. apríl. Er greinilega mikill áhugi á náminu og algengt að aðeins þriðjungi umsækjenda sé boðin skólavist.

„Unga fólkinu segi ég að fylgja hjartanu, og læra það sem það hefur ástríðu fyrir. Maður verður nefnilega góður í því sem maður hefur áhuga á, en verður að sama skapi seint mjög fær í því sem maður hefur ekki áhuga á, og þess vegna alveg afleitt að velja sér náms- og starfsferil bara vegna þess að maður telur að það muni skila betri launa- og starfshorfum.“

Í myndlistarnámi, segir Sigrún, læra nemendur að móta hugmyndir sínar og koma þeim í framkvæmd. „Við undirbúum nemendurna líka þannig að þeir kunni að koma sér og verkum sínum á framfæri og geti byggt upp tengslanet sem teygir sig langt út í heim. Listamaðurinn þarf líka að gera allt sjálfur þegar hann er að byrja að fóta sig og reynum við að kynna nemendum okkar það starfsumhverfi sem bíður þeirra, og rétta þeim ýmis verkfæri sem geta komið að gagni.“

Störfin sem bíða útskriftarnemenda eru mörg og fjölbreytt. Flestir fara á bólakaf í listsköpun á meðan aðrir finna sér vinnu í söfnum og galleríum, eða ganga í kennslustörf. „Nemendur úr myndlistardeild hafa farið víða. Sumir finna sér t.d. stað hjá leikhúsunum eða vinna með sjónræna miðla á mjög breiðum skala. Aðrir hafa látið að sér kveða í kvikmyndagerð, eða sem sýningarstjórar.“

Sigrún er þess vegna brött og bjartsýn fyrir hönd myndlistarnámsins og myndlistarfólks, en hefur áhyggjur af að stjórnvöld virðast hafa önnur plön. „Á vettvangi stjórnmálanna virðist einkum talað um þörfina á að skapa fleiri störf í verksmiðjum og stóriðju, en það eru ekki störfin sem unga fólkið í dag kærir sig um að vinna. Þau fúlsa við þess háttar tækifærum, en finna í staðinn sínar eigin leiðir.“

Gróskan fær ekki að sjást

En af hverju virðist samt goðsögnin um atvinnulausa og auralausa myndlistarmanninn lifa svona góðu lífi? Af hverju virðist stundum eins og íslensk myndlist hafi ekki náð sama flugi og t.d. íslenskar skáldsögur og tónlist? Sigrún segir líklegustu skýringuna að ekki sé nógu mikið sagt frá því sem íslenskt myndlistarfólk hefur afrekað:

„Íslenska tónlistarsenan býr að því að heil ríkisrekin útvarpsstöð, Rás 2, leggur sig fram við að kynna íslenska tónlist. Á dögunum var sýndur þáttur í sjónvarpinu á þriðjudagskvöldi um íslenska myndlist, og fólk átti ekki orð af gleði yfir því að fá smávegis sýnileika.“

Sigrún segir það helst Morgunblaðið og Rás 1 sem reyni að gera íslenskri myndlist góð skil, en sýnleikinn sé ekki í réttu hlutfalli við þá miklu grósku sem er að eiga sér stað. „Ef að er gáð er mjög mikið að gerast, og við eigum myndlistarfólk sem er komið, eða nálægt því að komast, í fremstu röð, og íslensku myndlistarfólki er boðið að taka þátt í sýningum um allan heim.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant