„List er ekki söluvara“

„Á einhvern hátt er búið að normalísera markaðssetninguna,“ segir Steinunn …
„Á einhvern hátt er búið að normalísera markaðssetninguna,“ segir Steinunn Knútsdóttir, sviðslistakona og forseti sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands. Árni Sæberg

„List fyrir mér er ekki söluvara. Ég skapa list sem býður áhorfandanum til samtals og í því samtali verða þátttakendur að sitja við sama borð. Það skekkir sambandið ef annar er að kaupa vöru af hinum. Út frá þessari hugmyndafræði hafa verkin sem ég hef unnið sl. ár verið ókeypis fyrir áhorfendur. Ég myndi því helst vilja gefa bókina líka og lenti í ákveðinni togstreitu yfir að þurfa að selja hana,“ segir Steinunn Knútsdóttir, sviðslistakona og forseti sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands, um bók sína Lóðrétt rannsókn – Ódauðleg verk Áhugaleikhúss atvinnumanna 2005-2015 sem út kom hjá Háskólaútgáfunni undir lok síðasta árs. 

Í bókinni varpar Steinunn persónulegu ljósi á tíu ára sögu Áhugaleikhúss atvinnumanna og rekur tilurð leikverkanna sem saman mynda kvintólógíuna „Ódauðleg verk“ ásamt því að lýsa afstöðu leikhópsins til starfsumhverfis sviðslista á Íslandi. Fyrr á árinu var bókin tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis 2016 þar sem hún þótti, að mati dómnefndar, veita óvenjulega „innsýn í hugmyndafræði um leikhús og hvernig unnið er að leikverkum frá fyrstu hugmynd til sýninga“.

Leikhópurinn í Ódauðlegu verki um samhengi hlutanna sem frumsýnt var …
Leikhópurinn í Ódauðlegu verki um samhengi hlutanna sem frumsýnt var í Nýlistasafninu í ársbyrjun 2009. Um er að ræða annað verkið í kvintólógíunni.

Aðspurð segir Steinunn tilnefninguna hafa komið sér ánægjulega á óvart. „Ég var hissa, en mjög ánægð, enda er þetta mikill heiður. Ég held að þessi tilnefning sé mikilvæg fyrir leiklistina sem fag,“ segir Steinunn og tekur fram að hún hafi í skrifum sínum fyrst og fremst haft það að leiðarljósi að gera grein fyrir vinnuaðferðum sínum og listrænni sýn, en ekki endilega verið að reyna að setja sig í hlutverk fræðimanns þó vissulega hafi hana langað að deila þekkingunni sem til varð í sköpunarferlinu. „Markmiðið er að reyna að draga sem mesta þekkingu út úr því ferli sem listsköpunin er. Þeirri þekkingu er ég síðan að reyna að miðla,“ segir Steinunn og bendir á að bók hennar sé afsprengi þeirrar stefnu Listaháskóla Íslands að stuðla að listrannsóknum, en bókina skrifaði hún í rannsóknarleyfi.

Er ekki að setja mig á stall

„Við sem listamenn eigum að eigna okkur okkar aðferðir. Mér finnst það jaðra við einhvers konar minnimáttarkennd að þora ekki að standa með sínum verkum og tala um hvernig þau verða til og um aðferðirnar. Ég held það felist minnimáttarkennd í að vilja að einhver annar hafi skoðun á manni og láta öðrum eftir að skrifa um það sem maður er að gera,“ segir Steinunn sem er þeirrar skoðunar að allt sviðslistafólk geti tjáð sig faglega og greinandi um eigin verk.

„Oft heldur sviðslistafólk að það geti þetta ekki, en þetta er bara spurning um að gefa sér tíma til að líta til baka og greina vinnuna – og svo að vera rausnarlegur. Mér finnst engin sjálfhverfa felast í slíkum skrifum, enda finnst mér þessi bók ekki fjalla um mig. Hún fjallar um það sem Áhugaleikhús atvinnumanna hefur verið að gera, um samspil peninga og leikhúss, um hlutverk sviðslista í samfélaginu og um svo margt annað en mig. Ég held að margir óttist tilhugsunina um að vera að trana sér fram eða setja sig á háan hest, en ég upplifi bókina ekki þannig. Ég er ekki að setja mig á stall, heldur einfaldlega að tala innan úr listsköpuninni sem listamaður og reyna að gera grein fyrir þeirri sýn sem ég hef haft.“

Að sögn Steinunnar kviknaði sú hugmynd fljótlega í starfi hópsins að gera kvintólógíu, þ.e. fimm ódauðleg verk. „Ég hafði alltaf mjög sterkt á tilfinningunni að mig langaði að gera grein fyrir sköpunarferlinu af því á leiðinni uppgötvaði ég svo margt um samhengi sviðslista, samfélags, aðferða og peninga og þessari þekkingu langaði mig að deila,“ segir Steinunn og tekur fram að hún hafi ekki byrjað formlega að skrifa bókina fyrr en eftir frumsýninguna á fimmta og síðasta verkinu árið 2015.

Steinunn Knútsdóttir undirbýr Ódauðlegt verk um draum og veruleika sem …
Steinunn Knútsdóttir undirbýr Ódauðlegt verk um draum og veruleika sem sýnt var í Tunglinu haustið 2015 á Lókal og RDF, en frumsýnt 2010 í Útgerðinni, sviðslistarými Hugamyndahúss háskólanna. Um er að ræða fjórða verkið í kvintólógíunni.

„Ég nóteraði frekar lítið hjá mér þessi tíu ár sem við unnum kvintólógíuna, en eftir hvert ferli punktaði ég reyndar hjá mér hugleiðingar um hvað mig langaði til að fjalla um næst. Þegar ég byrjaði að vinna bókina var eðlilega auðveldast að skrifa um nýjustu verkin og greina aðferðafræðina þannig að ég vann mig afturábak í gegnum sýningarnar. Verkin fimm eru ólík og eftir á var auðvelt að greina vörðurnar í vinnuferlinu, þ.e. atburðina sem breyttu því hvernig við hugsuðum um hlutina.“

Erum á kafi í neysluhyggju

Bókin inniheldur m.a. handrit verkanna fimm, greiningu Steinunnar á sýningunum og vinnu Áhugaleikhúss atvinnumanna, opinbera gagnrýni, fjölda mynda og hugleiðingar samferðafólks í sviðslistum. „Alveg frá upphafi sá ég fyrir mér að það yrði samtal í bókinni, því við erum algjörlega háð okkar samhengi. Allt sem við gerum er svar við samfélagsástandi. Spurningar verkefnisins sem snúa að peningum eru ekki okkar einkamál,“ segir Steinunn og tekur fram að hópurinn hafi í gegnum árin fengið mikil viðbrögð við verkum sínum.

Spurð hvaða augum hún líti samspil leikhúss og peninga í dag, tólf árum eftir stofnun Áhugaleikhúss atvinnumanna segir Steinunn: „Mér finnst þetta vera orðið ýktara. Mér finnst við vera á kafi í neysluhyggju og mér finnst þetta verða verra og verra. Ég held við verðum að sporna við þessari þróun og þar gegnir samtalið lykilhlutverki. Á einhvern hátt er búið að normalísera markaðssetninguna. Krafan um að leikhús þurfi að selja miða til að standa undir rekstrinum gerir það að verkum að þau verða að stúdera markaðinn og hvað selst. Það heftir að vissu leyti athafnafrelsi þeirra,“ segir Steinunn og bendir á að hugsa mætti sér leikhúsheiminn með allt öðrum hætti en gert er í dag.

Mannréttindi að njóta lista

„Það eru mannréttindi að njóta lista. Ég á mér draum um samfélag þar sem boðið er upp á ókeypis menningarþjónustu sambærilega við heilbrigðisþjónustuna. Til að komast þangað þyrfti auðvitað vilja og fjármagn, en ég sé fyrir mér að bæjarfélög og ríkið greiði listafólki laun fyrir starf sitt. Við þurfum líka að losna undan kröfunni um að leikhúsið þurfi að selja x marga miða og bjóða upp á fyrirfram skilgreinda vöru. Við erum með mjög staðlaðar hugmyndir um hvað leikhús er og hvernig varan eigi að líta út, en leikhús getur verið svo miklu meira.

Þegar hugmyndin um vöru er tekin út úr jöfnunni og áherslan fer á sviðslistastarfsemina þá gefst rými til að hugsa hlutina allt öðruvísi eins og að bjóða oftar upp á örverk, verk í vinnslu, þrekverk og þátttökusýningar. Í þessu umhverfi þyrfti áhorfandinn að taka ábyrgð á sjálfum sér. Hann er ekki endilega að fara til að láta skemmta sér, heldur tekur þátt í sviðslistinni sem virkur þátttakandi. Þetta er draumsýn, en ég held við getum komist þangað. Þetta er bara spurning um vilja,“ segir Steinunn og tekur fram að listafólk þurfi líka að velta fyrir sér hlutverki sínu í listinni. „Við verðum að muna af hverju við erum að hlutunum. Af hverju er nauðsynlegt fyrir einhvern að vera sviðslistamaður og hvernig lítur hann á hlutverk sitt? Ég er ekki viss um að við séum að spyrja þessara spurninga.“

Innt eftir því hvað bíði Steinunnar í leikhúsvinnu sinni svarar hún: „Ég ætlaði að hætta að búa til leikhús eftir fimmta og síðasta ódauðlega verkið, en er strax hætt við það.“ Steinunn vinnur nú að þátttökuverki eða upplifunargöngu sem nefnist Síðasta kvöldmáltíðin og fram fer samtímis í Keflavík, Höfn á Hornafirði, Bolungarvík og Raufarhöfn á skírdag frá sólarupprás til sólarlags.

„Í þessu samfélagsverkefni bjóðum við íbúum bæjanna fjögurra til samtals um málefni sem okkur þykja mikilvæg. Við spyrjum heimamenn um lífsskilyrði, lífsgildi og lífsgæðin á hverjum stað,“ segir Steinunn og tekur fram að gefandi sé að setja af stað ákveðna hreyfingu. „Sviðslistirnar eiga að veita áhorfendum nýja sýn á veruleikann. Þarna gerum við það ekki bara með lokapródúkti heldur ferli. Þegar vinnunni er lokið eiga þau reynsluna,“ segir Steinunn og lýsir Síðustu kvöldmáltíðinni sem nokkurs konar ritúali.

„Ég hef mikinn áhuga á gömlu hugmyndunum um kaþarsis, að leikverk sé á einhvern hátt einhvers konar hreinsun þar sem fólk mæti sjálfu sér. Þegar ég lýk mínum skyldum við Listaháskóla Íslands 2020 langar mig að fara í doktorsnám og gera listrannsókn sem lýtur að því að leita að kaþarsis í nýrri tegund af verkum sem eru þátttökuleikhúsið,“ segir Steinunn og bendir á að síðasta verkið í kvintólógíu Áhugaleikhúss atvinnumanna hafi einmitt verið þátttökuleikhús.

„Það verk fjallaði um áhorfandann. Þannig var ég ekki að segja þeim sögu heldur var verkið leið til að áhorfendur gætu mætt sjálfum sér og lagt til sína eigin reynslu. Þannig geta þátttökuverk orðið blanda af helgiathöfn og sjálfshjálp og verða þannig sálfræðileg, en leikhúsið er í grunninn rannsókn á því hvernig við erum sett saman og stór hluti af því snýr að sálarlífinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson