Uppselt á allar sýningar

Úr söngleiknum Elly.
Úr söngleiknum Elly. Grímur Bjarnason

Mikill áhugi er augsýnilega á leiksýningunni Elly í Borgarleikhúsinu, þar sem fjallað er um líf söngkonunnar ástsælu Ellyar Vilhjálms, en uppselt er á allar sýningar inn í sumarið. „Það er uppselt til 16. júní,“ segir Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri, en þá verður 52. sýningin á verkinu.

Hvað svo – halda sýningar áfram í haust?

„Við erum að fara yfir það núna en að sjálfsögðu verður sýningum haldið áfram. Við erum að fara yfir það hvenær þeir miðar fara í sölu. Það verður væntanlega fljótlega,“ segir Kristín og bætir við að alltaf hafi verið fyrirhugað að halda sýningum áfram á nýju leikári.

„Við finnum að það er mjög mikil eftirspurn eftir miðum og við viljum reyna að mæta henni og setja þessar sýningar í sölu sem fyrst.“

Gagnrýni um Elly hefur verið afar lofsamleg. Til að mynda gaf gagnrýnandi Morgunblaðsins henni fimm stjörnur. Katrín Halldóra Sigurðardóttir fer með hlutverk söngkonunnar og um frammistöðu hennar skrifaði rýnir að hann ætti hreinlega ekki „nógu sterkt orð til að lýsa magnaðri túlkun Katrínar á Elly, annað en að hér er augljóst að stjarna er fædd. Ekki nóg með að Katrín líkist fyrirmyndinni í útliti heldur býr hún yfir einstakri útgeislun og stórkostlegri rödd sem lætur engan ósnortinn. Katrín syngur ekki aðeins lögin sem Elly gerði fræg heldur túlkar hana í gegnum tónlistina og fyrir vikið verður tjáningin einstök og sönn. Silkimjúk, hljómfögur og tær söngrödd Katrínar gefur Elly ekkert eftir“.

Skoða ýmsa möguleika

Gísli Örn Garðarsson leikstýrir uppfærslunni en þeir Ólafur Egill Egilsson sömdu leikritið með hliðsjón af ævisögu Ellyar eftir Margréti Blöndal sem út kom árið 2012.

„Það er frábært þegar gengur svona vel,“ segir leikhússtjórinn. „Sýningin hefur spurst svo vel út og viðtökurnar verið það góðar að miðarnir kláruðust eiginlega alveg í fyrstu viku eftir frumsýningu, en það er mjög óvenjulegt. Við höfum ekki selt svona langt fram í tímann og við erum með fólk á biðlista sem er að reyna að fá miða á þessu leikári.

Það er svo gaman að sjá að allar kynslóðir hafa gaman af tónlist Ellyar.“

Kristín segir 256 áhorfendur komast á hverja sýningu en uppsetningin er óvenjuleg, setið við lítil borð í salnum Nýja sviðinu, eins og um klúbb sé að ræða. Er þá nokkuð hægt að færa sýninguna á Stóra sviðið til að gera fleirum kleift að sjá hverja sýningu?

„Við erum núna að skoða ýmsa möguleika og tilkynnum fljótlega um það. En sýningin heldur áfram í haust, það er bara spurning hvenær og hvenær miðasalan hefst,“ segir hún. efi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant