Í ölduróti tilfinninga

Björn Hlynur Haraldsson og Nína Dögg Filippusdóttir sem Anton og …
Björn Hlynur Haraldsson og Nína Dögg Filippusdóttir sem Anton og Alda í Tímaþjófnum eftir Steinunni Sigurðardóttur sem sýndur er í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Steve Lorenz

„Uppfærsla Þjóðleikhússins á Tímaþjófnum felur í sér virðingarverða tilraun til að koma margræðum skáldheimi Steinunnar Sigurðardóttur til skila á leiksviðinu með ýmsum fagurfræðilegum miðlum. Bækur þola það hins vegar misvel að láta leikgera sig og þröngt sjónarhorn Tímaþjófsins setur uppfærslunni heldur miklar skorður,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir, leiklistargagnrýnandi Morgunblaðsins, í leikdómi sínum um Tímaþjófinn sem birtur er í blaðinu í dag. 

„Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur er ein þeirra bóka sem hægt er að lesa endurtekið og njóta við hvern lestur. Auðvelt er að heillast af ljóðrænum texta Steinunnar, kaldranalegum húmor, spennandi viðfangsefnum og vel útpældum vísunum, táknum og endurtekningum. Landlæknisdóttirin og menntaskólakennarinn Alda Ívarsen, sem sagan hverfist um, lítur á sig sem veraldarvana yfirstéttarkonu sem gædd er bæði gáfum og þokka enda vefur hún karlmönnum um fingur sér af miklu sjálfsöryggi þótt henni blöskri síðan „framkvæmdahlið ástarinnar“.

Nína Dögg Filippusdóttir og Edda Arnljótsdóttir sem systurnar Alda og …
Nína Dögg Filippusdóttir og Edda Arnljótsdóttir sem systurnar Alda og Alma. Steve Lorenz



Dauðinn er miðlægur í lífi Öldu, enda á hún vísan stað í ættargrafreitnum hvenær sem henni þóknast að hefja hvíld í friði. Áður þarf hún hins vegar að sjá á eftir Ölmu systur sinni, sem hún deilir fjölskylduhúsinu með, í fang gamla dónakarlsins eins og Alma nefnir manninn með ljáinn. Þegar Alda í upphafi sögunnar hafnar kvæntum elskhuga sínum og samkennara, Steindóri, með þeim orðum að hún vilji ekki hafa það á samviskunni að ræna börn hans þrjú föður sínum gengur hann í sjóinn. Í skugga sjálfsmorðsins kynnist hún sögukennaranum Antoni sem verður næsta viðfang ástar hennar. Samband þeirra varir í nákvæmlega hundrað daga, en þá velur Anton að slíta því enda kvæntur maður. Alda, sem sér Anton sem stóru ástríðu sína í lífinu, tekur höfnuninni illa og verður í framhaldinu hugsjúk af ást sem eftir sjö löng og sársaukafull ár kemur henni í gröfina aðeins tæplega hálffimmtugri að aldri.


Alda er heillandi karakter og því vel skiljanlegt að freistast sé til að færa hana úr bók yfir á leiksvið. Melkorka Tekla Ólafsdóttir vinnur leikgerðina sem Una Þorleifsdóttir leikstýrir og tekst með ágætum að fanga helstu lykilþætti sögunnar ásamt því að gera Öldu góð skil. Ein stærsta áskorunin felst hins vegar í því að gæða aukapersónur sögunnar lífi á leiksviðinu og það heppnast ekki fyllilega. Sjónarhorn bókarinnar einskorðast við Öldu og þannig sjá lesendur allar aukapersónur með hennar augum. Sú frásagnaraðferð gengur fullkomlega upp í skáldsögu, en hentar leiksviðinu illa þrátt fyrir að skrifuð séu inn ný samtöl sem bera framvinduna og stemninguna áfram.


Reynt er að fanga hugarheim Öldu í leikmynd Evu Signýjar Berger sem byggist á dimmsæbláum flauelstjöldum sem ramma sviðið af. Innan þessa ramma er tíminn jafnt sem raunveruleikinn afstæður,“ segir m.a. í leikdómnum. 

Björn Hlynur Haraldsson og Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverkum sínum.
Björn Hlynur Haraldsson og Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverkum sínum. Steve Lorenz

„Sviðshreyfingar Sveinbjargar Þórhallsdóttur setja mikinn svip á sýninguna og minna okkur á líkamleika ástarinnar. Áhrifaríkt var að sjá Öldu (Nína Dögg Filippusdóttir) reyna ítrekað að stökkva upp um Anton (Björn Hlynur Haraldsson) og faðma hann, en jafnharðan renna niður líkama hans þar sem hann faðmaði hana ekki á móti. Tilkomumikið var einnig að sjá leikhópinn mynda keðju og halda Öldu fanginni svo hún gæti ekki hlaupið til Antons. Skak erlendra bólfélaga Öldu var skemmtilega framkvæmt af Oddi Júlíussyni. Samtal og sviðshreyfingar systranna Öldu og Ölmu (Edda Arnljótsdóttir) og Siggu (Snæfríður Ingvarsdóttir), dóttur Ölmu, um brjóstakrabbamein Ölmu voru afar fallega útfærðar.


Nína Dögg Filippusdóttir ber sýninguna uppi í hlutverki Öldu og gerir margt mjög vel. Gleði hennar eftir fyrsta ástarfund þeirra Antons er fölskvalaus og lostinn skýr. Að sama skapi tekst henni vel að miðla örvæntingu Öldu og sorg eftir að sambandinu lýkur – og þar er stígandin góð. Í ljósi þess að Anton er stóra ástin í lífi Öldu og sá sem veldur hugsýki hennar sem á endanum leiðir til dauða hefði sennilega verið áhrifameira og skapað skýrari hvörf ef áhorfendur hefðu fengið að upplifa Öldu yfirvegaðri, án þess þó að vera kaldlynd eða tilgerðarleg, í upphafi sýningarinnar.

Björn Hlynur Haraldsson og Nína Dögg Filippusdóttir sem Anton og …
Björn Hlynur Haraldsson og Nína Dögg Filippusdóttir sem Anton og Alda. Steve Lorenz


Björn Hlynur Haraldsson hefur góða nærveru á sviðinu í hlutverki Antons, en líður óneitanlega fyrir það úr hversu litlu hann hefur að moða til persónusköpunar. Farin er sú leið í handritinu að auka vægi stjórnmálavafsturs Antons sem í samhenginu virðist að nokkru útskýra hvers vegna hann hafnar ástkonu sinni og leynimakkinu,“ stendur í dómnum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant