Dansað við djöfulinn

Ricky Gervais fór á kostum í Eldborg.
Ricky Gervais fór á kostum í Eldborg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Pungsig, Hitler, transfólk, barnaníð, nauðganir, fæðuofnæmi, simpansar, flugslys, vöggudauði, bókstafstrúarmenn og kynþáttafordómar var meðal þess sem enski grínistinn, uppistandarinn, leikarinn og gamanþáttahöfundurinn Ricky Gervais tók fyrir í bleksvörtu uppistandi sínu Humanity í Eldborg í liðinni viku, 20. og 21. april sl. Gervais skaust upp á stjörnuhimininn með gamanþáttum sínum The Office og hefur notið mikilla vinsælda æ síðan, m.a. sem kynnir Golden Globes-verðlaunanna í Bandaríkjunum þar sem kolsvart spaug hans á kostnað viðstaddra, fræga fólksins í Hollywood, hefur vakið athygli og farið mjög fyrir brjóstið á viðkvæmum. Á tímum samfélagsmiðla á borð við Twitter þarf lítið til að allt ætli um koll að keyra þegar spaugið verður hvað svartast og hneykslunargjarnir ausi úr skálum reiði sinnar yfir því hversu óforskammaður Gervais geti verið. Og eins og púkinn á fjósbitanum fitnar Gervais af slíku mótlæti, þeir sem hvað mest æsa sig virðast ekki átta sig á því að ummæli þeirra eru ekkert annað en olía á eld þessa óttalausa grínista.

Gervais varð tíðrætt í uppistandinu um þessa gerð netverja, þessa boðbera réttlætisins og sjálfskipuðu æðstupresta þegar kemur að því að ákveða að hverju megi gera grín og hverju ekki. Vísaði hann m.a. í Twitter-skrif manns frá Texas, sem hann sagði kristilegan bókstafstrúarmann, þess efnis að vísindin gætu ekki bjargað Gervais frá því að Satan nauðgaði honum í helvíti og þegar þar að kæmi myndi hann fylgjast hlæjandi með. Allt var það skrifað með hástöfum, að sjálfsögðu. Gervais lék þennan skelfilega atburð í neðra með tilþrifum og henti gaman að því að ef kristilegi bókstafstrúarmaðurinn yrði viðstaddur hefði líklega eitthvað klikkað hjá honum sjálfum og að Satan yrði líklegri til að hafa áhuga á honum en trúlausum, enskum grínista. Eldborgargestir grétu af hlátri, á kostnað hins ráðvillta Texasbúa.

Þó að yfirskrift uppistandsins sé Humanity, sem getur allt í senn þýtt mannkynið, mannlegt eðli eða manngæska, fór Gervais um víðan völl og rakti ekki sögu mannkyns frá upphafi til vorra tíma, eins og búast hefði mátt við, þó vissulega hafi hann tæpt á ýmsu er varðar þá sögu, m.a. að svo virtist sem heimur versnandi færi. Því til dæmis vissi fólk ekki lengur hver væri barnaníðingur og hver ekki, í gamla daga hafi auðveldlega verið hægt að koma auga á slíka náunga en með tilkomu Michael Jackson hefði það allt saman gjörbreyst.

Oft var Gervais á persónulegum nótum, sagði m.a. frá því að hann og systkini hans hefðu hrekkt prest sem sá um útför móður þeirra og frá baráttu sinni við aukakílóin sem hann væri búinn að tapa. Þá bölvaði hann lýsingu í lyftum sem er víst til þess gerð að afhjúpa hversu þunnhærður grínistinn er orðinn. Í framhaldi af því átti Gervais frábæran sprett í lýsingum á hárkollu gamals frænda síns sem var sköllóttur en fyrir kraftaverk birtist hann dag einn með fagursvartan makka í anda Elvis Presley. Þá fór Gervais líka á kostum þegar hann lýsti því hvernig pungurinn á honum hefur sigið með hverju árinu, flýtur nú upp á yfirborðið eins og björgunarbátur þegar hann fer í bað. Limurinn liggur makindalega í þeirri sæng og telur Gervais að stellið allt sé heldur ólíklegt til að enda á sýningu hins furðulega, íslenska reðasafns.

Gervais virðist þeirrar skoðunar að ekkert sé heilagt þegar kemur að uppistandi, að engin séu tabúin. Fólk sem er á annarri skoðun virðist fara óskaplega í taugarnar á honum því hann varði góðum tíma í að úthúða því og benti á að þó hann segði brandara þar sem nauðgun kæmi við sögu væri hann ekki að lýsa yfir stuðningi við nauðgara. Nefndi hann í þessu sambandi konu sem skammaði hann fyrir að gera grín að alvarlegu fæðuofnæmi og sagði að það mætti hann alls ekki gera. Nú, ég má gera grín að Helförinni en ekki fæðuofnæmi? segist Gervais hafa svarað þessum Twitter-skömmum og fengið það svar að börn hefðu a.m.k. ekki dáið í Helförinni (!). „Meðalmanneskjan er heimskingi,“ sagði Gervais og benti því til sönnunar á úrsögn Breta úr Evrópusambandinu en sú niðurstaða fékkst með þjóðaratkvæðagreiðslu. „Tökum miðann af klórflöskum sem á stendur að ekki megi drekka innihaldið, bíðum í tvö ár og kjósum svo aftur,“ sagði Gervais og uppskar mikinn hlátur og lófatak.

Hvar liggja mörkin?

Eins og sjá má af ofansögðu er uppistand Gervais ekki fyrir viðkvæma og fjallar að stóru leyti um eðli skopskyns og að hverju megi hlæja og hverju ekki. Uppistandsgestir eru auðvitað hinn endanlegi mælikvarði á það og ef þeir hlæja hljóta þeir að gefa um leið samþykki sitt fyrir því að gert sé grín að tilteknu efni, t.d. transfólki en Gervais gerði stólpagrín að Caitlyn Jenner sem áður hét Bruce Jenner. „Ef ég segist vera simpansi þá er ég simpansi,“ sagði Gervais og lék simpansa með tilþrifum. Ég efast um að þeir sem gengist hafa undir kynleiðréttingu eða aðstandendur þeirra geti hlegið að slíku gríni. Eða hvað? Auðvitað er hægt að gera grín að kynleiðréttingu eins og öllu öðru, en spurningin er hvar siðferðismörkin liggja. Gervais ítrekaði að hann væri ekki haldinn fordómum í garð transfólks og gestir Eldborgar virtust taka það gott og gilt og skellihlógu.

Í einstaka tilfellum gat ég ekki hlegið að gamanmálum Gervais, t.d. þegar hann gerði grín að vöggudauða en ég geri mér grein fyrir því að skopskyn er flókið fyrirbæri og persónulegt. Hvað er fyndið og hvað ekki? Það er stóra spurningin sem grínistinn þarf að svara og hann stendur og fellur með svarinu. Þegar djöfullinn býður þér upp í dans er valið þitt, að stíga dans eða sitja hjá.

Á heildina litið var Gervais frábær þetta kvöld, öruggur á sviði og mun öruggari en grínistinn sem hitaði upp fyrir hann, Sean McLoughlin, sem þó var oft bráðfyndinn en hafði fullmiklar áhyggjur af viðtökum gesta. Grínið hjá Gervais er vissulega ekki allra en þeir sem kunna að meta bleksvart spaug fá það varla svartara. Og Gervais er meðvitaður um eigið ágæti, frægð og ríkidæmi, sagðist hæglega geta brennt Hörpu til grunna sér til skemmtunar og líkti vinsældum sínum við vinsældir Jesú Krists. „En ég er betri en Jesús því ég er, ólíkt honum, mættur á svæðið!“ sagði hann og ískraði af hlátri yfir eigin fyndni. Þeir sem hlógu ekki með honum hefðu betur heima setið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson