„Ég hef fullt frelsi“

Hildigunnur Birgisdóttir myndlistarkona í i8.
Hildigunnur Birgisdóttir myndlistarkona í i8. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er að setja upp listaverk sem ég hef flokkað í þessa sex flokka. Þetta er samansafn verka: koparverk, postulín, hér er sería af prentverkum, einskonar „montage“-skúlptúrar sem hanga á vegg og svo veggfóður,“ segir Hildigunnur Birgisdóttir myndlistarkona. Hún hefur bæst í hóp listamanna i8 gallerís við Tryggvagötu og er hún hér að lýsa verkunum á fyrstu einkasýningu sinni þar en hún verður opnuð klukkan 17 í dag, fimmtudag.

Sýninguna kallar Hildigunnur a) b) c) d) e) & f) og eru það flokkarnir sex sem hún nefnir.

Hildigunnur útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003. Hún hefur síðan verið ötul á sýningarvettvangi og haldið nokkrar einkasýningar og átt verk á fjölda samsýninga en verk hennar hafa meðal annars verið sýnd í Listasafni Reykjavíkur, Kling & Bang, Nýlistasafninu og Annaellegallery í Stokkhólmi.

Manneskjan miðpunktur

Í verkum sínum hefur Hildigunnur iðulega rannsakað flókin kerfi með notkun hrekklausra eða jafnvel barnslegra tenginga. Hún er sögð leika sér með spennuna sem myndast getur milli þarfar mannanna til að útbúa óhlutbundin þekkingarkerfi og líkamlegra þolmarka skynkerfa okkar. Verk hennar afhjúpa annmarka, sérvisku og fjarstæðukennd atriði sem finna má í skörun á milli hugsjónar og mannlegra skilningskerfa.

Í verkum sínum fæst Hildigunnur yfirleitt við umhverfi okkar og daglegan veruleika en hvað ræður því í hvaða efni hugmyndin leitar?

„Oft er ég að kljást við svipaðar spurningar og eins og venjulega er ég hér á þessari sýningu að velta fyrir mér þessum kerfum sem við búum í og búum okkur til og þykjumst þekkja allt í kringum okkur,“ svarar hún og bætir við að sér þyki þessi kerfi jafn áhugaverð og sér finnist þau „próblematísk!“ „Þetta er stöðugur efniviður fyrir mig en svo opnast einhver glufa og út sprautast hugmynd sem tekur á sig form. Formið kallar á ákveðinn efnivið. Nú er ég til að mynda með lágmyndir hér, sem eru postulínsverkin og eru afsteypur af umbúðum. Þau verk fjalla um verðgildi og í raun hagkerfið og allt fjármálakerfið okkar, ein lítil lágmynd getur fjallað um það meðan önnur verk fjalla um fræðasamfélagið og það kerfi allt saman, en alltaf er manneskjan miðpunktur – enda getur hún ekki verið neitt annað. Og verkin byggjast einnig á óraunsærri löngun minni til að ná öðruvísi sjónarhorni á þessi fyrirbæri.“

Leikir afbökuð abstraksjón

– Er það þá áskorunin að finna

þessi óvæntu sjónarhorn?

„Já, að opna, víkka, reyna. Stundum má gera það með því að benda á eitthvað, á mistök, á kerfisvillur. Eða bara að sjá kerfið eins og það er. Og kerfisleysur...“

– Það er iðulega mikill leikur í verkunum þínum.

„Algjörlega. Leikir eru afbökuð, einfölduð abstraksjón á þessu kerfi sem við köllum líf. Sumt fólk lifir lífinu sínu eftir sveiflum pendúls, spyr pendúlinn hvort það eigi að kaupa sér íbúð...“

– Sem listamaður sem kannar kerfin þá hefur þú annað frelsi til að kanna þau en til að mynda fræðimaður.

„Það er satt. Fræðimaður þarf að treysta á kerfi, annars væri ekki samræmi innan niðurstaðnanna, en ég bið ekki um neinar niðurstöður heldur um betra sjónarhorn, um eitthvað meira, eitthvað nýtt, einhverja útvíkkun eða... Ég vil sjá en ekki bara horfa, að þekkja eitthvað í fyrsta skipti, það er gaman. Ég er ekki fræðimaður og þarf því ekki að fara kerfisbundið í neinar rannsóknir og get líka leyft mér að láta eins og prufumaskínan í IKEA sem juðast á stól þar til hann gefur sig. Ég get leyft mér að dvelja við ómerkilega hluti sem koma svo til með að skipta öllu máli á endanum. Ég hef fullt frelsi í mínum verkum,“ segir Hildigunnur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson