Coachella-hátíðin tekin út

Metnaður er lagður í að láta taka góðar myndir af …
Metnaður er lagður í að láta taka góðar myndir af sér á Coachella. Setningin „Hey, taktu mynd af mér þegar ég er á háhesti að klappa,“ heyrðist. Hallur Már

Coachella-tónlistarhátíðin sem haldin er í samnefndum eyðimerkurdal í Kaliforníu skammt frá Palm Springs hefur öðlast sérstakan sess í tónlistarheiminum á undanförnum áratug. Á hverju ári koma þar fram tónlistarmenn í fremstu röð, hvort sem um er að ræða popp eða skrýtnari og listrænni tegundir tónlistar. Nálægðin við Los Angeles, hjarta skemmtanabransans, nokkur af dýrustu og ríkustu hverfum Bandaríkjanna og alla dýnamíkina sem er að finna í Kaliforníu, sveipar hátíðina miklum dýrðarljóma.

Ég fór sem sagt á fyrri hátíðina um daginn um páskahelgina 14.-16. apríl. Nú þegar WOW er farið að bjóða upp á beint flug til Kaliforníu er lítið mál að skella sér á hátíðina og þegar ferðin til sólskinsríkisins var í kortunum var allt sett á fullt til að græja miða á hátíðina.

Parísarhjólið setur skemmtilegan svip á hátíðina.
Parísarhjólið setur skemmtilegan svip á hátíðina. mbl.is/Hallur Már

Instagram-hátíðin

Flestir sem fylgjast með tónlist hafa séð ógrynni af myndum á samfélagsmiðlum þar sem hin margrómaða og hlýja kaliforníska birta lýsir upp sólbrúnt, léttklætt og fallegt fólk í góðu stuði. Skipuleggjendur hátíðarinnar vita alveg hvað þeir eru að gera með því að nýta sjálfhverfu unglinga í Kaliforníu, sem að því er virðist er ótakmörkuð auðlind, til að selja hátíðina.

Frá árinu 2012 hefur hátíðin verið haldin tvær helgar í röð í apríl með sömu dagskrá og á þessum tveimur hátíðum sem voru haldnar nú í mánuðinum voru settar inn ríflega 250 þúsund Instagram-færslur með myllumerkinu #coachella2017 og um þrjár milljónir færslna hafa verið settar inn með merkinu #coachella. Um 125 þúsund miðar voru í boði á hvora hátíð og talið er að veltan í kringum allt saman sé í kringum 700 milljónir dollara. Stærstu nöfnin sem komu fram á hátíðinni í ár voru Radiohead, Lady GaGa og Kendrick Lamar og fengu þau um 3-4 milljónir dollara í vasann fyrir vikið.

Hópur dansara framkvæmdi gjörning í stóru glerbúri á sviðinu fyrir …
Hópur dansara framkvæmdi gjörning í stóru glerbúri á sviðinu fyrir ofan Lorde. Hallur Már

Nú eru eflaust einhverjir lesendur að klóra sér í kollinum yfir því af hverju sé verið að eyða öllu þessu dýrmæta plássi í að tala um praktíska hluti í stað þess að tala um tónlistina og stemninguna. Það er það sem tónlistarhátíðir snúast um, ekki satt? Málið er bara ekki alveg svo einfalt. Eftir að hafa farið á ógrynni tónlistarhátíða hef ég hvergi fundið það jafnsterkt að tónlistarbransinn er nú að miklu leyti orðinn að upplifunarbransa. Verðmæti tónlistar hafa minnkað en verð á eftirsóknarverða tónleika hefur hækkað. Fólk vill vera á staðnum og upplifa hlutina, hvað væru gamlir rokkarar til í að borga fyrir að geta sagst hafa verið á Woodstock?

Eina prósentið tekið á teppið

Auk stærstu nafnanna (fyrir utan Lady Gaga, hrikaleg skipti fyrir Beyoncé) var margt flott í boði: Thundercat, Father John Misty, Nicolas Jaar og Mac DeMarco svo eitthvað sé nefnt. Sem gamalreyndur (áhersla á gamall þarna) tónlistarunnandi og gestur á hátíðum ákváðum við Elva Rósa mín að velja orrustur okkar vandlega í þetta skiptið til að eiga orku í það sem skipti máli. Father John Misty, eða Josh Tillman eins og hann heitir réttu nafni, var nýbyrjaður að messa á sviðinu þegar tekið var að rökkva á föstudagskvöldinu. Það var engin venjuleg messa: Pure Comedy – þvílíkt lag, sannkallað rothögg fyrir samtímann. Trú, Trump og mannlegt ástand dregið sundur og saman í háði.

Það var tilkomumikið að ganga inn á svæðið í fyrsta sinn, skjáirnir sem voru beggja vegna stærsta sviðsins voru lygilega stórir, nánast á stærð við handboltavöll. Myndin var afar tær og maður gat talið fyllingarnar í tönnunum í Tillman. Kaldhæðnin sem fólst í því að heyra Tillman þruma yfir fólkinu „...all of the pretentious, ignorant voices that will go unchecked. The homophobes, hipsters, and 1%“ hefur líklega ekki verið öllum ljós. Hann var studdur af fjölmennri hljómsveit sem innihélt bæði strengi og brass og ég ætlaði varla að trúa því hversu vel allt hljómaði. Langbesta hljóð á tónlistarhátið sem ég hef upplifað.

Stund milli stríða. Aldrei hef ég komið á útihátíð sem …
Stund milli stríða. Aldrei hef ég komið á útihátíð sem fór jafn-vel fram. Þessi þreytti kútur var það svæsnasta sem ég sá á hátíðinni. mbl.is/Hallur Már

Fyrstu kynnin af Coachella voru því afar góð. Merkilegt var að ráfa um svæðið og skoða fólkið sem margt var klætt (eða raunar ekki klætt) eins og á Copacabana-ströndinni í Ríó. Allt fór þó vel fram og lítil ölvun var sjáanleg enda einungis leyft að drekka áfengi á afmörkuðum svæðum. Manni varð hugsað til íslenskra útihátíða, hvað myndi gerast á stærstu útihátíðum landsins ef stelpur væru bara í G-strengsbikiníi? Það er hugsun sem maður vill ekki hugsa til enda.

Tónleikar Radiohead voru endasleppir vegna hljóðvandræða og maður sá hreinlega örvæntinguna í augum fólks þegar hljóðið datt algerlega út í „Ful Stop“ af A Moon Shaped Pool. Sveitin þurfti tvisvar að yfirgefa sviðið til að hægt væri að kippa hlutunum í lag. Þeir voru hins vegar greinilega slegnir út af laginu og náðu aldrei þeim hæðum sem þeir eru færir um að ná. Eins og þeir höfðu byrjað vel voru þetta mikil vonbrigði.

Thundercat er bassaséní og nýja platan hans er frábær. Að …
Thundercat er bassaséní og nýja platan hans er frábær. Að þetta hafi verið eitt af litlu sviðunum á hátíðinni segir eitt og annað um umfang hennar. mbl.is/Hallur Már

Eftir tónleikana tók við krefjandi verkefni sem fólst í að koma sér á hótelið í Palm Springs. Það er hægar sagt en gert þegar 125 þúsund manns eru í svipuðum hugleiðingum (einhverjir eru þó í tjöldum á svæðinu). Ég hafði keypt rútupassa sem gekk á milli tónleikasvæðisins og Palm Springs og gerði mér vonir um að það myndi ganga greiðar en að treysta á Uber. Það voru mistök. Rúmur klukkutími í biðröð í eyðimerkurkuldanum var ekki það sem ég þurfti á að halda eftir tónleikarápið. Rútan var fín til að komast á svæðið en ég mæli með Uber eða Lyft á heimleiðinni. 

Tónleikarápið

Kaleo-menn voru flottir á laugardeginum og eiga sér greinilega tryggan aðdáendahóp í Ameríkunni. Spilagleðin hjá bandinu er smitandi og Jökull er einstakur hæfileikamaður sem segir alla réttu hlutina á sviðinu. Þvílíkt ævintýri sem þeir eru að upplifa.  

Strákarnir í Kaleo eiga sér dyggan hóp aðdáenda í Bandaríkjunum.
Strákarnir í Kaleo eiga sér dyggan hóp aðdáenda í Bandaríkjunum. mbl.is/Hallur Már

Við fórum á Thundercat og Moderat sem báðir voru mjög flottir tónleikar. Samanburðurinn á tónleikum Moderat hér heima á Sónar á dögunum og á Coachella var sláandi. Hljómurinn var margfalt betri í eyðimörkinni. Bon Iver finnst mér einhver ofmetnasti tónlistarmaðurinn í bransanum og því kom mér á óvart að hafa gaman af fyrstu tveimur lögunum sem ég sá hjá honum. Það var þó skammgóður vermir því síðasta lagið sem hann flutti hefði líklega getað dregið lífsviljan úr heimsins kátasta hvolpi.

Kalifornía fer Kaleo vel. Strákarnir voru í frábæru formi.
Kalifornía fer Kaleo vel. Strákarnir voru í frábæru formi. mbl.is/Hallur Már

Minningin um Lady Gaga er blessunarlega ekki sterk eftir að hafa byrlað sjálfum mér magn af vodka í Red Bull sem er langt yfir ráðlögðum dagskammti. Justice voru flottir, svona eins gaman og hægt er að hafa af tveimur töffurum sem bogra yfir tölvum og tökkum. Hinn lífsglaði og geðþekki trommari Tommy Lee virtist alla vega skemmta sér vel við hliðina á mér með útvatnaðri útgáfu af Pamelu Anderson upp á arminn.

Kendrick Lamar sló upp mögnuðu sjónarspili. Í upphafi tónleikanna/sýningarinnar (ekkert band var sjáanlegt) og tvisvar á milli laga voru sýnd nokkurra mínútna myndskeið með honum í hlutverki Kung-Fu Kenny. Gallsúrt og skemmtilegt, „Kung-Fu Kenny Practices his mothafuckin' skills“. Grasmökkurinn á hátíðinni, sem hafði verið nokkuð þykkur til þessa, náði nú hámarki og það var gaman að sjá svarta rappara og tónlistarmenn spóka sig um svæðið með 15-20 manna fylgdarsveitum í pelsum og tilheyrandi blingi. 

Þessi mynd sýnir vel af hverju áhugi minn á Lady …
Þessi mynd sýnir vel af hverju áhugi minn á Lady Gaga-tónleikunum var lítill. Ljósmynd/AFP

Sjónræni þátturinn er ofboðslega stór hluti af upplifuninni. Skúlptúrar og ljósainnsetningar eru víða á svæðinu sem er flennistórt, ég missti töluna á hversu mörg sviðin og tjöldin voru, þá var mögnuð drónasýning þar sem hundruð dróna stigu samræmdan dans og skiptu ljósum á himninum, virkilega flott. Heilt yfir mjög skemmtilegt allt saman og mér tókst að sólbrenna ekki, það er varla hægt að biðja um meira í eyðimörkinni. Ég klikkaði samt á því að taka selfí.

Fólk grípur til ýmissa bragða til að fá athygli.
Fólk grípur til ýmissa bragða til að fá athygli. mbl.is/Hallur Már
Það var enginn vafi á því hver væri aðalnúmerið á …
Það var enginn vafi á því hver væri aðalnúmerið á Coachella. Öngþveiti myndaðist þegar Kendrick Lamar steig á svið og hann stóð fyllilega undir væntingum. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler