Má ekki ritskoða sig of mikið

Gísli Marteinn í blaðamannahöllinni í Kænugarði.
Gísli Marteinn í blaðamannahöllinni í Kænugarði. mbl.is/Auður

Sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson kynnir Eurovision í ár og gerir það í áttunda skiptið. Hann segir mikinn undirbúning felast í starfinu og að markmiðið sé að segja skemmtilega og sniðuga hluti án þess þó að særa neinn. Þó má ekki ritskoða sig of mikið.

Gísli var fyrst kynnir árið 1999 og svo aftur árin 2000, 2001, 2003, 2004 og 2005. Síðan kom hann ekki aftur í stöðuna fyrr en rúmum áratug síðar eða í fyrra og segir hann keppnina hafa breyst og stækkað mjög mikið á þeim tíma. Hann segir starfið mjög skemmtilegt.

„En það sem er kannski skrýtnast við þetta er að ég er minnst með íslenska hópnum af öllum í hópnum. Ég er bara svolítið einn á báti,“ útskýrir Gísli. „Ég horfi á allar æfingar en sé bara íslenska atriðið og hópinn þar sem ég sit uppi í rjáfri.“

Fer á allar æfingar

Gísli segist fara á allar æfingar bæði til þess að hlusta á lögin en líka til að reyna að sjá hvernig atriðin þróast á sviðinu. „Ég er svona að reyna að sjá hvað fólk er að vinna með og reyna að fá stöðugar hugmyndir um hvernig á að lýsa þessu. Ekki endilega að reyna að finna brandara, þó að maður reyni að hafa einn og einn þarna inni, en eitthvað sniðugt.  Ef eitthvað minnir á eitthvað sérstaklega íslenskt eða einhver er líkur Íslendingi eða tengist einhverjum heima er það alltaf gaman.“

Gísli er búinn að vera í Kænugarði frá fyrsta degi æfinga en segir það alls ekki þannig að allir kynnarnir komi á fyrsta degi eins og hann. „En þeir eru venjulega með aðstoðarmenn,“ útskýrir hann. „Ég sit til dæmis mjög mikið með tveimur stelpum frá BBC, hvorug er kynnir, þær sitja bara og skrifa brandara ofan í bresku kynnana.“

Hann segir nauðsynlegt að til þess að gera kynnastarfið vel þurfi að þekkja lagið strax og það byrjar, vita hvað höfundarnir heita og hvað flytjendurnir heita. „Mér finnst þetta voðalega skemmtilegt,“ segir Gísli.

Allt annað líf en í Kænugarði 2005

Keppnin í ár er haldin í Kænugarði og er þetta í annað skipti sem það gerist. Hún var fyrst haldin í borginni árið 2005 eftir að söngkonan Ruslana vann keppnina með lagið Wild Dances í keppninni 2004. Gísli segir hverja gestgjafaborg setja mark sitt á keppnina á hverju ári.

„Í fyrra í Stokkhólmi hafði ég náttúrulega ekki farið í áratug og fannst magnað að sjá hvað keppnin var orðin stór og fagmannleg. Svíarnir gerðu þetta náttúrulega svo fáránlega vel. Keppnin í ár er kannski líkari því sem ég man eftir fyrir um tíu árum síðan. Aðstaðan er ekki fullkomin og netið er alltaf að detta út. En þetta er hins vegar allt annað líf en í Kænugarði 2005, það var rosalegt,“ segir Gísli.

„Blaðamannahöllin var bara úti á bílaplani. Sem betur fer var gott veður en það var til dæmis ekkert gólf og þeir bara dældu bjór í blaðamennina til þess að hafa þá aðeins glaðari. En nú er mjög mikill munur, en aðallega á borginni sjálfri,“ segir Gísli. „Kænugarður var með alveg svakalega „sovéska timburmenn“ árið 2005, miklu meira en ég hafði haldið, en hefur hrist það mjög vel af sér á síðustu tíu árum og er alveg stórskemmtileg borg,“ segir Gísli og nefnir að mun fleiri tali ensku hérna nú en árið 2005.

Kænugarður er í Eurovision-skrúða þessa dagana. Gísli segir borgina hafa …
Kænugarður er í Eurovision-skrúða þessa dagana. Gísli segir borgina hafa breyst mjög mikið frá árinu 2005. AFP

Telur sirkusinn á leið til Mílanó eða Lissabon á næsta ári 

Nú liggur fyrir hvaða 26 lög það eru sem keppa í úrslitunum annað kvöld. En hver eru uppáhaldslög Gísla í ár?

„Ég ætla að segja Portúgal og Ítalía en þau eru bæði frábær. Ég er aðeins að reyna að greina í hausnum á mér hvað af því eru bara söngvararnir, þeir eru báðir alveg gríðarlega sjarmerandi flytjendur. Ég hef aldrei vaknað á morgnana með portúgalska lagið sönglandi í hausnum en ég elska flutninginn, hann er einn sá magnaðasti sem ég hef séð. Það verður eitthvað svakalegt þegar hann flytur það á laugardaginn,“ segir Gísli.

Portúgalinn Salvador Sobral flytur lagið Amar Pelos Dois og er …
Portúgalinn Salvador Sobral flytur lagið Amar Pelos Dois og er spáð mjög góðu gengi, jafnvel sigri. AFP

„Ítalski flytjandinn er með lag sem er auðvelt að syngja með og allir fara að dansa við það í partíinu og allur salurinn hér. Þetta er alveg ótrúlega vel hannað lag og ég held að sirkusinn sé að fara til Mílanó eða Lissabon á næsta ári. Sænska lagið er líka með þrusuflott atriði, ég var búinn að sjá myndband af atriðinu en það er miklu flottara og manni þykir meira til þess koma þegar maður sér það „live“.“

Gísli segir hópinn frá Svíþjóð geysilega vel æfðan. „Svo skemmir ekki fyrir að þeir hafa orðið mjög góðir vinir íslenska hópsins. Robin sem syngur er að vísu frekar feiminn en dansararnir fjórir eru allir frábærir og ótrúlega elskulegir. Þeir vilja allir koma til Íslands og dýrkuðu lagið hennar Svölu.“

Hann heldur þó að það séu mjög miklar líkur á því að Ítalinn vinni. „Ég held að enginn mannlegur máttur geti komið í veg fyrir það,“ segir hann en laginu hefur verið spáð sigri í veðbönkum eiginlega alveg frá því að framlagið var fyrst kynnt opinberlega. „Hann er það mikill forystusauður að fólk reynir að gera þetta spennandi með því að tala önnur lög upp. En hann mun koma á sviðið á laugardaginn og negla þetta.“

Ítalski söngvarinn Francesco Gabbani ásamt apanum.
Ítalski söngvarinn Francesco Gabbani ásamt apanum. AFP

Maður í apabúningi sem dansar á sviði Ítala í ár hefur vakið athygli og segir Gísli að hann muni eflaust hjálpa til. „En þeim er mikið í mun að útskýra að apinn er ekki bara eitthvert bragð heldur skilaboð um að við séum í raun apar og megum alltaf muna það,“ segir hann og bætir við að það sé heilmikil ádeila í laginu, sem heitir á góðri íslensku „vestræna karmað“ eða Occidentali's Karma á ítölsku.  

Gísli segir að það sé hugsun í laginu og að flytjandinn, Francesco Gabbani, sé fyrst og fremst mjög góður tónlistarmaður. „Hann veit alveg hvað hann er að gera og hann er með glampa í augunum sem er skemmtilegur.“

Gagnrýndur fyrir að halda of mikið með Íslandi

Gísli segist vona að hann snúi aftur í kynnastöðuna að ári enda er hann mikill Eurovision-áhugamaður. „Ég var það ekkert fyrst þegar ég fór 1999. Þá var ég fréttamaður í erlendum fréttum en það vantaði einhvern til að fara. Ég er vinur Selmu og hafði verið að skrifa einhverjar fréttir um lagið og var beðinn um að fara. Þá var keppnin mun minni en núna og það var hreint ekki eftirsótt að sinna þessari stöðu.“

Eins og margir muna hafnaði Selma Björnsdóttir með lagið All out of Luck í öðru sæti keppninnar árið 1999. Þá fékk Gísli þó nokkuð áhugaverða gagnrýni frá áhorfendum.

„Ég var gagnrýndur í Velvakanda, þess tíma virkum í athugasemdum, um að hafa haldið of mikið með Íslandi. Það komu greinar þar sem það var kvartað yfir því að ég hafi ekki verið hlutlaus. Ég man svo vel eftir þessu því mér fannst þetta svo fáránlegt. Núna hefur þetta þróast út í að kynnarnir hafa meiri skoðanir og leyfa sér aðeins meira. Kynnirinn er eiginlega bara orðin ein vídd í þessari keppni sem kemur með upplýsingar og kannski góðlátlegt grín að keppendum. Þeir gera ekkert til að hafa áhrif á hvernig menn velja sín uppáhaldslög,“ segir Gísli. „1999 var þetta næstum því eins og að lesa upp tölur á kjördag, núna er þetta skemmtileg greining á stöðunni.“

En ertu með bremsu?

„Já ég er með heilmikla bremsu,“ segir Gísli. „Markmiðið er að segja ekkert sem særir þann sem maður er að tala um eða þá sem eru heima án þess að vera of sótthreinsaður því þá er ekkert gaman. Maður reynir að rata í meðalhóf því það er ekkert gaman ef enginn væri móðgaður því þá hefur maður ritskoðað sig aðeins of mikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson