Koma saman og verða ein fígúra

Hljómsveitin Vök, frá vinstri Einar Stefánsson, Andri Már Enoksson, Margrét …
Hljómsveitin Vök, frá vinstri Einar Stefánsson, Andri Már Enoksson, Margrét Rán Magnúsdóttir og Ólafur Alexander Ólafsson. Ljósmynd/Sigga Ella

Hljómsveitin Vök gaf nýlega út sína fyrstu breiðskífu. Platan heitir Figure og inniheldur tíu ný lög með sveitinni. Sveitin fylgir nú plötunni eftir með fjögurra vikna tónleikaferðalagi um Evrópu, en blaðamaður Morgunblaðsins heyrði í Einari Stefánssyni, trommuleikara sveitarinnar, þegar hljómsveitarmeðlimir ferðuðust frá Sviss til Parísar í Frakklandi, þar sem næstu tónleikar voru á dagskrá.

„Platan heitir eftir þriðja laginu á henni. Okkur fannst það vel við hæfi fyrir plötuna, því við erum fjögur í hljómsveitinni sem komum saman og myndum eina fígúru: Hljómsveitina Vök,“ segir Einar þegar hann er spurður út í nafnið á plötunni. (Hann bætir því við að nafnið sé líka viðeigandi vegna þess að mikið af innihaldi plötunnar fjallar um það hvernig ein manneskja getur verið mismunandi fígúra, einstaklingur á ólíkan máta.)

„Þemað sem við vorum að vinna með á plötunni er tölvan vs. manneskjan. Þetta er elektrónískt verkefni en við vildum samt hafa þetta aðeins minna tölvugert. Þetta er því eins konar „clash“ á milli tölvunnar og heilans,“ segir Einar.

Mikil keyrsla

Aðspurður hvað sveitin sé búin að vera að gera síðan hún vann Músíktilraunir árið 2013 segir hann að þau séu búin að gefa út tvær stuttskífur, auk þess sem þau hafa verið að spila mikið erlendis.

„Við byrjuðum svo að taka upp Figure síðasta sumar. Það var ferli sem tók sinn tíma. Við spiluðum á Iceland Airwaves síðasta haust en tókum því annars frekar rólega seinni part síðasta árs. Við bara kláruðum plötuna og erum að fylgja henni eftir núna,“ segir Einar.

Að sögn Einars er sveitin nú þegar búin að spila í Hollandi, Þýskalandi, Belgíu, Lúxemborg, Póllandi, Tékklandi og Sviss. Eins og áður sagði voru Einar og félagar á leið til Parísar þegar blaðamaður heyrði í honum, og segir hann að svo séu þrennir tónleikar í Bretlandi næst á dagskrá.

„Við erum að spila ágætlega þétt. Reyndar fengum við nokkra frídaga í Berlín en annars hafa þessar síðustu tvær vikur verið mikil keyrsla,“ segir Einar um tónleikaferðalagið.

Skemmtilegast í Póllandi

Spurður að því hvar hafi verið skemmtilegast að spila hingað til segir hann Pólland hafa verið mjög gott við þau. „Við erum búin að koma á fót smá „fan-base“ þar. Við fáum mikil viðbrögð frá áhorfendum okkar þar. Tékkland var líka mjög gott og svo er Þýskaland alltaf solid, þar er sterkur hópur og við sjáum mikið af fólki sem hefur komið á tónleika hjá okkur áður. Það er mjög ánægjulegt,“ segir Einar.

Að sögn Einars hefur verið mjög góð mæting á tónleikana, en það hefur selst upp á ferna eða fimm tónleika. Hann segir að í Póllandi hafi verið uppselt á nánast alla tónleikana.

„Einu tónleikarnir sem ekki var góð mæting á voru í Gröningen í Hollandi. Þá var okkur sagt að þjóðhátíðardagur Hollendinga hefði verið daginn eftir tónleikana. Líklega voru bara allir að djamma og undirbúa sig fyrir einhver hátíðlegheit,“ segir Einar léttur í bragði.

Forréttindi að vera Íslendingur

Spurður að því hvort hljómsveitin finni fyrir auknum áhuga á íslenskri tónlist erlendis svarar hann játandi og segir hljómsveitina fá talsverða athygli út á það að vera frá Íslandi. Hann telur það þó ekki einungis vera af jákvæðum toga. „Stundum viljum við bara að fólk fíli okkur fyrir tónlistina sem við gerum en ekki bara fyrir landið sem við komum frá,“ segir Einar. Hann segist þó gera sér grein fyrir því að það séu forréttindi að vera íslenskur tónlistarmaður í dag og segir sveitina ekki taka því sem sjálfsögðum hlut.

Hljómsveitin mun enda tónleikaferðalagið sitt í Gamla Bíói þann 8. júní. Einar lofar flottustu tónleikum sem sveitin hefur haldið og segir að allt muni verða alveg „tip-top“. Hann segir umfangið verða mun meira en þau eru vön, það verði meðal annars aukamanneskjur með þeim á sviðinu auk rosalegrar ljósasýningar.

„Okkur finnst við ekki búin að vera nógu dugleg að spila heima á Íslandi og okkur langar mikið að vera duglegri að halda tónleika fyrir landsmenn,“ segir Einar að lokum.

Umslag plötunnar Figure.
Umslag plötunnar Figure.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson