Sérvitringurinn í Seyðtúni

Eitt af fjölmörgum málverkum Kristins Péturssonar.
Eitt af fjölmörgum málverkum Kristins Péturssonar.

Viktor Sveinsson segir að það væri of djúpt tekið í árinni að segja að samtíminn sé búinn að gleyma listamanninum Kristni Péturssyni. „En nafn hans er lítt þekkt í dag, þó alltaf hafi verið til listunnendur og sérvitringar sem hafa haft áhuga á honum, og margir sem leggja sig fram við að safna verkum eftir hann.“

Viktor vinnur að útgáfu þriggja handrita sem Kristinn skrifaði, þar sem hann lýsir lífshlaupi sínu og sýn á listina, tilveruna og samfélagið. Kristinn lést árið 1981, kominn á níræðisaldur, og hafði þá verið í sjálfskipaðri útlegð frá íslenska listasamfélaginu í um það bil þrjá áratugi. Var Kristinn ekki eins og fólk er flest, átti erfiða barnæsku, eldaði grátt silfur við marga samtímamenn sína en var líka á margan hátt einstakur listamaður.

Níðst á veiku barni

Kristinn fæddist á Vestfjörðum. „Hann missir foreldra sína mjög ungur, og skrifar um það að hann muni varla eftir þeim. Var Kristni komið fyrir á bæ í Dýrafirði og hefur sjálfsagt verið eins konar niðursetningur. Honum var búin ömurleg vist og pískað út þrátt fyrir að glíma við mikil veikindi. Heimilismenn á bænum spöruðu við hann lyf og læknismeðferðir, og er nánast búið að drepa Kristin í hálfgerðum þrældómi,“ segir Viktor.

Þrátt fyrir þessa skelfilegu byrjun í lífinu tekst Kristni að mennta sig og er hann sendur til Reykjavíkur í kennaranám. Kemst hann síðan út til Evrópu í listnám. „Þeir virðast fatta það, kennararnir og hreppstjórarnir að Kristinn lærir allt sem hann les, og því fær hann stuðning til að fara í bæinn. Kristinn skrifar ekki um það hvernig hann fjármagnaði Evrópudvölina, og kannski örlar þar á einhverju vanþakklæti hjá honum. Eru til sögur um það að fóstri Kristins, sem fór svona illa með hann í barnæsku, hafi stutt hann með því að vinna verkamannavinnu á Ísafirði og senda alla peningana út, en í skrifum sínum víkur Kristinn aldrei góðu orði að fóstra sínum, og reiðin og beiskjan er greinileg þegar hann lýsir uppvaxtarárunum.“

Listnámið stundaði Kristinn í Noregi og er síðan á flakki um álfuna á millistríðsárunum. Segir Viktor að ekki sé ólíklegt að á ferðum sínum hafi Kristinn hreinlega búið á götunni. „Það var mjög óvanalegt að menn með sama sem ekkert bakland gætu farið í nám erlendis og verið þar árum saman, og af skrifum hans er ómögulegt að skilja á hverju Kristinn lifði. Seinna skrifaði Björn Th. Björnsson um námsár Kristins, og hvað hann var fátækur á þeim tíma. Kristinn varð æfur yfir þessu, og leiddi fram vitni í grein sem hann lét birta í Morgunblaðinu, til að reyna að hrekja ásakanir Björns.“

Sennilega hefur Kristinn náð að vinna eitthvað fyrir sér með listinni á meðan hann skoðaði álfuna og þræddi þar listasöfnin. „Hann varð fljótlega mjög flinkur í að gera brjóstmyndir og fær nokkrar pantanir til að gera myndir af ýmsum fyrirmennum,“ segir Viktor.

Myndin er tekin á vinnustofu nemenda í Noregi. Kristinn beygir …
Myndin er tekin á vinnustofu nemenda í Noregi. Kristinn beygir sig niður á miðju ljósmyndarinnar.

Hamingjusamur í útlegð

Kristinn snýr aftur til Íslands skömmu eftir að kreppan mikla skellur á og árið 1941 flytur hann til Hveragerðis í hús sem hann sjálfur hannaði, þar sem bæði var vinnustofa, sýningarrými og íbúð. „Þar heldur hann sína hinstu listaverkasýningu 1954 en lokar sig svo af frá íslenska listaheiminum. Kristinn heldur áfram að sinna sinni list, en var ekki lengur hluti af samfélagi listamanna,“ segir Viktor og bætir við að Kristni hafi greinilega liðið ágætlega í þessari sjálfskipuðu útlegð frá listasenunni. „Ef marka má skrif hans sjálfs var Kristinn sennilega hamingjusamastur á þessum árum, og er frjór og skapandi allt undir það síðasta.“

Kristinn var ekki eini listamaðurinn sem settist að í Hveragerði á þessum tíma og segir Viktor að á árunum 1940 til 1960 hafi bærinn orðið hálfgerð listamannanýlenda. Þar bjuggu m.a. Kristmann Guðmundsson, Gunnar Benediktsson, Ríkharður Jónsson, Jóhannes úr Kötlum og Elías Mar. Helsta skýringin á vinsældum bæjarins meðal listamanna segir Viktor að hafi væntanlega verið lágur húshitunarkostnaður. „Í Reykjavík þurfti að hita húsin með kolum, en þau voru dýr. Í Hveragerði var hins vegar hægt að setja rör út í næsta hver og kynda þannig.“

Eins og ævi Kristins hafi ekki verið nægilega átakanleg, þá varð mikið menningarslys eftir að hann lést. „Allt sem var á pappír og striga var ánafnað listasafni ASÍ, en eftir urðu alls skonar skúlptúrar sem var öllum fargað. Bæði sem málari og skúlptúrlistamaður var Kristinn ekki samstiga samtímamönnum sínum, og gerði hann m.a. skúlptúra úr efnum sem á þeim tíma þóttu ekki nægilega fín til að geta kallast list, s.s. spónaplötum, og jafnvel pappa. Allt hvarf þetta, og ekki einu sinni vitað hver henti þessum verkum og hvar.“

Segir Viktor tímabært að bæta upp fyrir það tómlæti sem Kristni var sýnt. „Ég vil alls ekki meina að hann hafi verið vanmetinn og ómetanlegur snillingur, en hann átti merkilegt líffshlaup og bjó yfir áhugaverðum hugmyndum. Hann varð fyrir miklu mótlæti, en var líka uppsigað við flesta. Alla tíð hafði Kristinn óbilandi – og kannski of mikla – trú á sjálfum sér, og lét mótlætið aldrei stöðva sig, var eilíflega ungur í anda og sífelt að prufa eitthvað nýtt.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant