Talsvert þroskaðri menn

Ham 2017. Frá vinstri Flosi Þorgeirsson, S. Björn Blöndal, Sigurjón …
Ham 2017. Frá vinstri Flosi Þorgeirsson, S. Björn Blöndal, Sigurjón Kjartansson, Arnar Geir Ómarsson og Óttarr Proppé. Ljósmynd/Marino Thorlacius

Rokksveitin Ham sendir á morgun frá sér sína þriðju hljóðverðsplötu, Söngvar um helvíti mannanna en það er hljómplötuútgáfan Sticky sem gefur hana út. Ham heldur upp á útgáfuna með tónleikum á Húrra annað kvöld og föstudagskvöld kl. 21 og á Græna hattinum á Akureyri 7. júlí kl. 22 en á föstudaginn, 23. júní kl. 17, munu Ham-liðar mæta í plötuverslunina Lucky Records við Rauðarárstíg og árita gripinn og verða léttar veitingar í boði á meðan birgðir endast.

Á plötunni eru 10 lög og nokkur þeirra þegar orðin Ham-smellir og má þar nefna „Vestur-Berlín“ og „Þú lýgur“. Sex ár eru liðin frá því síðasta skífa, Svik, harmur og dauði, kom út og hlaut lofsamlega dóma, m.a. fullt hús stiga í Morgunblaðinu.

Sex ár eru dágóður tími milli platna en Ham er ekkert að flýta sér, eins og blaðamaður kemst að í spjalli á Hótel Holti við Sigurjón Kjartansson, gítarleikara, söngvara og lagasmið sveitarinnar, og bassaleikarann S. Björn Blöndal en auk þeirra skipa sveitina Arnar Geir Ómarsson trommuleikari, Óttarr Proppé, söngvari og textasmiður og Flosi Þorgeirsson gítarleikari.

Lítið fyrir nýjungar

„Já, já, við erum ekkert voða mikið fyrir nýjungar,“ segir Sigurjón þegar blaðamaður segir plötunni svipa að mörgu leyti til þeirrar sem á undan kom. Líkt og hún ber nýja platan svakalegan titil, Söngvar um helvíti mannanna, og Sigurjón og Björn eru spurðir að því hvort einhver ákveðin helvíti séu þeim hugleikin fremur en önnur. „Þessi sem við erum að syngja um, aðallega,“ segir Björn og Sigurjón bætir við að á plötunni séu alls konar helvíti.

Þó lagatextar séu augljóslega skáldskapur læðast inn stöku vísanir í einhverja fortíð, að sögn Björns, t.d. í „Vestur-Berlín“ þegar sungið er um menn í leðurbuxum sem sporðrenna kjötbollum og leiðast til glötunar á götum borgarinnar. Ham fór enda í tónleikaferð til Vestur-Berlínar árið 1988 en Sigurjón segist ekki einu sinni hafa kíkt á Berlínarmúrinn í þeirri frægu ferð. „Það hvarflaði ekki að okkur,“ bætir Björn við og félagarnir hlæja að minningunni, greinilegt að ýmislegt hefur gerst í þeirri ferð sem ekki er til frásagnar.

Ham er ekki hætt að leika á erlendri grundu, þó áætlanir um að slá í gegn erlendis hafi verið settar ofan í skúffu og segir Sigurjón að núna séu slíkar ferðir hjá hljómsveitinni meira eins og ferðir miðaldra kvenna í sumarbústað. „En við höfum farið í svona ferðir og það er bara mjög gaman. Undantekningalaust hafa hljóðmennirnir sagt að við séum besta hljómsveit sem þeir hafi heyrt í,“ segir Björn og Sigurjón tekur undir þetta. ,,Ég held við höfum meikað það meðal hljóðmanna en þeir halda gjarnan að við séum djasshljómsveit þegar við mætum af því við erum svo skeggjaðir. En svo byrjum við og þá verður allt vitlaust, þá bara springur kerfið!“ segir Sigurjón og Björn bætir við að Ham sé stundum sett á hátíðir sem ætlaðar eru „young and upcoming“ hljómsveitum, þ.e. sveitum á uppleið sem skipaðar eru ungu fólki. Sigurjón segir að kannski sé í lagi að vera í ,„upcoming“ deildinni en ekki „young“. „Old and upcoming“ væri nær lagi.

Sigurjón Kjartansson og Björn Blöndal reffilegir í sumarblíðunni í fyrradag …
Sigurjón Kjartansson og Björn Blöndal reffilegir í sumarblíðunni í fyrradag þegar viðtalið var tekið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ein helgi dugar til

-En að plötunni. Þið tókuð hana upp á einni helgi. Er venjan hjá ykkur að taka upp á þessum hraða?

„Já, við gerðum þetta líka með hina plötuna,“ svarar Sigurjón og á þar við Svik, harm og dauða. „Það tekur ekkert lengri tíma að taka upp lög, í sjálfu sér, en over-dub og mix og svoleiðis vesen tekur lengri tíma. En þegar maður er kominn með sándið tekur þetta ekkert lengri tíma en eina helgi,“ segir Sigurjón.

-Þið hljótið þá að mæta mjög vel undirbúnir í hljóðver, enginn tími til að læra eitthvað nýtt á staðnum?

„Það hefur nú alveg gerst að maður hefur kallað lögin á meðan við erum að taka þau upp,“ segir Sigurjón sposkur og á þar við að hann hafi kallað upp hljómana í miðjum tökum. ,„D ... oooog næst í E,“ leikur hann með tilþrifum. Björn bendir í framhaldi á að lagið „Ingimar“ af Svik, harmi og dauða hafi t.d. verið frumflutt í hljóðveri á sínum tíma. „Við spilum þetta alltaf „live“ því við höfum prófað að taka allt upp sitt í hvoru lagi og það hentar okkur ekkert sérstaklega vel, okkur finnst meira „drive“ í hinu,“ segir hann. Rúm 20 ár séu liðin frá því Ham komst að þeirri niðurstöðu að þessi upptökuaðferð væri best.

Sigurjón segir hljómsveitina stunda svipuð vinnubrögð nú og þegar hún tók upp sína fyrstu breiðskífu, Hold, í Stúdíói Stemmu. Söngvar um helvíti mannanna var tekin upp í Stúdíói Sýrlandi sem Sigurjón segir „stóran geym“ líkt og Stemma hafi verið, stórt og mikið rými sem henti sveitinni vel. „Svo gáfum við okkur góðan tíma í að mixa þetta, vorum með öflugan mann með okkur, Arnar Guðjónsson, sem er sérdeilis hæfileikaríkur á þessu sviði,“ segir Björn og Sigurjón bætir í og segir sveitina hafa gefið sér marga mánuði í hljóðblöndunina. Platan hafi verið tekin upp í september og hljóðblöndun lokið í febrúar. „Þá tók við masteringar-ferli og við fengum gamlan félaga okkar í það. Eftirvinnslan er ansi drjúg,“ segir Björn.

Eins og eldri íþróttamenn

–Þið eruð allir mjög önnum kafnir. Björn er borgarfulltrúi, Óttarr ráðherra, Sigurjón að vinna fyrir RVK Studios, Arnar rekur hönnunarstofu og Flosi er í meistaranámi í sagnfræði. Það kemur þó ekki niður á gæðum tónlistarinnar...

„Jaaaa... sko, sex ár milli platna eru nú þokkalegur tími og þetta er dálítið unnið þannig. Lögin koma mjöööög hægt og rólega, eitt af öðru og við spilum nokkrum sinnum á ári og þannig verður hægt og rólega til efni í nýja hljómplötu,“ svarar Sigurjón. „Við hittumst svona við og við, það líða stundum mánuðir þar sem enginn hittingur er en við reynum að vera þokkalega opnir fyrir því að spila því út úr því kemur venjulega eitthvað. Kannski fæðist nýtt lag á því æfingatímabili þannig að þegar við erum beðnir um að spila athugum við það vel og vandlega.“

Björn segir Ham þurfa að æfa dálítið mikið þegar tónleikar eru framundan. „Þetta er ekki eins og að hjóla því við þurfum að vera í þokkalegu formi. Þetta er físísk músík og við erum ekkert að yngjast þannig að þetta er öfugt við það sem margir halda, að við þurfum að æfa minna af því við kunnum þetta svo vel. Þvert á móti þurfum við, eins og eldri íþróttamenn, að æfa meira en hinir. Svo tökum við upp einhverja grunna á æfingum,“ segir hann. Lögin séu aðeins spiluð til áður en endanleg útgáfa sé fundin og Sigurjón stundum sendur heim til að betrumbæta þau.

Sigurjón segir hljómsveitina fylgja mjög skýrum gæðastöðlum. „Ég er hættur að þora að koma með léleg lög, þá gefa þeir mér illt auga,“ segir hann og Björn glottir. Hinir í hljómsveitinni veiti honum mikið aðhald í lagasmíðunum. Björn og Sigurjón segjast mjög hrifnir af 10 laga plötuforminu. „Ef þau væru fleiri væru sjö eða átta ár milli platna,“ segir hann og Björn bætir við að mjög mikilvægt sé að lögin séu ekki öll smellir. Sigurjón segist að auki mikill fylgismaður stuttra platna. „Þessi plata er t.d. innan við 40 mín. að lengd og það er að mínu mati afskaplega jákvætt,“ segir hann. Platan eigi ekki að vera lengri en sem nemur akstri frá Reykjavík til Keflavíkur.

Svikamenn og Þjóðverjar

–Óttarr semur alla texta nema einn sem hann samdi með þér, Sigurjón. Hvernig er vinnuferlið, hvort kemur á undan, lagið eða textinn?

„Þetta er dálítið þannig að ég sest niður í stofunni heima hjá honum með kassagítarinn og strömma í gegnum nokkur lög. Óttarr ákveður síðan hvað þau heita, hann var t.d. mjög fljótur að koma með „Vestur-Berlín“, og síðan vinnum við bara út frá því,“ segir Sigurjón kíminn.

–Það er mikið sungið um gamla vini og þá oftast sviksama, svikamenn og heimamenn og svo koma Þjóðverjar oft við sögu. Eru þetta sérstök hugðarefni Óttars?

„Nei, við höfum nú alltaf verið mjög hrifnir af Þjóðverjum. Þjóðverjar eru okkur bara ofarlega í huga af því þeir eru frábærir, nákvæmir og flottir,“ segir Björn og Sigurjón tekur undir það. „En svikin eru bara svo sterkt element, svo fallegt yrkisefni,“ bætir Björn við og Sigurjón segir svik hæfa vel dramatískri hljóðmynd Ham.

–Í laginu „Morðingjar“ er t.a.m. sungið um menn sem komu á bæ, þeir frömdu morð í gær og strjúka fórnarlambi sínu á lær. Var lær kannski fyrsta orðið sem kom upp í hugann af þeim sem ríma við gær?

„Einstaka sinnum er þetta hentugt rímsins vegna. En þetta er staðreynd, þeir frömdu morð í gær og svo koma þeir og strjúka manni á lær, hugsanlega með einhverja áætlun um að endurtaka leikinn,“ segir Sigurjón og Björn skýtur inn í að vinur þeirra Jón Gnarr hafi oft bent á að kómedía sé tragedía plús tími. –Í sama lagi trallar þú, Sigurjón. Er þetta fyrsta Ham-lagið með tralli?

Sigurjón hlær, svarar því játandi og segir að trallið hafi átt vel við.

–Svo er líka dansvænt lag, „Þú fórst hvurt“, með „hliðar saman hliðar“ trommuslætti. Hafa mörg laga Ham til þessa verið dansvæn?

„Jaaa... þau eru alla vega taktföst,“ svarar Björn og Sigurjón segir Ham ávallt hafa borið virðingu fyrir dans- og diskótónlist.

Eftirlit með klæðaburði

–Nú eru tveir stjórnmálamenn í hljómsveitinni. Haldið þið að pólitíkin komi niður á vinsældum Ham?

„Ég er ansi hræddur um það,“ segir Sigurjón sposkur og Björn segir erfitt að meta það. „Einhverjir blanda þessu saman og það er bara allt í lagi,“ segir Björn og Sigurjón bætir við kíminn að fáir vogi sér að blanda þessum tveimur mönnum saman, rokkaranum og stjórnmálamanninum. Björn segir pólitíkina þó ekki flækjast fyrir hljómsveitinni.

–Mig langar að ræða aðeins við ykkur um klæðaburð því ég frétti af því að Sigurjóni hefði verið bannað af hinum í hljómsveitinni að klæðast litríkum, köflóttum skyrtum í myndatökum. Var það ákvörðun sem hljómsveitin tók?

„Þeir bara banna mér það, ég er bara ekki frjáls hvað þetta varðar. Allir aðrir virðast mega gera það sem þeir vilja en ég er undir einhverju sérstöku nálarauga hjá félögum mínum,“ svarar Sigurjón. Hann eigi helst að vera alltaf í svörtum fötum, í myndatökum og á tónleikum.

Björn segir að hljómsveitin hafi m.a.s. farið með Sigurjón í fataverslun á Akureyri og keypt á hann skyrtu. „Það var allt mjög afslappað,“ segir hann um búðarferðina og Sigurjón bætir því við að Björn sé algjörlega búinn að móta sinn fatasmekk og að hann hafi ekkert út á hann að setja. „Óttarr átti einhvern skrautlegasta fataskáp sem hægt var að komast í hér í gamla daga en hefur hins vegar alveg stoppað. Ég er mjög ánægður með hann og hann hefur alltaf verið einn best klæddi maður landsins en fjölbreytnin mætti stundum vera meiri. Þá er ég ekki að tala um sviðslega heldur bara í þessu... ja, ég er kannski að koma hérna með pólitíska gagnrýni?“ segir Sigurjón og Björn bætir við að takmarkanir á klæðaburði Sigurjóns eigi bara við um sviðið og myndatökur. „Við skiptum okkur ekkert af því hvernig þú ert klæddur annars,“ segir hann við Sigurjón og bendir á að Sigurjón hafi lagt ákveðnar línur hvað varðar klæðaburð hljómsveitarinnar á upphafsárum hennar og sjálfur verið þá framúrstefnulegur í klæðaburði. Hann hafi því miður glatað þeim hæfileika.

Geta þagað saman

–Hvernig eru mennirnir í Ham árið 2017 í samanburði við mennina árið 1988?

„Talsvert þroskaðri menn en samt eru allir einhvers konar útgáfa af sjálfum sér 18 ára,“ segir Sigurjón. „Þetta er dálítið eins og að hitta bræður sína, við höfum þekkst frá því við vorum táningar og stundum er þetta eins og þægilegur sófi að setjast í. Við þurfum ekki að segja mikið til að koma skoðunum okkar á framfæri eða koma með eitthvert grín, það þarf ekki að hafa mikið fyrir því,“ segir Sigurjón. „Og við getum þagað saman,“ bætir Björn við og Sigurjón segir að stundum þurfi þeir að minna hver annan á að þeir séu orðnir fullorðnir og geti ekki sagt hvað sem er hver við annan. „En svo þurfum við að díla við skringileg mál. Það eru t.d. allflestir að veipa í þessari hljómsveit og svo kemur heilbrigðisráðherra allt í einu á æfingu og þá þarf að ræða þau mál,“ segir Sigurjón og hlær innilega. Óttarr vilji að menn fylgi ákveðnum reglum hvað veipið varðar, eins og þekkt sé orðið og hljómsveitin þurfi líka stundum að ræða alvarleg mál á borð við heilbrigðis- og skipulagsmál og menntastefnu.

Björn segir hljómsveitina hafa þroskast vel, bæði mennina og músíkina. „Hún hefur náð ágætis jafnvægi í gegnum tíðina,“ segir hann.

Mæta svitanum

Sem fyrr segir verða útgáfutónleikar haldnir á Húrra sem er lítill tónleikastaður og gestir nánast uppi á sviði með hljómsveitinni. Mikil nánd og mikill sviti. Sigurjón og Björn segja langt um liðið frá því hljómsveitin lék síðast á slíkum stað sem henti henni betur en stór svið og salir. „Þetta er okkar leið til þess að mæta aftur svitanum,“ segir Sigurjón um Húrra og tilhlökkunin leynir sér ekki. „Þarna getum við líka ært upp í kerfinu, haft þetta hátt og fínt,“ segir hann. Og eflaust má búast við álíka svitabaði og hávaða fyrir norðan, á Græna hattinum. Miðasala fer fram á vefnum tix.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson