Ekki allt sem sýnist

Leikhópurinn Lotta sýnir Ljóta andarungann um allt land í sumar.
Leikhópurinn Lotta sýnir Ljóta andarungann um allt land í sumar. Hanna Andrésdóttir

„Leikhópurinn Lotta hefur undir stjórn Önnu Bergljótar bætt enn einni fjöðrinni í hatt sinn með uppfærslunni á Ljóta andarunganum. Vonandi gefst sem flestum leikhúsgestum færi á að sjá sýninguna, því boðskapur hennar um þrautseigju, þolinmæði, hugrekki, hjartagæsku og fyrirgefningu á erindi við alla óháð aldri,“ skrifar Silja Björk Huldu­dótt­ir í leik­dómi sín­um um Ljóta andarungann í uppfærslu Leikhópsins Lottu sem sýndur er um allt land í sumar. 

„Líkt og ljúfur vorboði hefur Leikhópurinn Lotta verið mættur í maí ár hvert til að boða leikhúsgestum á öllum aldri gleði, víðsýni, umburðarlyndi, kjark og kærleika. Eftir stutt innlit í Litaland í fyrra snúa velþekktar persónur Ævintýraskógarins aftur í Ljóta andarunganum sem Anna Bergljót Thorarensen skrifar bæði og leikstýrir af miklu öryggi og hugmyndaauðgi.

Ljóti andarunginn skríður úr eggi sínu við óblíðar móttökur systkina …
Ljóti andarunginn skríður úr eggi sínu við óblíðar móttökur systkina sinna. Hanna Andrésdóttir

Eins og titillinn gefur til kynna er fuglsunginn úr ævintýri danska þjóðskáldsins H.C. Andersen í lykilhlutverki. Ljóti andarunginn (Sumarliði V. Snæland Ingimarsson), sem í reynd er svanur, fæðist fyrir mistök inn í andafjölskyldu. Eðli málsins samkvæmt er hann ekki eins og hinir ungarnir (Anna Bergljót Thorarensen og Stefán Benedikt Vilhelmsson), sem taka honum vægast sagt illa og leggja í einelti þegar andamamma (Þórunn Lárusdóttir) og andapabbi (Sigsteinn Sigurbergsson) sjá ekki til. Í depurð sinni ráfar unginn ólánsami einsamall um Ævintýraskóginn og kynnist öðrum íbúum sem rifja upp eigin sögur sem stappa stálinu í ungann.

Öskubuska (Helga Ragnarsdóttir) rifjar upp vonsku systra sinna og kennir unganum mikilvægi þess að standa með sjálfum sér. Hún minnir einnig á að hamingjan kemur til þeirra sem hafa hreint hjarta. Minnsta kiðið (Anna Bergljót Thorarensen) úr sögunni um kiðlingana sjö, sem vegna smæðar sinnar tókst að fela sig í klukkuskápnum og komast þannig undan vondu úlfynjunni (Helga Ragnarsdóttir) og bjarga systkinum sínum úr maga rándýrsins, bendir unganum á að helsti ókostur manns reynist oftar en ekki einnig helsti kosturinn. Skjaldbakan (Stefán Benedikt Vilhelmsson) rifjar upp kapphlaup sitt við hérann (Sigsteinn Sigurbergsson) og minnir á að lífið er langhlaup sem krefst þolinmæði. Loks lærir unginn það í samskiptum sínum við prinsessuna á bauninni (Þórunn Lárusdóttir) að ekki er alltaf allt sem sýnist, því í okkur getur búið meira en aðrir sjá við fyrstu sýn. Áður en yfir lýkur hefur unginn breyst í fagran svan, sem launar ekki illt með illu heldur bjargar allri andafjölskyldunni undan vondu úlfynjunni, enda er vinsemd og virðing í samskiptum besta vegarnestið.

Sigsteinn Sigurbergsson og Þórunn Lárusdóttir í hlutverkum sínum sem Hekla …
Sigsteinn Sigurbergsson og Þórunn Lárusdóttir í hlutverkum sínum sem Hekla og Katla, vondu systur Öskubusku. Hanna Andrésdóttir

Líkt og síðustu ár er sýningarumgjörðin öll til mikillar fyrirmyndar. Búningar Kristínu R. Berman eru litríkir og fullir af sniðugum lausnum eins og sést vel í umskiptum Öskubusku, bakpokanum sem þjónar sem skel skjaldbökunnar og derhúfum sem mynda andanefin,“ segir m.a. í dómnum og áfram er haldið. 

„Að vanda leikur tónlistin stórt hlutverk, en boðið er upp á tíu frumsamin lög úr smiðju Helgu Ragnarsdóttur og Rósu Ásgeirsdóttur við söngtexta Önnu Bergljótar Thorarensen. Lögin þjóna sýningunni vel og við endurtekna hlustun má ljóst vera hér leynast bæði gullmolar og eyrnaormar. Danshreyfingar Berglindar Ýrar Karlsdóttur koma vel út í flutningi leikhópsins, sem syngur lögin með nefi hverrar persónu eins og vera ber.

Leikstíll hópsins einkennist af mikilli leikgleði sem skilar sér vel til áhorfenda. Leikarar stökkva leikandi létt milli hlutverka og stela oft á tíðum senunni með skemmtilegheitum í smærri hlutverkum,“ segir í leikdómnum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson